Feðgarnir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson opnuðu fyrstu Bónusbúðina í 400 fm húsnæði við Skútuvog laugardaginn 8. apríl 1989. Jóhannes sagði í DV við þetta tækifæri: „Verslunin nefnist Bónus og dregur nafn sitt af þeim afslætti sem veittur verður af öllum vörum.“ Ekki þarf að fara mörgum orðum um viðtökur landsmanna. Þær voru í einu orði sagt frábærar enda vöruverð strax miklu lægra í nýju versluninni. Salan varð strax þrefalt meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og um mitt sumar 1989 var ráðist í að opna aðra Bónusverslun, í Faxafeni 14. Ári síðar, 1990, var svo þriðja verslunin opnuð að Reykjavíkurvegi 72 í Hafnarfirði og öðru ári seinna sú fjórða, að Smiðjuvegi í Kópavogi. Sama ár var opnað í Iðufelli og á árinu 1992 á Seltjarnarnesi.
Kaflaskil í stjórnun
Guðmundur Marteinsson, núverandi framkvæmdastjóri Bónus, byrjaði árið 1992 sem almennur starfsmaður og var kunnugur öllum störfum, frá því að sópa, vera í kerrum, yfir í að vera á kassa og síðan verslunarstjóri árið 1993. Á árunum 1995-1997 starfaði Guðmundur sem aðstoðamaður Jón Ásgeirs og tók síðar við sem framkvæmdastjóri Bónus árið 1998 og hefur stýrt fyrirtækinu í gegnum mestu vaxtaár þess. Skrifstofur Bónus hafa alltaf verið á sama stað, fyrir ofan fyrstu verslun Bónus að Skútuvogi 13 þar sem að ævintýrið hófst fyrir 32 árum.
Sérstaða Bónus
Bónus hefur allt frá stofnun lagt höfuðáherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum lægsta mögulega matvöruverð á Íslandi. Fyrir stofnun Bónus fóru rúmlega 23% af ráðstöfunartekjum neytenda í matarinnkaup en með tilkomu Bónus lækkaði hlutfallið verulega, lægst niður í 13%. Hönnun verslana Bónus miðar að því að halda kostnaði í lágmarki. Áhersla er lögð á lítinn íburð og með einföldum innréttingum og snjöllum lausnum, eins og opnum göngukælum undir ferskvöru, er hægt að halda rekstrarkostnaði og vinnu við áfyllingu á vörum í lágmarki. Opnunartími verslana er einnig takmarkaður til þess að lámarka kostnað. Bónus hefur frá fyrstu tíð kappkostað að bjóða neytendum algengustu vöruflokkana en með breyttum neysluvenjum hefur vöruval aukist til muna. Vöruframboðið spannar allar meginþarfir heimilishaldsins en auk þess býður Bónus úrval af sérvöru, eins og grunnvöru í fatnaði og árstíðabundnar vörur.
Bónus í hnotskurn
Bónus telur mjög mikilvægt að standa undir því trausti sem að almenningur hefur sýnt verslunarkeðjunni í gegnum árin. Bónus hefur ávallt lagt áherslu á að láta neytendur njóta ávinningsins sem að næst með lægri kostnaði og hagstæðum innkaupasamningum með lágmarks álagningu, sem að skilar sér í lægra vöruverði. Einnig hefur Bónus lagt áherslu á að bjóða viðskiptavinum sama verð hvar sem er á landinu og er því sama lága verðið í öllum verslunum Bónus.
Bónus árið 2020
Í dag rekur Bónus 30 verslanir víðsvegar um landið en 18 eru á höfuðborgarsvæðinu og 12 á stórum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni. Hjá Bónus starfa rúmlega 400 manns í föstu starfi en um eitt þúsund starfsmenn í heildina með hlutastörfum. Starfsmenn á skrifstofu sem hægt væri að skilgreina sem yfirbyggingu hafa haldist nær óbreyttir frá stofnun þrátt fyrir mikinn vöxt fyrirtækisins. Bónus tekur virkan þátt í samfélagslegum verkefnum og hjá fyrirtækinu starfa 45 einstaklingar með skerta starfsgetu við hin ýmsu verslunarstörf. Eitt stærsta samfélagsverkefni Bónus frá stofnun hefur verið að bjóða sama lága verðið um land allt en auk þess hugar keðjan vel að umhverfisvernd og takmarkar sóun eins og kostur er enda miklir hagsmunir í húfi. Bónus gerir sér grein fyrir ábyrgðinni sem fylgir rekstri stórrar verslanakeðju og áhrifunum sem slíkur rekstur getur haft á umhverfið. Síðastliðin ár hefur Bónus því lagt aukna áherslu á að stuðla að verndun umhverfis og náttúru með góðri og virkri umhverfisstefnu. Hjá Bónus er rekstur allra verslana kolefnisjafnaður, sorp er flokkað vandlega og fjöldi verkefna sem stuðla að minni plastnotkun og matarsóun. Til að mæta breyttum neysluvenjum viðskiptavina hefur vöruúrval Bónus tekið breytingum með hverju ári. Í dag er Bónus með hátt í 4500 vörunúmer í stærstu verslunum sínum. Vöruúrvalið er því fjölbreytt
en hnitmiðað og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í hillum Bónus. Þrátt fyrir aukið vöruúrval hefur Bónus aldrei kvikað frá upprunalegu hugmyndafræði sinni þ.e að koma vörum frá framleiðendum til neytenda með sem minnstum tilkostnaði fyrir neytendur og það hafa neytendur kunnað vel að meta.
Samfélagsleg ábyrgð er Bónus hjartans mál
Bónus hefur ávallt lagt mikla áherslu á umhverfismál og flokkað plast, pappa og annan úrgang í fjölda ára í öllum verslunum. Verslunin var til að mynda fyrst allra íslenskra matvöruverslana til að kolefnisjafna rekstur sinn á árinu 2018. Verslunin hefur verið leiðandi í umhverfismálum á Íslandi og hætti til að mynda sölu á hefðbundnum plastpokum í október 2018 og hóf að bjóða viðskiptavinum sínum upp á 100% lífniðurbrjótanlega poka í stað þeirra. Sömuleiðis reynir verslunin að sporna við hvers kyns matarsóun eftir fremsta megni með góðum árangri. Lýðheilsumál hafa einnig verið ofarlega í huga Bónus og styður verslunin við fjölda íþróttafélaga á Íslandi og hefur jafnframt aldrei selt tóbak. Andaðu léttar með Bónus – Við vitum að góð og markviss umhverfisstefna getur skipt sköpum þegar kemur að þeim aðgerðum sem fyrirtæki leggjast í til að ná settum markmiðum í umhverfis- og samfélagsmálum. Upp á síðkastið höfum við starfað undir stefnunni Andaðu léttar þegar kemur að umhverfismálum okkar, sem og mikilvægum áherslum hvað varðar lýðheilsu. Sú stefna endurspeglar vel þær aðgerðir sem við höfum á síðustu árum lagt áherslu á og höfum unnið markvisst að eftirfarandi málefnum innan þeirrar stefnu með góðum og mælanlegum árangri. Málaflokkarnir fjórir sem snúa að umhverfismálum eru: Kolefnisjöfnun, flokkun sorps, saman gegn matarsóun og minna plast.
Framtíðarsýn
Bónus hefur gengið í gegnum óvenjulega tíma á síðustu misserum. Kórónuveirufaraldurinn hefur geysað af miklum þunga og haft í för með sér mikið álag á starfsfólk og stjórnendur Bónus. Öryggi starfsfólks og viðskiptavina hefur verið í fyrirrúmi og við höfum leyst margar áskoranir til að tryggja öryggi sem best í takt við samkomutakmarkanir og sóttvarnir. Stjórnendur og starfsfólk hefur sýnt á síðustu misserum að með þrautsegju og lausnamiðuðu hugarfari getur fyrirtækið brugðist við mjög erfiðum aðstæðum og erum við því full bjartsýni og staðráðin í að gera enn betur en áður. Sjálfsafgreiðslulausnir hafa notið mikilla vinsælda hjá okkar viðskiptavinum á síðustu árum og munum við halda áfram að þróa slíkar tæknilausnir á komandi árum. Með innleiðingu á sjálfsafgreiðslustöðvum fór fjöldi afgreiðslukassa í verslunum úr 167 í 300 á rúmlega tveimur árum. Þessi þróun hefur aukið afköst við afgreiðslu verulega og stytt raðir mikið, það má því segja að sjálfsafgreiðslan hafi verið ein mesta tækniþróunin sem hefur orðið hjá Bónus á síðustu árum.
Í dag er Bónus ekki með netverslun en hin lága álagning Bónus gerir það ekki mögulegt án þess að velta þeim kostnaði sem netverslun útheimtir út í verðlagið. Leiðarljós Bónus er að leita allra leiða til þess að halda kostnaði í lágmarki svo að hægt sé að bjóða lægsta vöruverðið. Stjórnendur Bónus eru hinsvegar sífellt að skoða tækniþróunina í netverslunarlausnum og tækifærum tengdum þeim. Fyrirtækið mun halda áfram að fylgjast vel með þróun netverslunar sem og öðrum möguleikum með snjallri nýtingu á tækni án þess að gefa eftir grunngildi félagsins, að halda kostnaði í lágmarki og skila neytendum lægsta vöruverðinu á öllu landinu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd