Borgarleikhúsið
Borgarleikhúsið var opnað árið 1989 og er ein helsta menningarstofnun Reykjavíkur. Leikfélag Reykjavíkur heldur utan um rekstur Borgarleikhússins, en auk þess er Íslenski dansflokkurinn til heimilis í húsinu. Borgarleikhúsið er stærsta og best búna leikhús landsins, 10.400 fermetrar að stærð með þremur leiksviðum, eigin smíðaverkstæði, saumastofu og leikmunaverkstæði. Við opnun hússins voru sviðin tvö, Stóra sviðið, með sætum fyrir 550 áhorfendur, og Litla sviðið, breytilegur salur sem rúmar allt að 200 manns. Í október 2001 var þriðja sviðinu bætt við, Nýja sviðinu, þar sem sæti eru fyrir allt að 300 áhorfendur. Á hverju ári koma vel á þriðja hundrað þúsund gesta í Borgarleikhúsið. Auk sýninga á vegum Leikfélags Reykjavíkur, Íslenska dansflokksins og samstarfsverkefna, fara fram margvíslegir viðburðir í Borgarleikhúsinu, allt frá fundum og ráðstefnum til sýninga dansskóla og hæfileikakeppni grunnskóla.
Leikfélag Reykjavíkur
Leikfélag Reykjavíkur ses. annast rekstur Borgarleikhússins samkvæmt sérstökum rekstrarsamningi við Reykjavíkurborg. Heildarvelta félagsins leikárið 2018-2019 nam 1.588 mkr. þar af nam rekstrarframlag Reykjavíkurborgar 673 mkr. (42% af veltu) og sjálfsaflafé því 915 mkr. (58% af veltu). Í samanburði við sambærilegar listastofnanir hérlendis og erlendis er hlutfall sjálfsaflafjár af heildartekjum leikhússins mjög hátt. Sjálfsaflafé teljast tekjur af miðasölu, útleigu, veitingasölu, markaðssamstarfi o.fl. Langstærsti gjaldaliðurinn í rekstri leikhússins er launagreiðslur, um það bil 69% af veltu og að jafnaði eru um 180 starfsmenn starfandi hjá leikhúsinu.
Skyldur Leikfélagsins samkvæmt rekstrarsamningi þess við Reykjavíkurborg eru að standa fyrir öflugri og samfelldri menningarstarfsemi í Borgarleikhúsinu, á eigin vegum, í samstarfi við aðra eða með öðrum hætti sem tryggir góða nýtingu hússins. Leikfélaginu ber að setja upp fimm leiksýningar á ári hverju hið minnsta og tryggja auk þess að minnsta kosti tveimur sjálfstæðum leikhópum afnot af húsnæði Borgarleikhússins til æfinga og sýninga. Auglýsa skal opinberlega eftir umsóknum leikhópa fyrir 1. mars ár hvert.
Í starfsemi Borgarleikhússins er lögð áhersla á fjölbreytt og metnaðarfullt verkefnaval. Grunnurinn liggur í samþykktum Leikfélags Reykjavíkur, samningi þess við Reykjavíkurborg og stefnumótun leikhússins hverju sinni undir forystu leikhússtjóra. Hann stýrir verkefnavali en með virkri þátttöku listrænna ráðunauta og starfsmanna hússins, gjarnan með verkefnavalsnefnd og reglulegum leiklestrum. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur samþykkir verkefnaval leikárs vorið á undan.
Leikfélag Reykjavíkur er elsta leikfélag sem starfað hefur óslitið á Íslandi og er jafnframt eitt elsta starfandi menningarfélag landsins, stofnað 11. janúar 1897. Það var frá upphafi mjög metnaðarfullt og félagarnir tilbúnir að leggja hart að sér til að standa fyrir sjónleikjum af hæsta gæðaflokki. Leikfélagið hlaut fyrst fjárstuðning frá hinu opinbera 1899 sem ásamt viðtökum áhorfenda og gagnrýnenda gerði það að verkum að félagið öðlaðist fljótt algjöra sérstöðu í íslensku menningarlandslagi og má segja að það hafi gegnt hlutverki þjóðleikhúss fram að opnun Þjóðleikhússins 1950.
Starfsemin
Starfsemi Leikfélagsins fór frá upphafi fram í Iðnó við Tjörnina, en upp úr miðri síðustu öld var ljóst að gamla leikhúsið við Tjarnarbakkann var orðið of lítið fyrir starfsemina. Um tíma voru sýningar haldnar í Tjarnarbíói, í Austurbæjarbíói og víðar, en hugmyndir um byggingu nýs leikhúss tóku að mótast í byrjun sjötta áratugarins. Leikfélagið hafði stofnað Húsbyggingarsjóð árið 1953 og snemma árs 1975 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur stofnskrá fyrir Borgarleikhúsið í Reykjavík. Segir þar m.a. að Leikfélagið og Reykjavíkurborg láti reisa sameiginlega hús til sjónleikjahalds í borginni sem rekið yrði sem sjálfstæð stofnun í eigu beggja aðila. Ári síðar var fyrsta skóflustunga tekin að nýju leikhúsi við Kringluna og þann 3. september 1989 var Leikfélaginu afhent lyklavöldin að Borgarleikhúsinu.
Frá opnun Borgarleikhússins hefur Leikfélag Reykjavíkur staðið fyrir metnaðarfullu starfi. Hjarta leikhússins er leikhópurinn sem flutti stoltur frá ,,gamla miðbænum“ í ,,nýja miðbæinn“ og hefur að jafnaði staðið fyrir öflugri en jafnframt fjölbreyttri verkefnaskrá ár hvert. Að auki hefur Leikfélagið tryggt annarri menningarstarfsemi aðstöðu í húsinu, boðið til sín gestaleikjum og tekið þátt í innlendu sem erlendu samstarfi. Borgarleikhúsið er eins og Iðnó forðum, menningarmiðja í Reykjavík.
Skömmu eftir að Leikfélagið flutti inn í Borgarleikhúsið var gerður nýr samningur við Reykjavíkurborg sem gekk í gildi 11. janúar árið 2000. Félagið er opið öllu áhugafólki um leiklist og leikhúsrekstur. Leikfélag Reykjavíkur er sjálfseignarstofnun og byggir á lögum um sjálfseignarstofnanir. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur ber ábyrgð á rekstri Leikfélags Reykjavíkur og Borgarleikhúss en ræður leikhússtjóra sem stýrir leikhúsinu í umboði stjórnar. Stjórnin ræður einnig framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á fjármálum og rekstri leikhússins.
Stjórn
Í dag sitja í stjórn: Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, varaformaður, Védís Hervör Árnadóttir, ritari, Hilmar Oddsson, meðstjórnandi og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, meðstjórnandi.
Varamenn eru: Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Þorsteinn S. Ásmundsson.
Leikhússtjórar Leikfélags Reykjavíkur
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd