Sagan, stofnendur, eigendur og stjórnendur
Í Bjarnarhöfn er rekin hákarlsverkun ásamt ferðaþjónustu. Þar er nýr veitingastaður og hákarlasafn þar sem gestir geta litið við og fengið upplýsingar um sögu þessarar aldargömlu hefðar okkar Íslendinga. Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn var formlega opnað árið 2003 þrátt fyrir að húsið hafi verið tekið í notkun árið áður. Á þeim tíma var ferðaþjónustan mjög frumstæð grein og var þetta mikið brautriðjandastarf fyrir svæðið. Það var Hildibrandur Bjarnason og eignkona hans Hrefna Garðarsdóttir sem stofnuðu fyrirtækið og stóðu fyrir byggingu safnsins. Árið 2017 féll Hildibrandur frá og er fyrirtækið nú í eigu Hrefnu og barna þeirra hjóna, þeirra Guðjóns Hildibrandssonar, Huldu Hildibrandsdóttur og Kristjáns Hildibrandssonar. Í Bjarnarhöfn er löng hefð fyrir hákarlsverkun og gestamóttöku og árið 2018 opnaði þar að auki veitingastaður.
Vinnulag og framleiðsluferli
Þó að hákarlsverkun sé margra alda gömul hefð þá hefur verkunin verið nútímavædd á síðastliðnum árum þó haldið hafi verið í grunngildi verkunarinnar. Þekking, reynsla og betri tækni hafa leitt þróunina og undið ofan af sérvisku og vanþekkingu sem stjórnuðu verkuninni áður. Á hákarlasafninu hefur alltaf verið lögð rík áhersla á persónulega leiðsögn. Að allir gestir sem þangað koma fái persónulega þjónustu og frásögn frá manneskju sem vel þekkir til. Lengst af var það þjónusta veitt af meðlimum fjölskyldunnar en með stöðugri fjölgun gesta á milli ára varð erfiðara að standa undir slíkri þjónustu svo árið 2014 var fyrsti starfsmaðurinn ráðinn í fullt starf.
Skipulag og sérstaða
Í þessu fjölskyldufyrirtæki er lögð rík áhersla að allir kunni að gera allt. Þó að viss sérfræðiþekking sé ríkari á mismunandi sviðum og fjölskyldumeðlimir hafi hver sitt ábyrgðarhlutverk. Þar hefur markmiðið verið að allir geti gengið í störf annarra og að allir geti hjálpað hverju örðum og unnið að bestu útkomunni hverju sinni. Hvort sem það tengist ýmsum stigum í verkun, pökkun, leiðsögn o.s.frv. Gott orðspor er okkar markaðsetning. Þess vegna leggjum við ríka áherslu að allir viðskiptavinir okkar fari ánægðir frá okkur.
Framtíðarsýn
Þróun síðustu ára hefur verið mikil og hröð og er markmiðið að það haldi áfram, bæði í því sem tengist ferðaþjónustunni og hákarlsverkuninni. Stefnan er sett á að auka framleiðsluna enn meir og gera hákarlinn enn aðgengilegri, jafnt hér á landi sem og erlendis. Ferðaþjónustan er sívaxandi atvinnugrein og er Bjarnarhöfn í góðri stöðu til þess að halda áfram að vaxa á því sviði og nýta sér þau tækifæri sem með því bjóðast. Í nákominni framtíð ætti Bjarnarhöfn að verða fjölfarnari viðkomustaður þar sem gestum býðst að njóta náttúrunnar og sögu staðarins betur og lengur en nú er gert.
Aðsetur
Öll framleiðslan á hákarli fer fram í Bjarnarhöfn. Hákarlinn er að vísu ekki veiddur þar en kemur þangað í heilu lagi þar sem unnið er að honum og hann verkaður. Einnig er loka söluvörunni pakkað á staðnum. Á bænum er sé aðstaða þar sem unnið er að hákarlinum áður en honum er komið fyrir í byggingunni þar sem kæsingin fer fram. Rétt fyrir ofan safnhúsið er hákarlahjallurinn þar sem hákarlinn hangir til þerris og býðst gestum safnsins að líta á hann. Við hliðina á safnhúsinu er svo veitingarstaðurinn Bjarnarhöfn Bistro. Skammt frá er svo Bjarnarhafnarkirkja sem að er lítil bændakirkja í eigu fjölskyldunnar.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Það eru þrír fjölskyldumeðlimir sem starfa hjá fyrirtækinu ásamt einum heilsárs starfsmanni. Á sumrin þegar háannatíminn er í ferðaþjónustunni starfa allt að fimm aðrir starfsmenn hjá fyrirtækinu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd