Blikksmiðjan Vík ehf

2022

Blikksmiðjan Vík 36 ára
Blikksmiðjan Vík var stofnuð 3. september árið 1985 af sex vöskum mönnum í kjölfar þess að Blikksmiðjan Vogur varð gjaldþrota. Ástæðan fyrir gjaldþrotinu var sú að verkefnastaða smiðjunnar hafði breyst skyndilega og í kjölfarið var ekki séð fram úr áframhaldandi rekstri hennar. Ekki var liðinn mánuður frá því að Blikksmiðjan Vogur varð gjaldþrota að sexmenningarnir sem stóðu að stofnun Blikksmiðjunnar Víkur, sem flestir tengdust fjölskylduböndum, færu af stað á ný af miklum krafti við að byggja upp nýja öfluga blikksmiðju. Það atvikaðist með þeim hætti að verkkaupar sem þekktu til sexmenninganna höfðu samband við Eyjólf Ingimundarson og óskuðu eftir því að þeir myndu taka við því verki sem Vogur hafði unnið að við uppsetningu loftræstikerfa. Úr varð að stofnað var til nýs fyrirtækis og er Vík enn starfandi með miklum sóma í dag. Fjöldi starfsmanna á upphafsárunum var 11 ásamt eigendum sem allir komu frá Blikksmiðjunni Vogi og voru þeir starfsmenn hjá Vík um langa hríð frá stofnun. Blikksmiðjan Vík er því, árið 2021, á sínu 36. rekstrarári. Vefsíða: blikkvik.is.

Sagan
Saga Blikksmiðjunnar Víkur er svo löng að hér verður aðeins stiklað á stóru. Fyrstu mánuðina var Vík starfrækt í húsnæði Vogs sem Vík leigði af þrotabúi Vogs. Í desember 1985 flutti Vík sig um set í leiguhúsnæði á Smiðjuveg 18. Loks var fjárfest í framtíðarhúsnæði 10 árum síðar, árið 1995, þegar starfsemin fluttist að Smiðjuvegi 42. Stofnuðu þeir félagar fyrirtækið Húsavík ehf. utan um kaup á nýja húsnæðinu sem er, 300 fm efri hæð og kjallari sem var leigður út í skamman tíma. Félagið festi svo kaup á 240 fm efri hæð aðliggjandi nr. 40 og þar er smiðjan er enn til húsa.

Rekstur
Eignir blikksmiðjunnar Víkur eru allar skuldlausar en sú stefna var tekin snemma að fyrirtækið myndi ekki skuldsetja sig þegar kæmi að fjárfestingu í bílum, búnaði, vélum og verkfærum eða öðrum tækjum sem starfsemin þarfnaðist. Þannig er það og hefur ætíð verið hjá smiðjunni, þ.e. að reksturinn er tryggður fram í tímann og öryggi starfsmanna smiðjunnar ætíð fyrir brjósti borið.

Starfsemin
Stór hluti starfsemi Víkur hefur ávallt verið fólgin í smíði og umsjón með uppsetningu loftræstikerfa í stórfyrirtækjum, m.a. í lyfjaiðnaði, sjávarútvegi og álverum sem og uppsetning loftræstibúnaðar í íbúðarhúsum og iðnaðareldhúsum, mötuneytum, baðherbergjum o.fl. Vík hefur verið leiðandi í framleiðslu loftræstibúnaðar og hlotið viðurkenningar á því sviði. Þá hefur Blikksmiðjan Vík alltaf kappkostað að uppfylla ýtrustu kröfur og mæta óskum viðskiptavina sinna eins vel og mögulegt hefur verið. Loftræstingar eru margbreytilegar eftir þörfum viðkomandi húsnæðis og aðstæðna innifyrir og fyrirtækinu hefur farsællega tekist að mæta þeim þörfum og kröfum, allt frá fyrsta degi til dagsins í dag.
Blikksmiðjan Vík sér einnig um margskonar viðhald sem tengist loftræstikerfum eins og síuskiptum og stillingum sem auka loftgæði o.þ.h. Þá hefur starfsemi blikksmiðjunnar einnig verið fólgið í fjölbreyttum verkefnum tengdum utanhússklæðningum, m.a. panelklæðningum, pönnuklæðningum, báruklæðningum, sléttplötuklæðningum og læstum þakklæðningum. Blikksmiðjan Vík er vel tækjum búin og tilbúin til að takast á við önnur fjölbreytt verkefni og sérsmíði; s.s. á hitaveituskápum, gasskápum, þakrennum, þaktúðum, niðurföllum á svölum og fjölbreyttum lausnum í munstruðum klæðningum með fjöllokk.
Á tímum góðærisins svokallaða, þ.e. á árunum fyrir bankahrunið, höfðu fjármálastofnanir samband við Blikksmiðjuna Vík og buðu lán fyrir tækjakaupum. Í þá daga tíðkaðist það að skuldsetja fyrirtæki fyrir tækjakaupum og öðrum þeim skammtíma fjárfestingum sem tengdust verkefnum. Eigendur Blikksmiðjunnar Víkur tóku þó frekar þá ákvörðun að staðgreiða, bæði vélar og tæki. Það skilaði sér í því að þegar bankarnir féllu stóð fyrirtækið af sér bankahrunið og vel það. Og við tóku verkefni hjá Vík sem aldrei fyrr því þrátt fyrir fjármálahrunið var mikið að gera fyrir verkkaupa sem Vík hefur starfað með nærri öll þau ár sem blikksmiðjan hefur verið starfandi. Svo mikið var að gera að á tímabili þurfti að vinna á vöktum allan sólarhringinn.
Starfsmenn eru 17 með eigendum.

Framtíðarsýn og eigendur
Framtíðin er björt hjá Blikksmiðjunni Vík, fyrirtækið stendur vel og verkefnastaða þess er með ágætum. Fyrirtækið hefur frá árinu 2017 hlotið viðurkenninguna Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri og frá árinu 2018 hlotið frá Creditinfo viðurkenninguna Framúrskarandi fyrirtæki. Áfram verður metnaður lagður í vönduð og nákvæm vinnubrögð og ábyrga stjórn fyrirtækisins.
Stofnendur Blikksmiðjunnar Vík í september árið 1985 voru; Einar Egilsson blikksmíðameistari, Eyjólfur Ingimundarson blikksmíðameistari, Guðmundur Ingimundarson blikksmíðameistari, Jóhann Helgason nemi, Jón Jóhannsson tækniteiknari og Pálmi Helgason blikksmiður.
Tveir stofnendanna, Jón Jóhannsson og Pálmi Helgson, fóru úr eigendahópnum á sínum tíma. Pálmi Helgason hætti 1989 og Jón Jóhannsson árið 2003.

Stofnár 1985
Eigendur eru Einar Egilsson, Eyjólfur Ingimundarson framkvæmdastjóri, Guðmundur Ingimundarson og Jóhann Helgason verkstjóri.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd