Brunavarnir á Austurlandi

2022

Brunavarnir á Austurlandi er byggðasamlag sveitarfélaganna Fljótsdalshrepps, Fljótsdalshéraðs, Vopnafjarðarhrepps, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðar og Djúpavogs um brunavarnir. Hlutverk samlagsins er að sjá um þjálfun og námskeiðahald fyrir slökkvi-liðsmenn á hverjum stað auk þess að halda utan um eldvarnaeftirlit á starfssvæðinu. Samlagið varð til í byrjun árs 2007, en Seyðisfjarðarkaupstaður varð aðlili að samstarfinu um mitt ár 2007. Aðalskrifstofa er á Egilsstöðum en skrifstofuaðstaða er á öllum slökkvi-stöðvum á starfssvæðinu. Fyrsti slökkviliðsstjóri Brunavarna á Austurlandi var Baldur Pálsson, sem áður var slökkviliðsstjóri Brunavarna á Héraði. Baldur stýrði Brunavörnum á Austurlandi frá stofnun samlagsins og fram til miðs árs 2019. Þá tók við Haraldur Geir Eðvaldsson, sem hefur stýrt því síðan. Varaslökkviliðsstjórar hafa verið Björn Heiðar Sigurbjörnsson, Kári Snær Valtingojer, Haraldur Geir Eðvaldsson og núverandi varaslökkviliðsstjóri er Ingvar Birkir Einarsson. Fjöldi slökkviliðsmanna á svæðinu hefur frá upphafi verið í kringum 60 og dreifast þeir um starfssvæðið. Mikið hefur verið lagt uppúr því að þjálfun og menntun slökkviliðsmanna sé góð og eru allir slökkviliðsmenn Brunavarna á Austurlandi nemendur Brunamálaskólans. Námskeið eru tekin jöfnum höndum og reynt að halda í við nýjungar í faginu. Stjórn Brunavarna á Austurlandi hefur frá upphafi verið mönnuð sveitarstjórum þeirra sveitarfélaga sem að samstarfinu standa. Formennska hefur gengið á milli sveitarfélaga, en lengst verið á höndum sveitarstjóra á Fljótsdalshéraði.

Starfsemin
Helstu verkefni eru, líkt og í öðrum slökkviliðum, að bregðast við þegar vá ber að dyrum. Þar má helst telja eld í byggingum og á víðavangi, björgun fólks úr slysum og viðbrögð við eiturefnaleka og vatnslekum í byggingum. Útkallafjöldi er nokkuð rokkandi en hefur verið um 50 útköll að meðaltali á ári frá stofnun samlagsins.
Helstu framtíðarverkefni snúa að því að auka enn á menntunastig slökkviliðsmanna og efla eldvarnaeftirlit á svæðinu. Sá hluti sem snýr að eldvarnaeftirlitinu er tímafrekur og tafsamur vegna þesa helst að starfssvæðið er mjög stórt og vegalengdir á milli staða miklar.
Starfsemin á árinu 2020 var hefðbundin í flestum skilningi. Nokkur stór útköll voru og ber þar hæst vinnan í kringum skriðuföll á Seyðisfirði í desember 2020. Vegna aðstæðna í samfélaginu voru æfingar með mjög breyttu sniði þar sem menn máttu ekki hittast vegna COVID-19. Eldvarnaeftirliti voru líka skorður settar vegna þessa. Þar af leiðir að ekki náðist að skoða allar þær byggingar sem voru á áætlun fyrir árið. Stefnt er að því að vinna það upp á árinu 2021. Með sameiningu sveitarfélaga á starfssvæði Brunavarna á Austurlandi er ljóst að nokkrar breytingar verða á skipulagi og uppbyggingu samlagsins á árinu 2021. Samlagið verður lagt niður í núverandi mynd og nýtt skipulag mun leysa það gamla af hólmi. Helst ber að nefna að í ársbyrjun 2021 verður ráðinn inn eldvarnaeftirlitsmaður í fullt starf sem kemur til með að sinna eftirliti á svæðinu í samstarfi við slökkviliðsstjóra og varasökkviliðsstjóra.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd