Blönduósbær

2022

Á Norðvesturlandi við ósa Blöndu, einnar bestu laxveiðiár Íslands, er bæjarfélagið Blönduós. Byggðin stendur í kvos báðum megin Blöndu undir bröttum marbökkum, sem eru víðast um 40 m háir, og liggur þjóðvegur 1 í gegnum bæinn. Í lok árs 2020 bjuggu um 950 manns á Blönduósi. Upphaflega var bæjarfélagið í tveimur sveitarfélögum. En byggðin sunnan ár tilheyrði Torfalækjarhreppi og norðan ár var það Engihlíðarhreppur. Árið 1914 var Torfalækjarhreppi skipt upp og varð byggðin sunnan ár að sérstökum hreppi, Blönduóshreppi. Í febrúar 1936 var byggðin norðan ár sameinuð kauptúninu. 4. júlí 1988 varð hreppurinn að bæjarfélagi og fékk þá nafnið Blönduósbær og hélst það nafn þegar Engihlíðarhreppur var sameinaður bæjarfélaginu 9. júní 2002.

Sveitarstjóri:

  • Valdimar O. Hermannsson

Sveitarstjórn:

  • Guðmundur Haukur Jakobsson, atvinnurekandi og forseti sveitarstjórnar
  • Sigurgeir Þór Jónasson, rafmagnsverkfræðingur og formaður byggðaráðs
  • Anna Margret Sigurðardóttir, kennari
  • Hjálmar Björn Guðmundsson, rafvirki
  • Arnrún Bára Finnsdóttir, kennari
  • Gunnar Tryggvi Halldórsson, gæðastjóri
  • Jón Örn Stefánsson, sjávarútvegsfræðingur

Atvinnulíf og náttúra
Atvinnulíf bæjarins byggist á landbúnaði, iðnaði, verslun og þjónustu við íbúa í nærsveitum og ferðamenn. Á Blönduósi má finna alla helstu þjónustu svo sem bókasafn, kaffihús, veitingastaði, matvöruverslun, vínbúð og alla almenna þjónustu.
Náttúran umlykur bæjarfélagið býður upp á endalausa möguleika. Hrútey, sem varð opinn skógur árið 2003, er lítil eyja ofar í ánni sem áhugavert að skoða. Þar má finna góða göngustíga og rjóður með borðum og bekkjum þar sem hægt er að setjast niður. Göngustígur liggur meðfram ánni að sjónum. Það má finna fjölbreytt fuglalíf við ósa árinnar og má meðal annars finna næst stærsta straumandarstofn í Evrópu, eins er oft hægt að sjá seli í og við ósa Blöndu. Ekki má gleyma glæsilegri íþróttamiðstöð og sundlaug bæjarins sem er þess virði að heimsækja.

Textílmiðstöðin
Í byrjun árs 2019 var Textílmiðstöð Íslands stofnuð með sameiningu Textílsetursins og Þekkingasetursins á Blönduósi. En meginmarkmið hennar er að vera alþjóðleg miðstöð rannsóknar- og þróunarstarfssemi í textílframleiðslu, textíllistum og handverki í texíl. En býður einnig upp á aðstöðu fyrir háskólanám og fullorðinsfræðslu í samstarfi við aðra háskóla og símenntunarstöðvar. Textílmiðstöðin leggur áherslu á nýsköpunar-, þróunar- og samstarfsverkefni í tengslum við textíl, menningu og sögu svæðisins sem stuðlar að atvinnuuppbyggingu svæðisins. Textílmiðstöðin opnaði fyrsta TextílLab á Íslandi í maí 2021.

Umhverfi
Blönduósbær leggur áherslu á hreint og snyrtilegt umhverfi, en allt umhverfi bæjarins er grasi gróið. Bærinn rekur eigin sorpflokkun og tekur á móti spilliefnum, einnig er starfræktur urðunarstaður fyrir Blönduós og nágrannasveitir. Í samstarfi við Húnavatnshrepp rekur Blönduósbær slökkvilið og hafa þeir yfir að ráða 3 slökkvibílum og þjónustubifreið, en á útkallsskrá eru að jafnaði 15 manns. Ný slökkvistöð Brunavarna A-Hún., er nú í innréttingu að Efstubraut 2.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd