Blikksmiðurinn hf.

2022

Blikksmiðurinn hf. var stofnaður í maí 1985 og varð því 35 ára árið 2020. Fyrsta aðsetur fyrirtækisins var í 300 fm leiguhúsnæði að Vagnhöfða 16. Reksturinn gekk vel og haustið 1988 var ráðist í að byggja nýtt og stærra húsnæði að Vagnhöða 10 sem hentaði vaxandi rekstri betur. Fyrirtækið óx og dafnaði enn frekar og hóf innflutning á vörum og búnaði fyrir loftræsingar bæði til eigin nota sem og endursölu til annara fyrirtækja sem er einn af hornsteinum fyrirtækisins enn þann dag í dag. Vaxandi starfsemi kallaði á stærra húsnæði auk stærra athafnasvæði utandyra. Flutt var í nýtt 1700 fm húsnæði að Malarhöfða 8, haustið 1996 sem er aðsetur fyrirtækisins í dag. Fyrstu árin var hluti húsnæðis leigður út en eftir því sem árin liðu var meira af húsnæði tekið undir eigin starfsemi. Að vori árið 2000 var síðan ráðist í að byggja 300 fm vörugeymslu til að hýsa innflutning ásamt því að hýsa almenna starfsemi. Fyrirtækið er í dag rekið í 2000 fm húsnæði að Malarhöfða 8, auk 300 fm lagerhúsnæðis í Kópavogi. Núverandi eigendur sem hafa rekið fyrirtækið frá vori 2005, eru: Karl Hákon Karlsson Byggingatæknifræðingur, framkvæmdastjóri, Valdimar Þorsteinsson, Guðmundur Jónsson og Ágúst Páll Sumarliðason. Allir eigendur eru Blikksmiðir að mennt. Allir eigendur eiga sér langa sögu með fyrirtækinu og starfa við það, Guðmundur og Valdimar hófu störf síðsumars 1985, Karl á vormánuðum 1986 og Ágúst um haustið 1998.

Starfsemin
Aðalstarfsemi fyrirtækisins er og hefur verið fjölþætt, nýsmíði loftræsikerfa, viðhald og þjónusta loftræsikerfa, smíði á utanhússklæðningum ásamt allri almennri blikksmíði ásamt uppsetningu og hönnunar stjórnbúnaðar loftræsikerfa. Fyrirtækið er í dag deildaskipt, þ.e. framleiðsludeild, þjónustudeild, tæknideild og rafmagnsdeild. Hefur þáttur þjónustu- og rafmagnsdeilda farið ört vaxandi undanfarin ár. Auk þessa á Blikksmiðurinn hf. dótturfyrirtæki starfandi í sömu grein sem er Blikk ehf. á Selfossi.
Blikksmiðurinn hf. hefur frá byrjun lagt ríka áherslu á að hafa á að skipa hæfu starfsfólki ásamt góðum tækjabúnaði. Lögð hefur verið áhersla á að sinna menntun nýrra starfsmanna, styðja við iðnnám í stéttinni, útskrift nýsveina ásamt endurmenntun starfsmanna. Á fjórða tug blikksmiðasveina hafa lokið námi sínu hjá Blikksmiðnum hf. og núna vorið 2021 eru tveir rafvirkjar að útskrifast frá rafmagnsdeild fyrirtækisins með sveinspróf í rafvirkjun sem er lýsandi fyrir þróun Blikksmiðsins hf. Vél- og tækjabúnaður hefur verið í örri þróun hjá fyrirtækinu undanfarin ár. Í dag er Blikksmiðurinn hf. í fremstu röð iðnfyrirtækja á sínu sviði og hefur yfir að ráða nýjum og afkastamiklum vélum til að smíða stokka, spírórör og spírófittings ásamt tækjum og búnaði til að klippa og forma plötuefni til klæðninga. Árið 2015 urðu ákveðin straumhvörf í rekstrinum þegar fest voru kaup á sjálfvirkri vélasamstæðu til að smíða kantaða stokka frá Spiro í Sviss, þessu fylgdi innflutningur á plötuefni í rúllum og vinnsla innan dyra gjörbreyttist ásamt því að nýting hráefna batnaði til muna og er í dag á borð við það besta sem þekkist hérlendis. 2017 voru síðan fest kaup á vél til framleiðslu á spíralvöfðum rörum þannig að öll framleiðsla á stokkum og rörum er innan veggja fyrirtækisins í stað erlendra innkaupa. Innflutningur bæði til eigin nota og einnig til endursölu til annara fyrirtækja hefur einnig aukist og er töluverður hluti starfseminnar, fyrirtækið flytur inn um 90% af vörum til eigin rekstar. Blikksmiðurinn hf. er með á lager allar helstu hluti í loftræsikerfi, þ.m.t. loftræsisamstæður, blásara, hitaelement, rakatæki, kælitæki, hitablásara, loftristar og stjórntæki. Frá upphafi hefur verið kappkostað að eiga gott samstarf við bæði innlenda og erlenda birgja. 
Hjá Blikksmiðnum hf. hefur frá byrjun verið starfrækt tæknideild sem veitir viðskiptavinum ráðgjöf um hagstæðustu lausnir hverju sinni. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í alverktöku á loftræsikerfum, þ.e. „turn key” verkefnum sem samanstanda af hönnun, skilum gagna til byggingaryfirvalda, uppsetningu kerfa ásamt raftengingu og stillingum. Blikksmiðurinn hf. hefur frá upphafi gert viðskiptavinum föst tilboð í verkefni þeim að kostnaðarlausu. Sá hluti hefur einnig farið ört vaxandi undanfarin ár.

Kjörorð
Kjörorð Blikksmiðsins eru „Þekking, færni, þjónusta” okkar skilningur á þeim er: Við þekkjum okkar fag og leggjum áherslu á að fylgjast með nýjungum á okkar sviði til að viðhalda þekkingunni, við höfum færni til að leysa þau verkefni sem við tökum að okkur bæði tæknilega og faglega, við erum þjónustufyrirtæki og reynum að leysa þau verkefni sem við tökum að okkur á hagstæðan hátt fyrir viðskiptavininn með því að beita þekkingu og færni.

Helstu verkefni undanfarinna ára:

  • Korputorg: loftræsing sem þjónar Myllunni og Frón
  • Thor Data Center: kælikerfi fyrir 1, 2 MW
  • Reykjavíkurborg: viðhald við fasteignir Reykjavíkurborgar frá 2005, þjónustusamningar um 60% af eignum borgarinnar
  • Alvogen: loftræsing lyfjaverksmiðju
  • Búðarhálsvirkjun: loftræsing
  • Búrfellsvirkjun II: loftræsing
  • Klettaskóli: loftræsing
  • Sjúkrahótel við Landsspítalann: Bream vottað verkefni, loftræsing og klæðningar
  • Menntaskólinn við Sund: loftræsing
  • Dalskóli, allir áfangar: Bream vottað verkefni, loftræsing
  • Einholt/Þverholt byggðakjarni Búseta: loftræsing
  • Elliðabraut 16-22: loftræsing fjölbýlishúsa, tímamótaverkefni varðandi loftræsingu fjölbýlishúsa með innsteyptar lagnir og loftræsisamstæðu fyrir hverja íbúð
  • Urðarhvarf 8: loftræsing
  • Reitir fasteignafélag: hönnun og endurnýjun loftræsinga í eftrfarandi byggingum: Suðurlandsbraut 24 (umhverfisvottað verkefni fyrir Umhverfisstofnun), Skaftahlíð 24, skrifstofur Landsspítalans, 3. Hæð Kringlunnar, H&M Kringlunni, Hagkaup Kringlunni, Eiríksgata 8, göngudeildir Landsspítalans.

Lykiltölur úr rekstri
Starfsmannafjöldi Blikksmiðsins hf. án dótturfélaga hefur verið um 50 manns undanfarin ár, meðalvelta undanfarinna ára hefur verið um 1.100 milljónir. Fyrirtækið hefur verið í hópi fyrirmyndarfyrirtækja Creditinfo frá 2014.

Umhverfismál
Blikksmiðurinn hf. leggur áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif framleiðslu sinnar, að framleiðslan uppfylli kröfur um umhverfi, heilnæmi, gæði og virkni, að stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu þess úrgangs sem til fellur í framleiðslunni, að tæki og búnaður uppfylli ströngustu kröfur um lágmarks orkunotkun og nýtingu hráefna, að uppfylla allar kröfur sem settar eru í gildandi lögum og reglugerðum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd