Brú félag stjórnenda

2022

BRÚ félag stjórnenda hefur starfað frá árinu 1919. Það varð til í kringum hagsmunabaráttu verkstjóra sem voru félagar í Verkstjórafélagi Reykjavíkur. Það er til sú saga að félagið hafi orðið til með þeim hætti að verkstjórarnir við höfnina voru óánægðir með að þurfa að fara í morgunkaffið á sitthvorum tímanum svo það var ákveðið að sameinast um að þeir færu í morgunkaffi allir á sama tíma. Slíkar alþýðuskýringar eru nú meira til gamans en má vera að í þeim leynist sannleikskorn. Hið téða Verkstjórafélag er með elstu stéttarfélögum landsins. Síðar opnaði Verkstjórafélagið fyrir aðild annarra stjórnenda og þá var nafninu breytt í BRÚ félag stjórnenda. Hagsmunamál stjórnendafélagsins voru fyrst og síðast kjaramál og ýmiss konar þjónusta við félagsmenn en orlofsmál urðu einnig mikilvægur þáttur í starfinu.

Starfsemin

BRÚ er öflugt og fjárhagslega sterkt stéttarfélag sem sinnir sínum félagsmönnum vel. Sjúkrasjóðurinn er sérlega sterkur og greiðslur úr honum nema 80% af launum þess sem þarf að leita aðstoðar vegna veikinda. Menntasjóðir og styrkir eru þó nokkrir og vega fræðslu og menntastyrkir hvað þyngst en ýmsir aðrir styrkir eru veittir sem þó hafa ekki áhrif til skerðingar á öðrum styrkjum sem kunna að vera veittir til einstakra félagsmanna. Heilsuefling er eitthvað sem er ofarlega á blaði hjá Brú og orlofssjóður veitir sömuleiðis styrki til félagsmanna.
Eins og kemur fram hér að ofan þá er félagið meira en aldar gamalt og því var fagnað með pompi og prakt með stórtónleikum í Háskólabíói 2019 þar sem valinkunnir listamenn komu fram. Rúmlega 900 manns sóttu hátíðina og var ákveðið að aðgangseyrir yrði í formi frjálsra framlaga. Það fór svo að listamenn fengu allir greitt fyrir sína vinnu og þegar búið var að gera upp allan annan kostnað stóðu eftir fjármunir sem voru nýttir til kaupa nýju lækningatæki upp á tæpar 1,7 milljónir fyrir Grensásdeild.
Félagið telur nú um 1.100 félagsmenn eftir að Verkstjórafélag Hafnarfjarðar og Brú sameinuðust í eitt félag í mars á þessu ári. Verkstjórafélag Hafnarfjarðar hafði starfað frá árinu 1940 en síðasti aðalfundur félagsins fór fram 28. mars 2022 og var þar var tekin ákvörðun um sameininguna.
Sterkar hefðir hafa skapast í starfsemi félagsins eins og t.d. hið árlega jólaball og vorhátíð.

Orlofshús – Félagið á 9 orlofshús sem félagsmönnum standa til boða að dvelja í og auk þess 2 hjólhýsi. Orlofshúsin eru í Skorradal, Grímsnesi og á Akureyri. Ákveðnar reglur gilda varðandi úthlutun eins og þekkist hjá stærri stéttarfélögum og eru félagsmenn duglegir að nýta sér þá orlofsmöguleika sem eru í boði.

Símenntun og fræðsla – eru mikilvægur þáttur í starfi félagsins og hefur félagið meðal annars þróað sérstakt stjórnendanám sem kennt er við Háskólann á Akureyri í fjarnámi. Það nám var fyrst prófað árið 2015 og gaf strax góða raun. Námið gerir fólk tvímælalaust að betri stjórnendum að sögn.
Meðalaldur félagsmanna hefur verið í kringum 55 ár en á síðustu árum hefur hann farið heldur lækkandi og kynjahlutfall hefur sömuleiðis verið að hallast frá því að vera eins karllægt og raunin hefur verið hingað til.

Sérstaða félagsins – er sú að það hefur verið að gæta hagsmuna bæði fyrirtækja og launþega. Það stendur utan við önnur launþegasamtök eins og t.d. ASÍ. Það eru virk stjórnendafélög um allt land en nú er unnið að sameiningu þessara félaga undir hatti Brúar. Þessi félög voru í kringum 20 talsins en eru í dag um 9. Með sameiningu verður félagið enn sterkara og róið er að því öllum árum. Það þykir eftirsóknarvert að njóta þeirra réttinda og þess stuðnings sem er í boði hjá Brú. Það sem gerir Brú að jafn sterku félagi og raun ber vitni er sú ráðdeild sem sýnd hefur verið frá upphafi og í gegnum tíðina, en þannig hefur orðið til traustur höfuðstóll sem nýttur er í sjóði sem hafa ávaxtað sig ríkulega og með því er hægt að styðja við og hjálpa félagsmönnum þegar erfiðleikar steðja að.

Formaður félagsins, Sigurður Haukur Harðarson er stjórnarmaður til margra ára, en fráfarandi formaður er Jóhann Baldursson. Kosið er til stjórnar á tveggja ára fresti en þeir félagar segja ekki marga sýna áhuga á framboði til stjórnar eins og staðan er í dag.

Framtíðarsýnin er sú að fjölga í félaginu og þá verður auðvelt að láta hlutina þróast áfram eins og verið hefur með farsæld og velfarnað félagsmanna að leiðarljósi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd