Brim hf. er sjávarútvegsfyrirtæki í Reykjavík sem rekur jafnframt fiskimjölsverksmiðju á Akranesi, uppsjávarfrystihús og fiskimjölsverksmiðju á Vopnafirði og annast sölu sjávarafurða á mörkuðum víða um heim. Áhersla er lögð á háþróaða tækni við veiðar og vinnslu og stöðuga þróun á vörum, framleiðslu og leiðum til markaðsetningar og sölu. Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar er grundvöllur starfsemi Brims og góð umgengni
um auðlindina og ábyrgar fiskveiðar eru í fyrirrúmi svo komandi kynslóðir geti notið hennar áfram. Fyrirtækið var árið 2019 fyrst íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja valið Umhverfisfyrirtæki ársins á Íslandi af Samtökum atvinnulífsins.
Tryggir framboð af heilnæmu sjávarfangi
Hlutverk Brims er að hámarka verðmæti úr sameiginlegum náttúruauðlindum sem félaginu og starfsfólki er treyst fyrir og að tryggja viðskiptavinum um allan heim stöðugt framboð af heilnæmu sjávarfangi sem unnið er úr sjálfbærum stofnum. Brim leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð enda hefur það ætíð verið metnaður fyrirtækisins að öll starfsemi þess endurspegli ábyrgð gagnvart auðlindum sjávar og samfélaginu.
Vöxtur byggir á hugviti, nýsköpun og samvinnu
Vöxtur félagsins byggir á aukinni arðsemi, nýsköpun og samvinnu við innlenda og erlenda aðila í sjávarútvegi. Hráefnið sem fyrirtækið vinnur úr er af skornum skammti vegna þess að auðlindir sjávar eru takmarkaðar og nýting þeirra byggir á lögum og reglum sem takmarka veiðar einstakra sjávarútvegsfyrirtækja og tryggja sjálfbærni veiðanna. Vöxturinn byggir því á hugviti og felst í að auka verðmæti þeirra afurða sem koma á land með nýsköpun, vöruþróun og markaðssetningu. Einnig eru tækifæri til vaxtar með samvinnu við aðra um vinnslu afurða, markaðssetningu og sölu en Brim á þegar í slíku samstarfi við ýmsa innlenda aðila og grænlenska sjávarútvegsfyrirtækið Arctic Prime Fisheries.
Yfir hundrað ára saga
Brim hf. var stofnað 13. nóvember árið 1985 við sameiningu Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ísbjarnarins. Hét fyrirtækið fyrst Grandi hf. en um aldamótin breyttist það í HB Grandi hf. Árið 2019 var nafninu breytt í Brim hf.
Upphaf félagsins má í raun rekja allt aftur til útræðis og árdaga vélskipaútgerðar við Faxaflóa á fyrsta áratug 19. aldar. Að baki félaginu standa vel á annan tug eldri félaga sem hafa sameinast Brimi eða einhverjum forvera þess og eru þess vegna hluti af langri sögu félagsins. Af eldri félögum má nefna Miðnes í Sandgerði, Harald Böðvarsson á Akranesi, Hraðfrystistöð Reykjavíkur, Ísbjörninn í Reykjavík og Bæjarútgerð Reykjavíkur sem var stofnuð þegar fyrsti nýsköpunartogarinn, Ingólfur Arnarson, kom til landsins árið 1947. Öll áðurnefnd fyrirtæki voru stofnuð á fyrrihluta 20. aldar. Síðar sameinuðust Brimi útgerðarfélögin Tangi, Svanurinn og í dag á Brim einnig útgerðarfélagið Ögurvík. Fram á miðjan níunda áratug 20. aldar jókst veiðigeta íslenska flotans hratt sem leiddi til mikillar ofveiði, offjárfestinga í greininni og óhagræðis. Með tilkomu kvótakerfisins hafa bæði fiskistofnarnir og sjávarútvegsfyrirtækin eflst og að sama skapi hefur sjávarútvegsfyrirtækjum fækkað. Brim hefur styrkt stöðu sína hin síðari ár í harðri alþjóðlegri samkeppni. Í dag er fyrirtækið með mestu fiskveiðiheimildir fyrirtækja á Íslandi og greiddi mest allra félaga í veiðigjöld ári 2020. Saga Brims er því á margan hátt saga útgerðar og fiskvinnslu í Reykjavík og sjávarútvegs á Íslandi.
Spannar alla virðiskeðjuna
Brim er með samþættan rekstur veiða, vinnslu, markaðssetningar og sölu sem stuðlar að skilvirkari framleiðslu og tryggir óhefta leið aflans til kaupanda. Hlutverk starfsfólks spannar því alla virðiskeðjuna í sjávarútvegi og ræður fyrirtækið því auðveldlega við að rekja slóð afurðanna frá afhendingu alla leið aftur til sjávar.
Brim stundar ábyrgar fiskveiðar sem byggja bæði á alþjóðalögum og landslögum um m.a. fiskvernd, notkun veiðafæra og úthlutun aflaheimilda á grundvelli vísindalegra forsenda Hafrannsóknarstofnunar. Á árinu 2020 var Brimi úthlutað til veiða um 52 þúsund tonn af botnfisktegundum og 84 þúsund tonn af uppsjávarfiski.
Heildarafli togara var 45.326 tonn en var 50.469 tonn árið 2019. Afli á úthaldsdag var 27,7 tonn en 29,2 tonn árið 2019. Kristján HF 100 veiddi 1.100 tonn, miðað við slægðan afla frá maí byrjun til ársloka. Heildarafli uppsjávarskipanna var 7.143 tonnum minni árið 2020 en 2019 eða 81.582 tonn samanborið við 88.725 tonn árið áður.
Öflugur búnaður til lands og sjávar
Til bolfiskveiða gerir félagið út sex togara, ísfisktogarana Akurey AK 10, Viðey RE 50 og Helgu Maríu 1 og frystitogarana Örfyrisey RE 4, Höfrung III AK 4 og Vigur RE 71 og að auki krókabátinn Kristján HF 100. Þá gerir fyrirtækið út uppsjávarskipin Víking AK 100 og Venus NS 50. Nýju skip Brims eru í fremstu röð íslenskra fiskveiðiskipa. Öll eru fiskiskipin búin nýum og fullkomnum veiðibúnaði og tækjum sem tryggja góða meðhöndlun á afla og gott hráefni til löndunar.
Brim vinnur aflann ýmist í Reykjavík, Hafnarfirði, Vopnafirði, Akranesi eða úti á sjó í frystitogurum sínum. Botnfiskvinnsla í landi fer fram í Norðurgarði í Reykjavík. Á árinu 2020 var allur vinnslubúnaður þar endurnýjaður og leystu fullkomnar vatnsskurðarvélar frá Marel eldri vinnsluvélar af hólmi og róbótar raða og flytja framleiðsluvörur á brettum, þeir sinna núna störfum sem áður voru unnin af starfsfólki. Þessi störf voru í mörgum tilfellum líkamlega erfið og slysahætta mikil. Það jákvæða við róbótana er að slysahætta er minni. Í Norðurgarði er lögð áhersla á framleiðslu flaka og flakastykkja úr karfa, ufsa og þorski.
Fiskiðjuverið framleiðir frystar og ferskar afurðir allan ársins hring. Ferskar afurðir eru sendar samdægurs með flugi eða kæligámum á erlenda markaði en þær frystu eru fluttar út í frystigámum eða með brettaskipum. Frystitogararnir vinna eigin afla nýveiddan eins og t.d. grálúðu, karfa, þorsk og gulllax beint í afurðir á erlenda markaði.
Uppsjávarafurðir Brims eru unnar á Vopnafirði og á Akranesi. Á Vopnafirði er sérhæfð vinnsla á loðnu, síld og makríl. Loðnan er heilfryst eða unnin úr henni hrogn. Makríll er ýmist heilfrystur eða hausaður og slógdreginn. Síldin er ýmist heilfryst eða unnin úr henni flök. Þá er einnig starfrækt fiskimjölsverksmiðja sem vinnur úr fráflokki, loðnuhrati og afskurði síldar og makríls auk kolmunna. Meginhluti afurðanna er notaður í fóðurgerð en verksmiðjan er einnig vottuð til framleiðslu á lýsi til manneldis. Á Akranesi er vinnsla loðnuhrogna og fiskimjölsverksmiðja.
Gæðavörur seldar um allan heim
Markaðs- og sölustarf félagsins er tvíþætt. Í höfuðstöðvum vinna markaðs- og sölustjórar fyrir markaði í Evrópu og Norður-Ameríku annars vegar og hins vegar rekur Brim dótturfyrirtæki í Asíu sem selja afurðir einkum í Kína og Japan undir merkjum Brim Seafood og Icelandic Seafood.
Aðsetur og mannauður
Aðalskrifstofur Brims eru við Norðurgarð í Reykjavík. Þar er yfirstjórn botnfisk- og uppsjávarsviðs ásamt fjármála-, markaðs- og mannauðssviði. Hjá fyrirtækinu eru unnin um 800 ársverk til sjós og lands. Lykillinn að velgengni fyrirtækisins felst í framúrskarandi starfsfólki á sjó og landi sem leggur sig fram við að skila gæðavörum til kaupenda og neytenda.
Almenningshlutafélag á markaði – gagnsæi í fyrirrúmi
Brim hf. er eina íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem skráð er í kauphöllinni Nasdaq Iceland. Skráð hlutafé Brims hf. var 1.956 milljónir króna í árslok 2020. Gengi bréfanna er breytilegt en hefur frá ársbyrjun 2018 verið frá 30 og upp í 55 á fyrsta árshluta 2021. Hluthafar eru um 850. Í árslok 2019 voru eftirfarandi þeir stærstu: Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. og dótturfélag þess áttu samtals 44,0%, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild átti 11,5%, Lífeyrissjóður verslunarmanna 11,0% og KG Fiskverkun á Rifi sem átti ríflega 5%. Hlutabréf í félaginu ganga kaupum og sölum á markaði og allar upplýsingar um veltu félagsins og eignir jafnt sem ófjárhagslega þætti eins og umhverfisáhrif, mannauðsmál og fleira eru opinberar og gagnsæar. Með skráningu félagsins á markað nást fram markmið um dreifða eignaraðild og gagnsæi í meðferð og miðlun upplýsinga.
Stjórn og stjórnendur
Aðalfundur félagsins kýs á ári hverju stjórn félagsins. Frá aðalfundi 2021 er stjórnin eftirfarandi:
Kristján Þ. Davíðsson, formaður, Anna G. Sverrisdóttir, Hjálmar Kristjánsson, Magnús Gústafsson og Kristrún Heimisdóttir.
Forstjóri félagsins er Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri fjármála er Inga Jóna Friðgeirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs er Ægir Páll Friðbertsson og framkvæmdastjóri nýsköpunar, sjálfbærni og fjárfestatengsla er Gréta María Grétarsdóttir.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd