B&S Restaurant

2022

Saga veitingahússins og helsta starfsemi
Veitingahúsið B&S Restaurant, sem áður hét Potturinn, var stofnsett 19. júní 2007 og var því fundinn staður í lagerhúsnæði Vélsmiðju Húnvetninga sem hafði þá verið aflögð. Fyrstu árin var staðurinn í eigu Björns Þórs Kristjánssonar og Pottsins og Pönnunnar í Reykjavík og sá Björn Þór um daglegan rekstur veitingahússins auk þess sem þar hefur frá 2009 verið eldaður matur fyrir skólabörn á Blönduósi. Enn fremur er rekin veisluþjónusta á staðnum og farið með veisluföng og þjónustufólk um langan veg ef þess er óskað. Með árunum hefur verið stöðug aukning í heimsóknum erlendra hópa og íslenskra. Er ekki síst vinsælt meðal íþróttafólks á keppnisferðum að staldra við og fá sér hressingu, enda er hjá okkur hröð og góð afgreiðsla á mat fyrir hópa og gnægð góðra bílastæða fyrir rútur jafnt sem einkabíla.

Breytingar til batnaðar
Eigendaskipti urðu árið 2010 og á nú Sandra Kaubriene staðinn á móti Birni Þór. Þeim til hjálpar eru 6–15 starfsmenn eftir árstíðum, því ekki er straumur ferðamanna jafn stríður og stöðugur yfir myrkustu mánuði ársins í Húnaþingi og hann er sunnan heiða. Starfsmennirnir hafa lengstum komið úr ýmsum áttum og margir langt að; um þessar mundir eru aðallega Serbar að störfum í eldhúsinu, en þeir eru miklir fagmenn þegar kemur að eldamennsku. Í framhaldi af eigendaskiptunum var nafni staðarins breytt og heitir hann nú B&S Restaurant.

Daglegur rekstur og réttirnir
Í upphafi var staðurinn rekinn á jarðhæð, tók þá um 80 manns í sæti og hefur þar frá upphafi verið framreiddur fjölbreyttur matur. Matseðillinn samanstendur af forréttum, aðalréttum, kjöti og fiski úr héraðinu, pasta og heilsuréttum, hamborgurum, pitsum og eftirréttum. Auk þess er alla virka daga á boðstólum réttur dagsins og alla daga er súpa dagsins, sem og nýtt heimabakað brauð, enn fremur salatbar á sumrin og ætíð er boðið upp á sérstakan matseðil fyrir börn. Fyrir þremur árum var tekin upp sú nýbreytni að selja heimabakaðar kökur og keypt var stór espressóvél svo að nú stenst veitingahúsið samanburð við bestu kaffihús og hefur því verið afar vel tekið.

Staðurinn stækkaður og sagan fær sinn sess
Árið 2012 var B&S Restaurant stækkaður til muna og bætt við sal á annarri hæð, svonefndri Eyvindarstofu sem tekur 70 manns í sæti og býður upp á einstakt umhverfi. Salurinn er innréttaður eins og stór útilegumannahellir og eru veitingarnar í stíl við kost útlagans á 18. öld. Til hliðar við Eyvindarstofu er sýningarsalur með myndverkum og upplýsingaspjöldum sem helguð eru ævi útilegumannsins og jafnframt gefur þar að líta helli sem segja má að sé heimili Eyvindar og Höllu. Eyvindarstofa er mest notuð fyrir hópa sem hafa pantað matinn fyrirfram og er þar mjög góð fundaraðstaða: þráðlausir skjávarpar og hljóðkerfi af bestu gerð. Í Eyvindarstofu eru haldin fimm kótelettukvöld á hverju ári, afar vinsæl, og mætir fólk alls staðar af landinu. Einnig er árlega, í febrúar, haldin veisla þar sem boðið er upp á vel feitt, saltað hrossakjöt, en þess ber að geta að við reynum eftir fremsta megni að kaupa í heimabyggð eins mikið og hægt er af þeim vörum og hráefnum sem við notum; þannig kemur fiskurinn frá Skagaströnd, kjötið frá SAH Afurðum á Blönduósi og kryddið frá Vilko á Blönduósi.

Björt framtíð í Húnaþingi – ómæld tækifæri
Á Blönduósi hefur verið mikill uppgangur í ferðaþjónustu á undanförnum árum og sjást þess ekki síst merki við þjóðveg 1, til móts við S&B Restaurant, þar sem er fjöldi húsa til leigu fyrir ferðafólk. Náttúrufegurð Húnavatnssýslna er óumdeild og frá Blönduósi er skammt að fara á fjölbreytileg söfn og forn frægðarsetur. Veitingastaðir eru nokkrir í sýslunum og við hjá S&B Restaurant vitum að við erum fremst í þeim flokki og með mestu umsetninguna, hvort heldur sem litið er til fjölda starfsmanna eða gesta.
Þrátt fyrir mikið starf á liðnum árum eru þó enn næg sóknarfæri til staðar og að þeim hugum við hér eftir sem hingað til. Við sjáum fram á að viðskiptin muni aukast þar sem við hyggjum á frekari stafræna markaðssetningu til að ná betur til ferðamanna og verða nýttir til þess nýjustu samfélagsmiðlarnir sem ryðja sér æ meira til rúms. Enn fremur þarf að leggja áherslu á markaðsstarf fyrir vetrarferðamennsku í Húnavatnssýslunum, með því til dæmis að stuðla að því að opnuð verði skíðasvæði og skautasvæði, auknir verði möguleikar á útreiðartúrum og heimsóknum á bóndabæi, byggður kláfur yfir Blöndu og út í Hrútey, og haldin verði þorrablót að þjóðlegum sið fyrir borgarbúa landsins. Jafnvel má einnig hugsa sér að sjómenn á smærri bátum fari með fólk að vetrarlagi út á Húnaflóa til sjóstangveiði. Að síðustu má nefna að víða við strendur hér eru góðar öldur fyrir brimbrettafólk. Möguleikarnir eru mun fleiri og of langt mál að telja þá alla upp. En það er eins ljóst og heiður himinn á góðum sólardegi að á Norðurlandi getur framtíðin orðið skínandi björt, ekki bara yfir sumarið heldur einnig í vetrarmyrkrinu, og þá ekki bara yfir daginn – því hér eru jú norðurljósin tilkomumeiri en annars staðar í landinu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd