Brúin ehf.

2022

Brúin ehf. var stofnuð í febrúar 1995 af rafeindavirkjunum, Finni Víði Gunnarssyni og Sigurgeiri Einarssyni. Í fyrstu hét fyrirtækið Rafeindaþjónustan Brúin ehf. þar sem ekki fékkst leyfi hjá Fyrirtækjaskrá til að nota eingöngu nafnið Brúin ehf. en árið 2002 var því breytt í Brúin ehf. Starfsemin hófst á Akureyri í maí 1995 og hefur verið þar síðan. Finnur og Sigurgeir störfuðu báðir hjá fyrirtækjum í Reykjavík sem rafeindavirkjar og var starfssvið þeirra þjónusta við sjávarútveg. Fyrsta starfsárið voru Finnur og Sigurgeir bara tveir en vorið 1996 bætist fyrsti starfsmaðurinn við og síðan hafa starfsmenn verið á bilinu þrír til sex. Árið 2020 eru starfsmenn Brúarinnar ehf. fimm, einn á skrifstofu og fjórir í þjónustu við skip og báta. Allan tímann frá stofnun hefur Brúin sérhæft sig í þjónustu við skip og báta. Helstu verkefnin eru eins og nafn fyrirtækisins gefur til kynna í brúnni það er siglingar-, fiskileitar- og fjarskiptatæki. Viðskiptavinir frá fyrsta degi hafa verið allar tegundir útgerða frá stærstu útgerðum landsins og allt niður í einyrkja. Verkefni fyrirtækisins eru allt frá smávægilegum bilunum upp í að endurskipuleggja heila brú á skipi. Þjónustusvæðið er aðallega Norðurlandið, en hefur náð til alls landsins og einnig út fyrir landsteinana svo sem til Færeyja, Noregs, Póllands og Nýfundnalands.
Í maí árið 2004 varð fyrirtækið fyrir miklu áfalli þegar Finnur og Sigurgeir lentu í vélsleðaslysi og Sigurgeir lést og Finnur slasaðist lífshættulega. Næstu mánuðir á eftir voru erfiðir en gengu upp með hjálp góðra starfsmanna og fyrrverandi starfsmanna sem komu til aðstoðar á þessum tíma. Upp úr þessu keypti Finnur hlut Sigurgeirs af fjölskyldu hans og hefur rekið fyrirtækið síðan ásamt eiginkonu sinni Hrefnu Magnúsdóttur.

Þjónusta og framfarir
Árið 2007 sameinaðist Brúin ehf. og Haftækni hf. sem var einnig að þjónusta sjávarútveg og seldi og þjónustaði Apple tölvur. Ári eftir þessa sameiningu varð bankahrun á Íslandi og víðar og ákváðu eigendur Brúarinnar ehf. að draga sig úr þessu fyrirtæki og fara aftur eingöngu í þjónustu við sjávarútveg og hefur verið svo síðan.
Fyrstu ár Brúarinnar var fyrirtækið í leiguhúsnæði á Laufásgötu 3b og síðan á Hjalteyrargötu 20, en árið 2009 flutti það í eigið húsnæði í Baldursnes 4. Í dag er starfsvettvangurinn enn sá sami, um borð í skipum og bátum. Skipum hefur fækkað mikið á þessum tíma og einnig verið mikil endurnýjum á þeim síðastliðin ár. Einnig hafa tækin í brúnni breyst mikið og tölvur orðnar stór partur af þeim. Mestu framfarirnar hafa verið í veiðarfærastýringum þar sem nemum sem settir eru á veiðarfæri hefur fjölgað mikið og gefa orðið mjög miklar og góðar upplýsingar. Miklar framfarir hafa einnig orðið í nettengingum sem leiða til þess að upplýsingaflæði á milli skips og stjórnenda í landi eru mikið öruggari en áður var. Þetta leiðir líka til þessa að afþreying um borð í formi sjónvarps og útvarps er allt önnur en var. Starfsmenn fyrirtækisins í dag eru með áratuga reynslu við vinnu um borð í skipum og eru menntaðir rafeindavirkjar, tæknifræðingar og kerfisfræðingar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd