Bláa Lónið

2022

Bláa Lónið var stofnað árið 1992 af Grími Sæmundsen, lækni og frumkvöðli. Hann er og hefur verið forstjóri félagsins og aðaleigandi frá upphafi.

Starfsemin
Öll starfsemi Bláa Lónsins kjarnast um jarðsjóinn með einum eða öðrum hætti. Hann á uppruna sinn á um 2000 metra dýpi. Jarðsjórinn er ríkur af kísli, örþörungum og steinefnum sem gerir eiginleika hans einstaka á heimsvísu en „National Geographic“ útnefndi hann sem eitt af 25 undrum veraldar árið 2012.
Aðalinnihaldsefni jarðsjávarins, kísillinn, er jafn auðugur af lífvirkum krafti og hann er mikilvægur í sögu Bláa Lónsins. Án kísils til að þétta gljúpt hraunið, hefði lónið aldrei myndast og „undur veraldar“ hefði aldrei myndast í Svartsengi. Það er endurkast frá kísilsameindum í vatninu sem dreifa ljósinu og ljá Bláa Lóninu sinn heimsþekkta bláa lit. Áralangar vísindarannsóknir á eiginleikum lónsins hafa sýnt fram á undraverðan lækningamátt þess, en rannsóknir á böðun í jarðsjónum sýna að þær geta haldið niðri einkennum psoriasis húðsjúkdómsins, þá hafa rannsóknir einnig sýnt að lífvirk efni lónsins hafa virkni gegn öldrun húðarinnar. Lækningastarfsemi Bláa Lónsins er því mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækisins þar sem hún er samofin sögu þess. Frá 1994 hefur Bláa Lónið boðið upp á meðferð við psoriasis sem byggir á einstökum lækningamætti jarðsjávar Bláa Lónsins og notkun meðferðarvara Blue Lagoon Iceland meðferðarvaranna, Íslendingum að kostnaðarlausu.
Í Svartsengi starfrækir Bláa Lónið tvö baðlón, tvö hótel, fjóra veitingastaði, verslun, lækningalind og rannsókna- og þróunarsetur. Auk þess rekur Bláa Lónið tvær verslanir í Reykjavík og eina verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

The Retreat
Með það að markmiði að efla enn frekar upplifun tengda Bláa Lóninu, hóf félagið að undirbúa uppbyggingu lúxushótels í upphafi síðasta áratugar. The Retreat hótelið, er afrakstur þeirrar vegferðar en það var opnað 1. apríl 2018. Það er byggt inn í aldagömul jarðlög sem urðu til við eldsumbrotin í kringum 1200 og er umkringt hinum einstaka jarðsjó Bláa Lónsins. Hótelið er staður þar sem samspil vísinda, náttúru og hönnunar getur af sér einstaka upplifun og vellíðan. Jarðsjórinn flæðir í gegnum heilsulindina, fyllir hraungjárnar í Retreat lóninu, umlykur svíturnar og skapar að lokum tengingu við Bláa Lónið. Þegar hefur Bláa Lónið hlotið á fjórða tug alþjóðlegra verðlauna og viðurkenninga fyrir hönnun hótelsins.
Veitingarekstur Bláa Lónsins byggir á metnaði í matreiðslu, gæðum í hráefnavali og faglegri þjónustu. Veitingastaðurinn Moss opnaði á sama tíma og The Retreat hótelið. Hann hefur hlotið viðurkenningu hjá Michelin og er sá eini sem hlotið hefur þrjá gaffla (e. Forks) hér á landi. Áhersla er lögð á árstíðabundið og ferskt hráefni úr nærumhverfinu og einstaka matarupplifun. Mikilvægur þáttur í ferðalagi gestsins er vínkjallari sem er byggður inn í 800 ára gamalt hraunið.
Húðvörur
Jarðsjórinn er ríkur af eftirsóknarverðum lífvirkum efnum; steinefnum, kísli og örþörungum, sem styrkja og vernda húðina og eru þau lykilhráefni í húðvörum Bláa Lónsins, Blue Lagoon Iceland húðvörunum. Húðvörulínurnar eru þrjár, spa vörulína, meðferðarvörulína og BL+. Húðvörunar eru þróaðar og framleiddar með sjálfbærum hætti. Í rannsókna- og þróunarsetri Bláa Lónsins í Svartsengi hefur verið byggð sérstök hráefnavinnsla þar sem meðal annars eru ræktaðir örþörungar með nýrri umhverfisvænni tækni. Örþörungarnir eru fóðraðir á jarðvarmagasi, sem er ríkt af koltvísýringi. Örþörungarnir binda koltvísýring sem annars færi út í andrúmsloftið. Með þessum hætti er dregið úr kolefnisspori, en það er ávallt markmið fyrirtækisins að leita leiða til að draga úr umhverfisspori þess eins og mögulegt er.
Ný húðvörulína Bláa Lónsins, BL+, byggir á BL+ COMPLEX, sem er byltingarkennt innihaldsefni sem vinnur gegn öldrunareinkennum húðar. Er það afrakstur um 30 ára rannsóknarvinnu á lífvirkni og lækningamætti Bláa Lónsins. BL+ COMPLEX byggir á líftækni og sjálfbærri framleiðslu og nýtir einkaleyfi Bláa Lónsins á örþörungum og kísil. BL+ kemur djúpt úr iðrum jarðar, fer djúpt í vísindin og djúpt niður í húðlögin.

Sjálfbærni og samfélagsábyrgð
Bláa Lónið hefur allt frá stofnun lagt áherslu á samfélagsábyrgð og hefur nálgun Bláa Lónsins að málaflokknum tekið mið af þróun fyrirtækisins og samfélagsins. Samfélagsábyrgð Bláa Lónsins er mikil og víðtæk. Í henni felst, m.a. ábyrgð gagnvart náttúru, samfélagi og sjálfbærni.
Í allri starfsemi Bláa Lónsins er lögð áhersla á að skapa umhverfi þar sem allir geta notið sín á öruggan hátt, bæði gestir og starfsfólk. Hjá félaginu starfa um 600 manns af 30 þjóðernum.
Náttúran er ekki óþrjótandi auðlind og því er sjálfbærni mikilvægur þáttur í rekstri félagsins og starfsemin mótuð í samræmi við hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd