Stofnendur og stjórnendur
Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga er lífeyrissjóður fyrir fólk sem starfar hjá sveitarfélögunum. Hann hét áður Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga en skipt var um heiti sjóðsins í júní 2016. Sjóðurinn var stofnaður 28. júlí 1998 með samningi á milli BHM, BSRB og Kennarasambands Íslands fyrir hönd hlutaðeigandi stéttarfélaga annars vegar og hins vegar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eldri lífeyrissjóðum sveitarfélaga var lokað á sama tíma fyrir nýja sjóðfélaga.
Starfsmenn sveitarfélaga sem eru í BSRB, BHM og KÍ eiga kjarasamningsbundna aðild að sjóðnum. Þeir geta valið um að vera í annað hvort A deild eða V deild. Fulltrúar stofnaðila eiga sæti í stjórn sjóðsins og allir sjóðfélagar eiga rétt á setu á ársfundum lífeyrissjóðsins með málfrelsi og tillögurétt um hvaðeina er varðar starfsemi sjóðsins.
Í kjölfar stofnunarinnar var ráðinn til sjóðsins framkvæmdastjóri, til að annast undirbúningsvinnu við starfsemi hans og hófst eiginleg starfsemi um miðjan desember 1998 en sjóðurinn tók við framlögum launagreiðenda frá 1. júlí 1998.
Samkvæmt samþykktum sjóðsins er stjórn sjóðsins skipuð sex einstaklingum og hefur svo verið frá upphafi. Samband íslenskra sveitarfélaga skipar þrjá stjórnarmenn, BSRB skipar tvo og Bandalag háskólamanna skipar einn. Sömu aðilar skipa jafnframt jafnmarga einstaklinga til vara. Skipunartími stjórnarmanna er fjögur ár og stjórnin kýs formann úr sínum hópi til tveggja ára í senn.
Fyrsta stjórn sjóðsins var þannig skipuð að stjórnarformaður var Karl Björnsson, aðrir stjórnarmenn voru Elín Björg Jónsdóttir, Helga Jónsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson og Sjöfn Ingólfsdóttir.
Fyrsti framkvæmdastjóri sjóðsins var Jón G. Kristjánsson og var hann framkvæmdastjóri sjóðsins til júní loka 2014 en þá lét hann af störfum sökum aldurs. Þann 1. júlí 2014 tók Gerður Guðjónsdóttir við sem framkvæmdastjóri sjóðsins en hún var áður í stjórn sjóðsins og formaður endurskoðunarnefndar.
Núverandi stjórn tók til starfa í lok árs 2018. Hana skipa Garðar Hilmarsson stjórnarformaður, Benedikt Þór Valsson varaformaður, Auður Kjartansdóttir, Halldóra Káradóttir, Sonja Ýr Þorbergsdóttir og Þorkell Heiðarsson.
Sameiningar og rekstur annarra lífeyrissjóða
Allt frá árinu 1999 hefur sjóðurinn annaðist rekstur Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og frá árinu 2000 sá sjóðurinn um rekstur Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar og Lífeyrissjóðs Neskaupstaðar. Á árinu 2004 var Eftirlaunasjóður slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli sameinaður inn í A deild sjóðsins. Í ársbyrjun 2007 tók sjóðurinn við rekstri Lífeyrissjóðs Akraneskaupstaðar og árinu 2010 var gengið frá samningi við Kópavogsbæ um rekstur Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Í ársbyrjun 2012 tók sjóðurinn við rekstri Eftirlaunasjóðs starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Á miðju ári 2013 náðist mikill áfangi þegar fimm lokaðir lífeyrissjóðir með bakábyrgð sveitarfélaga sameinuðust inn nýja deild hjá sjóðnum sem heitir B deild. Fjórir þessara sjóða voru reknir af sjóðunum fyrir sameiningu þ.e.: Eftirlaunasjóður starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar, Lífeyrissjóður Akraneskaupstaðar, Lífeyrissjóður starfsmanna Húsavíkur og Lífeyrissjóður Neskaupstaðar en fimmti sjóðurinn í sameiningunni var Lífeyrissjóður starfsmanna Vestmannaeyjakaupstaðar. Lykilforsenda sameiningar var að öll réttindi sjóðfélaga héldust óbreytt og bakábyrgð sveitarfélagana aðskilin. Ávinningurinn við sameiningu var mikill bæði ef horft er til kostnaðar og framlegðar stjórnar- og starfsmanna. Sameiningar inn í
B deild hafa haldið áfram en á árinu 2017 sameinaðist Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar inn í deildina og Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar ári síðar.
Starfsemi sjóðsins, skipulag og sérstaða
Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Í upphafi fólst meginstarfsemi sjóðsins í rekstri þriggja deilda, tveggja samtryggingadeilda annars vegar A deildar sem veitti föst réttindi óháð aldri og V deildar sem veitti aldurstengd réttindi og bauð sjóðfélögum sínum ýmsa valmögueika í samtryggingu og hins vegar séreignardeildar þ.e. S deildar sem bauð sjóðfélögum sínum upp á þrjár leiðir í séreignasparnaði.
Frá upphafi var séreignadeild sjóðsins útvistuð hjá Arion banka (áður Kaupþings banka) en í kjölfar stefnumótunarvinnu stjórnar á árinu 2015 var tekin ákvörðun að leggja áherslu á rekstur samtryggingardeildanna og loka séreignadeildinni og voru eignir sjóðfélagar færðar yfir til annarra séreignasjóða eftir eigin vali sjóðfélaga.
Segja má að Brú lífeyrissjóður sé einn flóknasti lífeyrissjóður landsins sem má skýra af samsetningu hans en núna starfrækir Brú lífeyrissjóður þrjár samtryggingardeildir og hjá sjóðnum eru rekin alls 10 réttindasöfn, þ.e. A deild, V deild og B deild. Innan B deildar eru 7 réttindasöfn. Þá er Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar einnig í rekstrarumsjón hjá sjóðnum.
Með greiðslu iðgjalda afla sjóðfélagar sér réttinda til eftirlauna, makalífeyris, barnalífeyris og örorkulífeyris en réttindaávinnslan er mismunandi eftir deildum.
A deild
Aðild að A deild sjóðsins hafa starfsmenn sveitarfélaga og stofnana þeirra sem eru félagsmenn í BSRB, Bandalagi háskólamanna og Kennarasambandi Íslands. Réttindaöflun A deildar var jöfn ávinnsla eða 1,9% á ári yfir starfsævina og óháð aldri en breyting varð á réttindaöflun eftir 1. júní 2017 vegna breytinga á lögum. Réttindaávinnslan er nú aldurstengd sem þýðir að sjóðfélagar njóta ávinnings eftir því hversu lengi iðgjöld þeirra ávaxtast. Góð ávöxtun eigna skilar sér í auknum réttindum en eins ber sjóðnum að skerða réttindi ef eignir duga ekki fyrir skuldbindingum. Áhrif breytinganna hafa mismunandi áhrif á réttindi sjóðfélaga þ.e. hvort þeir voru í sjóðnum fyrir breytingarnar, byrjuðu í sjóðnum eftir breytingar eða voru orðnir sextíu ára eða komnir á lífeyri fyrir breytingarnar. Iðgjald í A deild er nú 15,5%, sjóðfélagi greiðir 4% og launagreiðandi greiðir mótframlag 11,5%.
V deild
V deild er öllum opin og veitir sambærileg réttindi og lífeyrissjóðir í almenna lífeyrissjóðskerfinu. Þeir sem eru í A deild geta valið að fara í V deild, en ekki er hægt að fara úr V deild í A deild. Réttindaávinnsla V deildar er aldurstengd og eru réttindin því háð aldri, iðgjaldi og ávöxtun. Góð ávöxtun eigna skilar sér í auknum réttindum en eins ber sjóðnum að skerða réttindi ef eignir duga ekki fyrir skuldbindingum. Meginreglan er að iðgjald nemi 12% af greiddum launum, sjóðfélagi greiðir 4% og launagreiðandi greiðir mótframlag 8%, sem tryggir grunnréttindi en iðgjald umfram það telst viðbótariðgjald sem sjóðfélagi getur ráðstafað í séreignarsparnað.
B deild
Eins og fram hafa komið hafa sjö sveitarfélagasjóðir sameinast í B deild sjóðsins. Allir þessir sjóðir voru lokaðir sjóðir, þ.e. þeir hættu að taka við nýjum sjóðfélögum þegar lífeyriskerfinu var breytt með lagasetningu árið 1998. Virkum sjóðfélögum sem greiða iðgjöld til sjóðsins fækkar því með tímanum en að sama skapi fjölgar þeim sem fá greiddan lífeyri.
Almennt er réttindaávinnsla í B deild 2% á ári af dagvinnulaunum fyrir fullt starf. Hlutastarf skilar hlutfallslegum réttindum. Þeir sem vinna minna en 50% starf eiga ekki aðild að B deild. Réttindi eru tryggð með bakábyrgð launagreiðenda.
Breytingar og framtíðarsýn
Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar hjá sjóðnum. Lögð hefur verið áhersla á þróun og innleiðingu stafrænna lausna í starfsemi sjóðsins sem hefur gert góða þjónustu við sjóðfélaga enn betri og aukið hagkvæmni í rekstri. Sjóðurinn mun leggja enn frekari áherslu á slíkar lausnir, bæði í lánamálum og lífeyri. Allar umsóknir sjóðsins eru eingöngu rafrænar og hafa verið þannig frá árinu 2017. Þá hefur sjóðurinn tekið í notkun ný upplýsingakerfi og þróað líkön til að bæta upplýsingagjöf til sjóðfélaga, stjórnar og stjórnenda. Markmið sjóðsins er að vera í forystu með fagleg vinnubrögð og góðri upplýsingamiðlun til sjóðfélaga og annarra hagaðila. Samfélagsleg ábyrgð er höfð að leiðarljósi í rekstri sjóðsins og fjárfestingum. Sjóðurinn er einnig vakandi fyrir umhverfi sínu og þeim þáttum sem hafa áhrif á skuldbindingar sjóðsins.
Aðsetur
Á árunum 1999 til 2009 var sjóðurinn til húsa að Vegmúla 2. Á árinu 2009 keypti sjóðurinn skrifstofuhúsnæði að Sigtúni 42 og hefur skrifstofa sjóðsins verið þar síðan.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Sjóðurinn hefur á að skipa afar hæfu starfsfólki en hjá sjóðnum starfa 29 manns. Starfsfólkið býr yfir góðri reynslu og þekkingu sem gagnast vel þegar sinna þarf krefjandi verkefnum. Þá er starfsfólk sjóðsins afar frjósamt en á árinu 2019 eignaðist fimmti hver starfsmaður sjóðsins barn. Vel að verki staðið að, á innan við 30 manna vinnustað var Íslandi séð fyrir 6 nýjum þegnum á sama árinu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd