Brunavarnir Árnessýslu

2022

Þann 6. janúar árið 1975 voru Brunavarnir Árnessýslu formlega stofnaðar. Undir-búningsvinna hafði þá staðið yfir frá árinu 1971 vegna stofnunar sameiginlegs brunavarnafélags fyrir Selfoss, Skeiðahrepp, Villingaholtshrepp, Gaulverjabæjarhrepp, Hraungerðishrepp og Sandvíkurhrepp. Eina sveitarfélagið af stofnsveitarfélögunum sem hafði starfandi slökkvilið á þessum tíma var Selfoss en sveitarstjórnarmenn á þessum tíma fundu til ábyrgðar um að koma þyrfti þessum málum í betra horf. Nafn slökkviliðsins kom frá Bárði Daníelssyni, þáverandi brunamálastjóra en hann lét þessi orð falla „Brunavarnir Árnessýslu skal félagið heita, það er mín trú að fljótlega sameinist öll sýslan í eitt brunamálafélag“. Orð Bárðar reyndust að sönn ef aðeins er teygt á orðinu „fljótlega“. Öll sýslan sameinaðist í eitt brunamálafélag en það tók hinsvegar 38 ár og lauk árið 2013 þegar Hrunamannahreppur gekk inn í samlagið.
6. janúar 1975 sameinast Gaulverjabæjarhreppur, Hraungerðishreppur, Sandvíkurhreppur, Skeiðahreppur, Villingaholtshreppur og Selfosshreppur um stofnun Brunvarna Árnessýslu.
17. desember 1983 ganga Grímsnes-, Grafnings- og Þingvallahreppur inní BÁ.
18. desember 1989 gengur Eyrabakkahreppur inní BÁ.
11. júní 1992 gengur Stokkseyrarhreppur inní BÁ.
24. maí 2000 gengur Laugardalshreppur inní BÁ.
29. nóvember 2002 gengur Biskupstungnahreppur inní BÁ.
1. janúar 2006 gengur Gnúpverjahreppur inní BÁ.
1. janúar 2010 gengur Sveitafélagið Ölfus inní BÁ.
14. júní 2011 gengur Hveragerðisbær inní BÁ.
1. janúar 2013 gekk Hrunamannahreppur inní BÁ.

Slökkviliðsstjórar
Fyrsti slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu var Eggert Vigfússon, ráðinn 28. apríl árið 1975 og starfaði hann til ársins 1994. Árið 1994 var Kristján Einarsson ráðinn slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu og starfaði hann til ársins 2015.
Árið 2015 var Pétur Pétursson ráðinn slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu og er hann enn starfandi. Varaslökkviliðsstjóri BÁ er Sverrir Haukur Grönli en hann hóf störf árið 2016.

Stjórnarfyrirkomulag
Brunavarnir Árnessýslu eru reknar undir Héraðsnefnd Árnesinga bs. Héraðsnefnd Árnes-inga bs. tók til starfa 1. janúar 2013. Byggðasamlagið er stofnað í samræmi við ákvæði IX. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138, 2011. Stofnendur eru öll sveitarfélög í Árnessýslu. Verkefni byggðasamlagsins er að annast yfirstjórn og rekstur þessara stofnana fyrir hönd sveitarfélaga sem aðilar eru að byggðasamlaginu: Byggðasafn Árnesinga, Listasafn Árnes-inga, Héraðsskjalasafn Árnesinga, Tónlistarskóli Árnesinga, Almannavarnir Árnessýslu og Brunavarnir Árnessýslu.
Fjárhagsáætlun og Ársreikningur Brunavarna Árnessýslu sem lagðir eru fram af stjórn og slökkviliðsstjóra, eru samþykkt af Héraðsnefnd Árnesinga bs. Stjórn BÁ er kosin af Héraðsnefnd Árnesinga og eru stjórnarmenn BÁ eftirtaldir:
Eyþór H. Ólafsson frá Hveragerði, formaður, Ingibjörg Harðardóttir frá Grímsnes- og Grafnings-hreppi, Halldóra Hjörleifsdóttir frá Hrunamannahreppi, Gísli Halldór Halldórsson frá Árborg og Arna Ír Gunnarsdóttir frá Árborg.

Starfsmenn
Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu eru um 120 talsins. Flestir þeirra eru hlutastarfandi og sinna æfingum og útköllum eftir ákveðnu skipulagi.
Af þessum 120 eru 13 í fullu starfi og sinna þeir störfum atvinnuslökkviliðs á dagvinnutíma í samræmi við lög og reglugerðir, eldvarnaeftirliti, eignaumsjón, þjónustuverkstæði við tæki og búnað, reikningshald og stjórnun.

Starfsstöðvar
Starfsstöðvar Brunavarna Árnessýslu eru sjö talsins. Höfuðstöðvar eru í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi en útstöðvar eru í Þorlákshöfn, Hveragerði, Laugarvatni, Reykholti, Flúðum og Árnesi.

Starfssvæði
Starfssvæði Brunavarna Árnessýslu er nokkuð yfirgripsmikið en það nær yfir tæpa 9000 ferkílómetra. Íbúar sýslunnar eru milli 18 og 19 þúsund en þar af búa flestir í Árborg. Mikil fjölgun hefur orðið í sýslunni á síðustu árum og má telja líklegt að sú þróun muni halda áfram. Mikill fjöldi sumarhúsa er í Árnessýslu eða rúmlega 40% allra sumarhúsa á landinu en þegar þetta er ritað eru rúmlega 14.500 sumarhús í landinu öllu. Stjórnendur slökkviliðsins hafa því miðað við að á starfsvæði þess sé að jafnaði milli 40 og 50.000 manns.
Ferðaþjónusta og starfsemi henni tengdri er áberandi í sýslunni og eru gistirými vegna hennar mörg. Allt eykur þetta á fjölda þeirra sem í sýslunni dvelja og fjölda þeirra sem um hana ferðast á einn eða annan hátt. Tekið er tillit til þessa alls í viðbragðs- og þjálfunaráætlunum slökkviliðsins. Umtalsverður landbúnaður er á starfssvæði slökkviliðsins auk þess sem stór hluti raforkuframleiðslu landsins fer fram innan þess. Skógrækt er allnokkur í sýslunni og samvaxin skógarsvæði í tengslum við sumarhúsabyggðir eru víðfeðm. Það má því til sannsvegar færa að áhættur sýslunnar með tilliti til björgunarstarfa séu margþættar og þar með að mörgu að huga í áætlunum og þjálfunarmálum.

Þjónustusvæði Brunavarna Árnessýslu.

Þjálfunarmál
Allt frá stofnun Brunavarna Árnessýslu hefur verið leitast við að veita slökkviliðsmönnum eins góða þjálfun og kostur hefur verið. Auk þessa hefur verið reynt eins og hægt er að leitast eftir nýjungum í faginu sem nýtast til björgunarstarfa á sem skilvirkastan hátt til þess að auka gæði þjónustunnar og öryggi björgunaraðila. Æfingar eru oftast settar upp utan hefðbundins vinnutíma til þess að hlutastarfandi slökkviliðsmenn geti sótt þær. Æfingar eru ýmist haldnar á heimastöðvum slökkviliðsmanna eða fjarri þeim. Lögð er áhersla á að allir geti þeir farið á milli stöðva til æfinga svo að hámarka megi líkurnar á því að menn geti sótt sína þjálfun og til þess að hrista saman hópinn eins vel og mögulegt er. Reglulega eru haldnar stórar æfingar þar sem slökkviliðsmenn af hinum ýmsu starfsstöðvum hittast með góðum árangri. Má í þessu samhengi nefna æfingar í virkjanamannvirkjum starfssvæðisins en þau mannvirki geta oft og tíðum verið flókin með tilliti til björgunar og því brýnt að slökkviliðsmenn þekki þau vel. Lögð er áhersla á að æfa með öðrum viðbragðsaðilum til þess að auka samgang milli aðila, skilning og velvild. Er það trú stjórnenda BÁ að allt þetta leiði til árangursríkara starfs þegar á reynir eins og dæmin hafa sannað. Á ári hafa æfingar slökkviliðsins verið milli 80-100 sem slökkviliðsmenn hafa getað valið úr og sótt. Með samkomutakmörkunum síðasta árs vegna COVID-19 hefur þó þurft að fara nýjar leiðir í þjálfunarmálum og hefur þá verið unnið með æfingar í fyrirlestarformi sem haldnar hafa verið á netinu í rauntíma. Hefur þetta gefið góða raun og hefur mæting verið góð á þessar æfingar.
Undanfarin ár hafa Brunavarnir Árnessýslu flutt inn erlenda fyrirlesara til þess að kynna nýtt verklag og tækni sem notað er í slökkvigeiranum erlendis. Aðilum frá öllum slökkviliðum landsins hefur verið boðið að taka þátt í þessum námskeiðum svo vinnubrögð slökkviliða í landinu séu sem samræmdust. Það er skemmst frá því að segja að þetta hefur tekist afburða vel og færri komist að á námskeiðunum en viljað hafa. Í þessu samhengi má nefna námskeið og fyrirlestra í notkun hitamyndavéla, elda í rafmagnsfarartækjum, innbrotatækni, sjö spora stjórnunartækni í útköllum og viðbrögð við voðaatburðum í skólum.

Útköll
Útköll á stöðvar Brunavarna Árnessýslu eru nokkuð mörg í venjulegu árferði. Það er að segja þegar ferðamenn bæði innlendir og erlendir eru á ferð um landið. Undanfarin ár hafa útköll á stöðvar liðsins verið í kringum 200 talsins. Talsvert há prósenta árlegra útkalla hefur tengst umferðinni en mikil reynsla hefur skapast hjá slökkviliðsmönnum BÁ í notkun og beitingu björgunarklippa við björgun fastklemmdra úr bílflökum.
Samstarf björgunaraðila í sýslunni hefur verið ákaflega gott og farsælt og má fullyrða að það hafi skilað sér beint í þjónustu við þá sem á þjónustunni hafa þurft að halda.

Framtíðarsýn
Framtíðarsýn stjórnenda Brunavarna Árnessýslu er að halda áfram á þeirri braut að geta starfað eftir lögum og reglum með öryggi borgaranna og starfsmanna sinna að leiðarljósi. Að tileinka sér tækninýjungar sem leiða til árangursríks starfs á vettvangi björgunarmála og halda áfram að stuðla að og að taka þátt í öllu því starfi sem leitt getur af sér samstarf viðbragðsaðila og einingu þeirra á milli með hagsmuni heildarinnar í huga.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd