Um mitt ár 1942 var stofnuð í Hafnarfirði blikksmiðja sem hlaut nafnið Dvergasteinn hf. Að stofnun Dvergasteins hf. stóðu ungir og framsýnir menn: Jes Ágúst Jónsson blikksmíða-meistari, Alexander Guðjónsson vélvirkjameistari og Jón Sigurðsson vélvirkjameistari.
Þeir keyptu gamalt kennsluhús Flensborgarskóla sem stóð við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði og hófu þeir starfsemi þar. Árið1944 fluttu þeir starfsemi sína í nýtt húsnæði að Norðurbraut 41. Í fyrstu voru starfsmenn 4, en fjölgaði síðan upp í 6. Meðal annars framleiddi Dvergasteinn þvottapotta sem voru mjög vinsælir. Þeir framleiddu einnig netabaujur fyrir fiskibáta, síðar tóku plastbaujur við. Dvergasteinn hóf innflutning á gleri og voru fyrstir með framleiðslu á tvöföldu gleri á Íslandi.
Sagan
Árið1958 Keypti Jes Ágúst Jónsson fyrirtækið og nefndi það Blikksmiðja Ágústar Jónssonar.
1970 tók hann Einar son sinn inn í fyrirtækið og þeir stofnuðu saman Blikksmiðju Hafnar-fjarðar hf. Í stjórn félagsins var Einar Jes Ágústsson blikksmíðameistari sem annaðist daglegan rekstur. Meðstjórnendur voru Jes Ágúst Jónsson og Birna G. Ástvaldsdóttir. 17. janúar.1978 störfuðu þar 18 manns, 3 meistarar, 4 sveinar, 4 lærlingar og 7 aðstoðarmenn, þar af ein stúlka. Við lok ársins 1980 hefur smiðjan útskrifað 8 sveina í blikksmíði.1980 flutti blikksmiðjan í eigið húsnæði að Helluhrauni 2a. Þar var farið út í tilboð í lofthita og loftræstikerfum fyrir skóla og stærri byggingar, en til að hægt væri að gera tilboð í skóla og önnur hús á vegum Reykjavíkurborgar þurfti fyrirtækið að breyta nafni Blikksmiðju Hafnarfjarðar hf. í Blikktækni ehf. (pólitík).
Starfsemin
Hjá Blikktækni var handverk alltaf í hávegum haft og eftir að flutt var að Kaplahrauni 2-4 lagaðist öll aðstaða og verkefnin urðu stærri, svo sem flugstöðin í Keflavík, allar milliveggja-stoðir um það bil 120 tonn af blikki og öll smíði undir landganginn. Eins og áður segir var mest unnið í loftræstikerfum, klæðningum á þökum eins og til dæmis verkfræðingahúsið, skiptistöðin í Mjódd en gullmolinn okkar er kapellan á Jófríðarstaðartúni í Hafnarfirði, þar sem læst sinkklæðning var lögð á þök hennar. Lofræstikerfið í Bláfjallskálanum, flugeldhúsið á Keflavíkurflugvelli, loftræstikerfið á Hlemmi sem er í notkun í Mathöllinni og svona mætti lengi telja.
Fyrirtækið
Við héldum okkar striki með 12 manns í vinnu og vorum komnir út í almenna blikksmíðaþjónustu til ársins 2012 en þá var síðustu starfsmönnum sagt upp störfum. Við leigjum húsnæðið og aðstöðuna til blikksmiðjunnar Blikkhellu ehf. frá 1. apríl 2018. Nafn Blikktækni ehf. og Blikksmiðja Hafnarfjarðar ehf. eru enn skráð og eru í hvíldarstöðu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd