Bolungarvíkurkaupstaður er sjálfstætt sveitarfélag á Vestfjörðum. Þann 10. apríl 1974 fékk sveitarfélagið kaupstaðarréttindi en hét áður Hólshreppur. Kaupstaðurinn dregur nafn sitt af vík sem er yst í Ísafjarðardjúpi. Víkin er ein elsta verstöð landsins og er stutt í góð fiskimið. Upp af víkinni liggja tveir grösugir dalir, Syðridalur og Tungudalur. Syðridalsvatn er í Syðridal og er þar nokkur veiði og eins í Ósá. Samkvæmt Landnámabók settist Þuríður sundafyllir að í Bolungarvík um 940 ásamt bróður sínum Þjóðólfi. Sagnir herma að þau hafi orðið ósátt og lagt álög hvort á annað en bæði voru fjölkunnug. Þuríður lagði á bróður sinn að hann skyldi verða að klettadrangi sem fuglar drituðu á. Þjóðólfur lagði hins vegar á Þuríði systur sína að hún skyldi verða að bergstandi sem vindar gnauðuðu mest á. Klettadrangurinn sem sagður var vera Þjóðólfur hrundi haustið 1836. Sagnir herma að sömu nótt hafi einnig hrunið úr Þuríði. Framan af öldum var byggðin nær eingöngu í dölunum og í Skálavík. Næst sjónum, á Bolungarvíkurmölum, var búseta hins vegar vertíðarbundin langt fram á 19. öld. Um aldamótin 1900 fjölgaði íbúum mjög og þorp myndaðist við sjávarsíðuna. Þá reis ný kirkja, einnig barnaskóli, stúkuhús, vélsmiðja, bátasmíðaverkstæði, íshús og nokkur fiskverkunarhús. Verslanir voru stofnaðar, svo og sparisjóður og bókasafn. Á þessum tíma var mannlíf allt í miklum blóma og ýmis félagasamtök hófu starfsemi, m.a. stúka, kvenfélag, ungmennafélag, leikfélag og málfundafélag. Eftir að bátarnir stækkuðu með vélvæðingu bátaflotans í upphafi aldarinnar hélt erfið lendingaraðstaða aftur af vexti þorpsins. Með bættri hafnaraðstöðu um miðja öldina varð uppsveifla og íbúum fjölgaði næstu áratugi. Bolungarvík komst í vegasamband við Ísafjörð árið 1950 með opnun vegarins um Óshlíð, sem var stórt framfaraskref. Enn í dag eru sjósókn og fiskvinnsla aðal atvinnugreinarnar. Önnur störf eru flest í verslunar- og þjónustugeirum. Bolungarvíkurgöng voru opnuð 25. september 2010 og hafa reynst mikil samgöngubót en þá lagðist vegurinn um Óshlíð af.
Þann 1. janúar 2020 voru íbúar 955. Forseti bæjarstjórnar er Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir. Formaður bæjarráðs er Baldur Smári Einarsson og bæjarstjóri er Jón Páll Hreinsson. Fjórir fulltrúar D-lista, Sjálfstæðismanna og óháðra mynda meirihluta bæjarstjórnar en fulltrúar K-lista, Máttar meyja og manna eru þrír. Í síðustu kosningum var Y-listi Framboðs einnig í boði en hlaut engan fulltrúa kjörinn. Árið 2019 voru stöðugildi sveitarfélagsins 77. Bolungarvík er í 473 km fjarlægð frá Reykjavík en einungis 14 km eru til Ísafjarðar. Umhverfi Bolungarvíkur býður upp á marga áhugaverða staði fyrir ferðafólk hvort sem ferðast er á puttanum, hjólandi, akandi, á hestbaki eða til að stunda göngur, golf, sjóstangveiði eða fuglaskoðun. Í Bolungarvík er að finna gistiaðstöðu, hraðbanka, pósthús, tvo bari, félagsmiðstöðvar, kjörbúð, kaupmannsverslun, leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, hannyrðaverslun og bókakaffi.
Í Bolungarvíkurkaupstað er að finna eftirtaldar stofnanir: Áhaldahús, Bolungavíkurhöfn, bókakaffi, félagsheimilið, íþróttamiðstöðina Árbæ, sundlaug, náttúrgripasafn og Ósvör.
Hjarta bæjarins
Þrjár bryggjur mynda Bolungarvíkurhöfn. Nyrst og austast er Brimbrjótur, í daglegu tali nefndur Brjóturinn, þar sem fiskilöndun fer fram. Sumarið 2020 hefur verið unnið að endurbótum á Brjótnum með bættri þekju og viðlegukanti. Grundargarður lokar höfninni til suðausturs og þar leggjast stærri bátar að. Fyrir miðri höfn er Lækjarbryggja þar sem ferðamannabátar og strandveiðibátar leggjast að og þar suðvestan við eru tvær minni flotbryggjur fyrir smábáta. Bryggjukantar eru alls 560 m og mesta dýpi við kant er 8,7 m, lengd á þeim kanti er 120 m. Snúningssvæði í höfn er 9m á dýpt, 90 m í þvermál og dýpi í innsiglingu er 9,5 m. Heimabátarnir eru handfærabátar, línubátar, netabátar, einn togari, rækjuveiðibátar og sjóstangveiðibátar á sumrin. Aðkomubátar landa einnig oft í Bolungarvíkurhöfn. Einn aðal fiskmarkaður er í Bolungarvík og svo er annar minni í sniðum. Ein öflug fiskvinnsla er í Bolungarvík og svo er harðfiskframleiðsla. Einnig er unnið hágæða lýsi úr lifur sem kemur beint úr slægingu af fiskmarkaðnum í húsnæði við höfnina sem og stórtæk mjólkurvinnsla í fyrrverandi fiskvinnsluhúsnæði.
Lýðheilsa og velferð
Mikil áhersla er lögð á lýðheilsu og íþróttir í Bolungarvík. Íþróttamiðstöðin Árbær gegnir þar lykilhlutverki með sundlaug, íþróttasal, þreksal, vatnsrennibraut, sundlaugargarði, sauna með hvíldaraðstöðu, nuddþjónustu og barnagæslu. Einstakt verkefni sem nefnist Heilsubærinn Bolungarvík heldur úti heilsutengdri dagskrá. Helsta markmiðið verkefnisins er að hver og einn finni til ábyrgðar gagnvart sjálfum sér og eigin heilsu. Einnig er í boði heilsustígur, golfvöllur, hreystivöllur, frisbígolfvöllur, knattvöllur, ærslabelgur og fjölbreyttar gönguleiðir. Þá er íþróttamaður Bolungarvíkur kjörinn árlega.
Áður var hjúkrunarheimili í Skýlinu en heimilið flutti í nýtt húsnæði árið 2015 sem er í eigu Bolungarvíkurkaupstaðar og einkaaðila en kaupstaðurinn leigir sinn hluta til ríkisins undir hjúkrunarheimili. Í húsinu eru einnig íbúðir í einkaeigu. Hjúkrunarheimilið í Bolungarvík nefnist Berg. Hjúkrunarheimilið er í húsnæði sem byggt var við og er samtengt húsnæði sem kallast Árborg en í því húsi eru íbúðir og félagsaðstaða fyrir aldraða auk glæsilegrar aðstöðu fyrir sjúkraþjálfara og safnaðarheimili Hólskirkju.
Félagsmótun
Mikil áhersla er lögð á félagsmótun í Bolungarvík. Bærinn rekur eitt glæsilegasta félagsheimili landsins, sannkallaða perlu Vestfjarða. Sjómannadagur Bolungarvíkur hefur verið í boði í yfir 80 ár og markaðsdagurinn í 30 ár og fleiri árlegir viðburðir eru settir upp. Drymla er handverkshús og fjölmörg félög af ýmsum toga eru starfrækt en þar fara fremst í flokki félög um björgun og slysavarnir og félög sem leggja áherslu á þjónustu við eldri borgara.
Bolafjall og ferðaþjónusta
Unnið hefur verið að eflingu þjónustu við ferðafólk undanfarin ár. Lengi vel hefur Sjóminjasafnið Ósvör verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Í samvinnu við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er nú unnið að uppbyggingu útsýnsispalls á Bolafjalli en bjargbrúnin hefur einnig reynst vinsæl meðal ferðafólks. Markmiðið með pallinum er að auka þá upplifun sem ferðamenn sækjast eftir í heimsókn á Bolafjall en ekki síður að tryggja öryggi þeirra sem þar koma og bæta aðgengi fyrir fatlaða. Þá standa vonir til að pallurinn muni auka til muna heimsóknir ferðafólks til Bolungarvíkur.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd