Stjórnskipan sveitastjórna á Íslandi hvílir á gömlum grunni en sögu þeirra má rekja allt til þjóðveldisaldar. Stofnun sveitarfélaga má rekja til þeirra lýðræðislegu hefða sem landsnámsmenn þekktu úr norrænni menningu. Þrátt fyrir þessar sögulegu rætur hefur hlutverk sveitarfélaga breyst í aldanna rás og tekið mið af ríkjandi pólitískum viðhorfum hverju sinni. Um miðja 20. öld voru sveitarfélög á Íslandi 229. Frá síðari hluta níunda áratugar tuttugustu aldar tók þeim að fækka.
Fjöldi sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur tekið nokkrum breytingum í aldanna rás. Þannig voru fjögur sveitarfélög á Suðurnesjum langt fram á 19. öld, þ.e. Grindavíkurhreppur, Hafnahreppur, Rosmhvalaneshreppur og Vatnsleysustrandarhreppur. Í gegnum aldirnar urðu að vísu breytingar á stjórnsýslumörkum sveitarfélaganna, t.d. klufu Njarðvíkurbæirnir sig úr Rosmhvalaneshrepp árið 1596 og sameinuðust Vatnsleysustrandarhreppi.
Undir lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. urðu umtalsverðar breytingar á sveitarfélagaskipan á Suðurnesjum rétt eins og á landinu öllu með breyttum atvinnuháttum og breytingum á hlutverki sveitarfélaga. Rosmhvalaneshreppi var skipt upp eftir Miðnesi endilöngu árið 1886, innri helmingurinn hélt nafninu áfram en sá ytri fékk nafnið Miðneshreppur. Þremur árum síðar var hreppum skipt upp aftur þegar Njarðvíkurbæirnir klufu sig frá Vatnsleysustrandarhreppi. Kauptúnið Keflavík klauf sig frá Rosmhvalaneshreppi árið 1908 og sameinaðist Njarðvíkurhreppi í Keflavíkurhrepp. Það sem eftir var af Miðneshreppi varð að Gerðahreppi. Njarðvíkurhreppur klauf sig frá Keflavíkurhreppi árið 1942. Hrepparnir sameinuðust aftur ásamt Hafnarhreppi árið 1994 í Reykjanesbæ. Í dag eru fjögur sveitarfélög á Suðurnesjum, Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar.
Íbúafjöldi og atvinnugreinar
Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað mikið á árunum 2013-2020 eða um 31,2% en það eru samtals 6.623 íbúar. Af þeim hafa rúmlega 5.000 sest að í Reykjanesbæ. Á sama tímabili fjölgaði landsmönnum um 13% eða 42.277 íbúa. Ef litið er til ársins 1998 hefur íbúum Suðurnesja fjölgað um 77,1%. Þann 31. desember 2020 bjuggu alls 28.190 íbúar á Suðurnesjum.
Svæðið er mjög háð flugvellinum og það má sjá í þróun efnahagsmála á Suðurnesjum. Árið 2012 voru ferðaþjónusta, verslun, veitingar og samgöngur um 28% af umsvifum atvinnugreina á Suðurnesjum en árið 2017 var hlutfallið komið í 43%. Atvinnutekjur af ferðaþjónustu á Suðurnesjum er 37,7% árið 2018 skv. upplýsingum frá Byggðastofnun meðan að landsmeðaltalið er 17,5% .
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
Samband sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi voru stofnuð árið 1964 og var gamla Reykjanes-kjördæmið starfsvettvangur þeirra. Þeim samtökum var skipt upp og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum var stofnað árið 1978, en frá árinu 1971 hafði verið starfandi formleg samstarfsnefnd sveitarfélaga á svæðinu. Aðildarsveitarfélög SSS eru fjögur talsins í dag Reykjanesbær, Grindavík, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar.
Sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga í ýmiskonar samstarfi og reka í sameiningu stofnanir og verkefni sem sinna ólíkum hlutverkum og þjónustu við íbúa. Dæmi um samrekin fyrirtæki allra sveitarfélaganna eru Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Atvinnuþróunarfélagið Heklan, Áfangastaðastofa Reykjaness, Reykjanes UNESCO Geopark, Sorpeyðingarstöð Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja.
Verkefni
Helstu verkefni sambandsins tengjast byggða- og atvinnuþróun. SSS heldur utan um Sóknaráætlun Suðurnesja, sinnir atvinnuþróun á svæðinu í gegnum Hekluna. Sér um uppbyggingu ferðamannastaða í gegnum Áfangastaðastofu Reykjaness og Reykjanes Unesco Geopark, svo dæmi séu tekin. Þó svo að verkefnin taki breytingum á milli ára er tilgangur sambandsins alltaf fyrst og fremst að vinna að hagsmunamálum sveitarfélagana og efla og styrkja samstarf þeirra. Í sameiginlegum málum kemur það fram fyrir hönd sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu og öðrum.
Stjórn Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
Jóhann Friðrik Friðriksson, formaður (Reykjanesbæ), Ingþór Guðmundsson, varaformaður (Sveitarfélagið Vogar), Hjálmar Hallgrímsson, ritari (Grindavíkurbær) og Laufey Erlendsdóttir, meðstjórnandi (Suðurnesjabær).
Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum er Berglind Kristinsdóttir og hefur hún gengt því starfi frá árinu 2009. Berglind er B.Sc. gráðu í viðskipafræði frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
Starfsfólk og aðsetur
Alls eru starfsmenn SSS 10 með fjölbreytta menntun og bakgrunn. Jarðfræðingur, íslensku-fræðingur, viðskiptafræðingur og ferðamálafræðingur eru starfandi hjá SSS, svo dæmi séu tekin. Skrifstofa SSS er staðsett að Skógarbraut 945, 262 Reykjanesbæ.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd