Slökkviliðið á Hellu
Árið 1967 var gerður samningur á milli Rangárvalla- og Holtahrepps um rekstur slökkviliðs og greiðslur greiddar í samræmi við íbúafjölda hreppanna. Í stjórn sátu einn fulltrúi frá hvorum hreppi ásamt slökkviliðsstjóra. Keypt var ný slökkvibifreið frá Danmörku að gerðinni Land Rover sem var afhentur 22. desember 1967 og er hann nú á Skógasafni. Þann 27. apríl 1968 undirrituðu sveitastjórnarmenn Rangárvalla- og Holtahrepps samning um brunavarnir. Með þeim samningi varð til Slökkvistöðin á Hellu. Slökkvistöðinni var komið fyrir að Laufskálum 2 þar sem hreppskrifstofur voru einnig og var það aðsetur slökkviliðsins til ársins 2020.
Fyrsti slökkviliðsstjóri á Hellu var Sigurður Þorgilsson frá Ægissíðu.
Slökkviliðið á Hvolsvelli
Fyrsta slökkvistöð Hvolsvallar var staðsett að Vallarbraut 5 en árið 1983 var byggð núverandi slökkvistöð að Hlíðarvegi 16 á Hvolsvelli þar sem stjórnsýsla, lögregla og Rauði krossinn voru einnig til húsa. Slökkviliðið hafði yfir að ráða Rússajeppa að gerðinni GAZ 69 líklega árgerð 1956 eða 1957 sem Samvinnutryggingar útveguðu.
Átta hreppar stóðu að byggingu slökkvistöðvarinnar eða allir hreppar sýslunnar nema Rangárvallahreppur og Holtahreppur sem saman voru um slökkvistöðina á Hellu og Austur-Eyjafjallahreppur. Kjartan Einarsson frá Sperðli í Vestur-Landeyjum, var fyrsti slökkviliðsstjóri á Hvolsvelli.
Slökkvilið Austur-Eyjafjallahrepps
Slökkvilið Austur-Eyjafjallahrepps annaðist sjálft brunavarnir og með eigin slökkvibíl Bedford bíl, sem var staðsettur á Skógum. Fyrsti slökkviliðsstjóri Austur-Eyjafjallahrepps var Sigurjón Sigurðsson frá Eyvindarhóli, búsettur á Skógum.
Sameining
Árið 1998 var farið að ræða sameiningu slökkviliða í sýslunni til að byggja upp skilvirkari og betri þjónustu auk þess að lækka rekstrarkostnað. Árið 1999 var sameiningarár slökkviliðanna og stofnað var byggðarsamlag um rekstur slökkviliðanna á Hellu og Hvolsvelli undir heitinu Brunavarnir Rangárvallasýslu bs. Ári síðar gekk Austur-Eyjafjallahreppur í byggðarsamlagið. Eftir sameiningu sveitafélagana eru það Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og Ásahreppur sem standa að rekstri slökkviliðsins. Böðvar Bjarnason, búsettur á Hvolsvelli, var fyrsti slökkviliðsstjóri Brunavarna Rangárvallasýslu bs. og um mitt ár 2016 var núverandi slökkviliðsstjóri Leifur Bjarki Björnsson, búsettur á Hellu, ráðinn slökkviliðsstjóri Brunavarna Rangárvallasýslu bs. Í stjórn Brunavarna árið 2020 sátu Hjalti Tómasson formaður fyrir Rangárþing ytra, Anton Kári Halldórsson ritari fyrir Rangárþing eystra og Guðmundur Gíslason stjórnarmaður fyrir Ásahrepp.
Starfssvæði og staðsetning
Núverandi starfssvæði Brunavarna Rangárvallasýslu nær frá Þjórsá, austur að Jökulsá að Sólheimasandi og alveg upp að Nýjadal á Sprengisandi. Á þessu svæði búa rúmlega 4000 manns. Mikill fjöldi fyrirtækja og sumarbústaða er á svæðinu auk fjögurra vatnsfallsvirkjana sem eru á Þjórsársvæðinu. Mikill vöxtur er í skógrækt í sýslunni og þar með hættan á náttúrubrunum orðin meiri en hún var einungis fyrir 20 árum síðan. Er því farið að gera sérstakar viðbragsáætlanir fyrir skóglendi og ræktað land.
Starfsstöðvar Brunavarna Rangárvallasýslu eru tvær, önnur er að Hlíðarvegi 16 á Hvolsvelli en hin er ný slökkvistöð, byggð árið 2020 og stendur að Dynskálum 49 á Hellu.
Slökkviliðsmenn
Brunavarnir Rangárvallasýslu samanstanda af sterkum hópi sem kemur víðsvegar að úr atvinnulífinu af svæðinu, þar sem menn eru með fjölbreytta menntun og reynslu sem kemur sér vel við að leysa úr ýmiskonar verkefnum. Hópurinn er á breiðum aldri með ólíkan bakgrunn, en þrátt fyrir það vinna allir sem einn maður. Oft á tíðum getur starf slökkviliðsmanna verið átakanlegt og beinlínis erfitt andlega sem lítið var gefið fyrir fyrr á árum en í dag hafa menn aðgang að áfallateymi og sálfræðiþjónustu.
Í Brunavörnum Rangárvallasýslu eru nú starfandi 38 einstaklingar en nú á árinu 2022 gekk til liðs við Brunavarnir fyrsta konan sem er dóttir Sigurðar, fyrsta slökkviliðsstjóra á Hellu.
Menntun
Miklar breytingar á námskröfum til slökkviliðsmanna hafa einnig orðið frá því í upphafi þar sem lítillar sem engrar menntunnar var krafist, heldur notast við verkfærni og hyggjuvit manna. Í dag er lögð áhersla á að allir slökkviliðsmenn fái viðeigandi menntun og þjálfun til að geta sinnt starfi sínu af öryggi og fagmennsku.
Verkefni slökkviliðsins
Á árum áður snerist störf slökkviliðanna fyrst og fremst um að slökkva elda en nú eru verkefnin orðin margfalt fleiri, fjölbreyttari og flóknari. Helstu verkefni í dag eru; slökkviliðs- og björgunarstörf, viðbrögð við bráðatilfellum og mengunaróhöppum, björgunar- og klippuvinna vegna umferðaróhappa og slysa, brunavarnir og eldvarnareftirlit með mannvirkjum ásamt yfirferð teikninga og ráðgjöf til einstaklinga, forvarnir og fræðsla fyrir almenning og fyrirtæki, verðmætabjörgun og viðbrögð við vatnslekum, vatnsdælingu og öðrum sambærilegum verkefnum þegar þörf krefur.
Tækjakostur og búnaður
Í upphafi voru slökkviliðin ekki nógu vel tækjum búnir. Bílarnir voru litlir og horft var mikið til þess að dæla skyldi upp slökkvivatni úr nærliggjandi vatnsbólum eða skurðum.
Hlífðarfatnaður slökkviliðsmanna voru síðar regnkápur, hjálmar og gúmmístígvél í takt við öryggi þess tíma. Nú sem þá hefur verið lagður metnaður í hlífðar- og öryggisfatnað slökkviliðsmanna og eru Brunavarnir Rangárvallasýslu þar ekki undanskildar. Hefur slökkviliðið verið byggt upp í takt við kröfur nútímanns og stækkandi byggðar.
Brunavarnir Rangárvallasýslu eru í dag nokkuð vel tækjum búnar með tvo dælubíla, tvo tankbíla og eina nýja björgunarbifreið auk þess sem von er á nýrri dælubifreið 2023 sem staðsett verður á Hellu. Einnig er heilmikið til af tæknilegum björgunarbúnaði, s.s. klippi- og lyftibúnaði.
Mikill hraði er í nútíma samfélögum og breytingar og kröfur sívaxandi. Því er framtíðin ætíð og ávallt áskorun fyrir slökkvilið.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd