Bragi Guðmundsson húsasmíðameistari hefur starfað sem sjálfstæður verktaki við húsasmíði og mannvirkjagerð frá 10. maí 1980. Í um það bil 9 ár áður vann hann við almenna byggingavinnu, bæði múrverk og smíðar. Fyrsta húsnæðið fyrir starfsemi fyrirtækisins var gamall fiskhúsbraggi sem tekinn var á leigu í Garði. Í byrjun var helst unnið við viðhalds- og nýbyggingarvinnu og í kjölfarið útboðsvinnu. Fyrstu árin unnu að jafnaði 6 manns hjá Braga og jafnframt var rekið trésmíðaverkstæði.
Árið 2006 er eignarhaldsfélagið Bragi Guðmundsson ehf. stofnað. Sonur Braga, Sveinbjörn Bragason, kemur inn í félagið en hann hafði þá starfað hjá fyrirtækinu frá því að hann byrjaði að vinna og sér hann um daglega verkstjórn. Í stjórn fyrirtækisins sitja Bragi Guðmundsson, Valgerður Þorvaldsdóttir og Sveinbjörn Bragason. Aðsetur er að Iðngörðum 3 í Garði.
Verkefni
Frá upphafsárum hefur fyrirtækið reist mikið af íbúðar- og atvinnuhúsnæði á Suðurnesjum og víðar. Meðal verkefna Braga voru fyrstu fjölbýlishúsin í Garði. Byggðar hafa verið um eitt hundrað íbúðir og einbýlishús í sveitarfélaginu og eru þar af 44 parhúsaíbúðir fyrir Búmenn.
Nýbyggingar og þjónusta tengd sjávarútveginum hefur verið stór hluti af verkefnum Braga Guðmundssonar ehf. frá upphafi. Fjöldi fiskvinnsluhúsa hefur verið byggður í Sandgerði og Garði undanfarin ár og eru þessi sjávarútvegsfyrirtæki ómissandi fyrir atvinnulífið á svæðinu. Um þessar mundir reisir fyrirtækið um það bil 4000 fermetra uppsteypta fiskþurrkverksmiðju fyrir Laugafisk ehf. á Reykjanesi. Þar er um að ræða tveggja ára verkefni. Af nýlegum verkefnum tengdum sjávarútvegi má nefna hátæknifiskvinnslubyggingar fyrir Seacrest Iceland ehf. og Marmeti ehf. og skrifstofuturn fyrir Nesfisk.
Önnur stærri verkefni undanfarin ár í Garði eru meðal annars stækkun Gerðaskóla og stækkun íþróttamiðstöðvarinnar, Byggðasafnið á Garðskaga, bygging stjórnsýslu- og skrifstofuhúsnæðis sveitarfélagsins og leikskólinn Gefnarborg. Af öðrum verkum má nefna Steypustöðina í Helguvík, verslun Samkaupa í Sandgerði og turn Kaupfélagsins við Krossmóa í Keflavík. Bragi Guðmundsson ehf. hefur einnig komið að fjölda verkefna í samvinnu við Grindina ehf. í Grindavík, m.a. íbúðarhús forseta Íslands á Bessastöðum og verkefnum tengdum Hitaveitunni í Svartsengi og saltverksmiðju á Reykjanesi.
Starfsemi
Hjá Braga Guðmundssyni ehf. starfa í dag um 20 manns, auk fjölda undirverktaka, en að jafnaði starfa um 10-15 manns hjá fyrirtækinu. Margir hverjir hafa unnið þar samfellt undanfarin 20-30 ár og myndað traustan og góðan kjarna starfsmanna. Starfsmannafélag fyrirtækisins heldur árlega golfmót og veislur og skipuleggur ferðir fyrir starfsmenn. Framundan er frekari uppbygging íbúðarhúsnæðis á svæðinu og áframhaldandi þjónusta við bæjarfélög og atvinnulíf á Suðurnesjum. Sumarið 2019 hefst vinna við undirbúning á 40 íbúðum í rað- og parhúsum við nýjar götur í sameinuðu bæjarfélagi Garðs og Sandgerðis, Suðurnesjabæ.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd