Glófaxi ehf. var blikksmiðja sem stofnuð var í Reykjavík af Benedikt Ólafssyni og Björgvini Ingibergssyni í ársbyrjun 1950. Fyrirtækið hefur hins vegar þróast frá því yfir í iðnfyrirtæki sem framleiðir stálhurðir og þó einkum viðurkenndar eldvarnarhurðir. Fyrirtækið var í fyrstu til húsa í bílskúr við Hrísateig, seinna fluttist starfsemin í 360 fm skemmu við Ármúla 42 (sem reyndar var Ármúli 24 á þeim tíma). Húsakostur félagsins hefur vaxið í áranna rás og er félagið nú enn í Ármúla 42, en í um 800 fm húsnæði.
Eigendur og stjórnendur
Breyting varð í ársbyrjun 2021 þegar nýir hluthafar komu inn 2021 og Jón Helgi Pálsson sem hafði verðið framleiðslustjóri tók við sem framkvæmdastjóri af frænda sínum Bjargmundi Björgvinssyni.
Eldvarnarhurðir
Félagið vann við almenna blikksmíðavinnu til að byrja með, en seinna þróaðist vinnan í að framleiða lofthitakatla fyrir olíubrennara. Eftir að eftirspurn eftir slíkum kötlum dróst saman í kjölfar olíukreppunnar 1974 og með aukinni áherslu á hitaveitu fór fyrirtækið að leggja æ meiri áherslu á framleiðslu eldvarnarhurða, sem var frá þeim tíma og er enn megin framleiðsla félagsins.
Eldvarnahurðir Glófaxa eru landsþekktar og oft notaðar sem viðmið þegar eldvarnarhurðir eru skilgreindar í útboðum. Eldvarnarhurðir Glófaxa voru viðurkenndar af Brunamálastofnun og síðar Mannvirkjastofnun og nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Mikil vinna hefur farið í það hjá fyrirtækinu á undanförnum árum að aðlaga framleiðsluna að þeim kröfum sem gerðar eru til eldvarnarhurða, sem hefur verið undirstaða viðurkenningar á framleiðslunni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Eldvarnarhurðir Glófaxa eru allt frá því að vera litlar eldvarnarlokur upp í stórar rennihurðir sem geta verðið margir fermetar að stærð. Venjulegar eru hurðarnar framleiddar úr venjulegu stáli, en einnig úr galvaniseruðu stáli eða ryðfríu stáli, allt eftir óskum viðskiptavina út frá því umhverfi sem hurðirnar eru í.
Þekking, sérstaða og innflutningur
Innan félagsins hefur eðlilega byggst upp þekking á eldvarnarhurðum sem leitt hefur til þess að félagið flytur inn margvíslegar gerðir af eldvarnarhurðum, s.s. eldvarnarhurðir sem eiga að þola lengri tíma en 60 mín., eldvarnarrúllutjöld o.fl. Vaxandi áhersla er á innflutning á iðnaðar- og bílskúrshurðum. Glófaxi er umboðsaðili fyrir einn stærsta hurðaframleiðanda í Evrópu, Hörmann. Innflutningur frá Hörmann hefur farið vaxandi á liðnum árum og er nú stærsti þátturinn í starfsemi félagsins. Hörmann framleiðir allar gerðir af hurðum, m.a úti- og innhurðir fyrir einbýlishús og skrifstofur, bílskúrshurðir í mörgum útfærslum og iðnaðarhurðir fyrir verkstæði og verksmiðjur. Þá framleiðir félagið einnig hleðslubýr fyrir verksmiðjur.
Glófaxi flytur inn ýmsar aðrar gerðir af hurðum. Þar er hægt að nefna plasthurðir frá hollenska fyrirtækinu Kupan, í því tilfelli hefur Glófaxi smíðað ryðfría karma utanum hurðirnar. Kosturinn við þessar hurðir að þær þola mjög vel votrými og eru því mikið notaðar í sundlaugar og annars staðar þar sem mikill raki er. Þessar hurðir eru notaðar á spítölum og þá með körmum úr ryðfríu stáli gerir það að verkum að þeir eru ekki viðkvæmir þó sjúkrabörur skelli á karminum. Frá Kupan flytur Glófaxi einnig inn fataskápa og munaskápa sem notaðir eru í sundlaugum, líkamsræktarstöðum og í frystihúsum.
Framtíðarsýn
Framtíðaráætlanir Glófaxa byggja á því að þjóna íslenskum markaði með sérsmíðuðum stálhurðum, en þó einkum eldvarnarhurðum. Félagið hyggst einnig halda áfram að styrkja reksturinn með innflutningi á öllum gerðum af stálhurðum.
Viðskiptavinir
Viðskiptavinir Glófaxa eru einkum fyrirtæki í byggingariðnaði, orkufyrirtæki, álver og fiskverksmiðjur. Hluti framleiðslunnar er seldur beint til húseigenda.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd