BSRB eru stærstu heildarsamtök opinberra starfsmanna á Íslandi. Öll stéttarfélög starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði geta orðið aðilar að BSRB. Í byrjun árs 2022 voru aðildarfélög bandalagsins 19 talsins og fjöldi félagsmanna um 23.000. Um tveir þriðju hlutar félagsmanna eru konur. BSRB hét áður Bandalag starfsmanna ríkis og bæja en nafninu var breytt í BSRB með breytingu á lögum þess árið 2015. Hlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og stuðla að bættu velferðarsamfélagi. Bandalagið fer með samningsrétt í sameiginlegum málum aðildarfélaganna og þeim málum sem því er falið hverju sinni. BSRB styður og eflir aðildarfélögin við gerð kjarasamninga og hagmunagæslu félagsmanna. Þá vinnur bandalagið að samstöðu meðal aðildarfélaga og stuðlar að jafnræði þeirra í framkvæmd þjónustu við félagsmenn. Bandalagið vinnur jafnframt að fræðslu-, upplýsinga- og menningarstarfsemi og jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði. Þá vinnur BSRB að aukinni samstöðu, samstarfi og tengslum í stéttarfélagsmálefnum innanlands og erlendis.
Þing BSRB fer með æðsta vald í öllum málum bandalagsins. Þingið tekur til umfjöllunar öll þýðingarmikil málefni og mótar stefnu BSRB. Þá er kosið í helstu embætti bandalagsins á þingum þess. 46. þing BSRB var haldið í lok september 2021 undir yfirskriftinni „Þjóðin kýs almannaþjónustu“. Á þinginu var Sonja Ýr Þorbergsdóttir endurkjörin í embætti formanns BSRB. Þórarinn Eyfjörð var kosinn 1. varaformaður bandalagsins og Arna Jakobína Björnsdóttir endurkjörin í embætti 2. varaformanns. Á þinginu var einnig kjörin ný stjórn bandalagsins, sem fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins milli þinga og aðalfundar. Formaður og varaformenn eiga sæti í stjórn bandalagsins en auk þeirra voru þau Árný Erla Bjarnadóttir, Fjölnir Sæmundsson, Jón Ingi Cæsarsson, Karl Rúnar Þórsson, Sandra B. Franks og Þórveig Þormóðsdóttir kjörin í stjórnina. Formannaráð BSRB er skipað öllum formönnum aðildarfélaga bandalagsins hverju sinni. Ráðið mótar stefnu og megináherslur BSRB í málum sem koma upp milli þinga bandalagsins og fylgir eftir framkvæmd samþykkta þingsins og annarra mála sem þingið vísar til ráðsins. Fundir ráðsins, sem haldnir eru að minnsta kosti þrisvar á ári, eru einnig vettvangur samráðs aðildarfélaga bandalagsins. Formaður BSRB er formaður ráðsins.
Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var stofnað í Reykjavík 14. febrúar árið 1942. Stofnfélögin voru 14 og höfðu á að skipa um 1.550 félagsmönnum. Tildrögin að stofnun bandalagsins voru ríkjandi dýrtíð allt frá 1939 sem rekja má til heimsstyrjaldarinnar síðari og nánasta aðdraganda hennar. Umræðan um nauðsyn heildarsamtaka var þegar hafin um sumarið 1939. Stórt skref á þeirri braut var svo stigið 28. janúar 1941 er fulltrúaráði félaga opinberra starfsmanna var komið á fót. Hlutverk þess var að koma á framfæri sameiginlegum kröfum félaganna og vinna að stofnun heildarsamtaka.
Tilkoma BSRB hleypti nýjum krafti í kjarabaráttu opinberra starfsmanna sem varð hvort tveggja í senn, öflugri og sýnilegri en fyrr. Þegar á fyrstu starfsárunum náðu BSRB og aðildarfélögin umtalsverðum árangri í réttinda- og kjaramálum. Skýrt dæmi þar um eru lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins frá árinu 1943.
Kjör flestra opinberra starfsmanna voru ákveðin með lagasetningu á Alþingi og gekk lítið að fá samningsrétt og verkfallsrétt. Fyrir tilstilli BSRB og í samvinnu við ríkisvaldið tóku ný launalög gildi árið 1945. Lögin voru mikið framfaraskref enda leystu þau af hólmi löngu úrelt lög frá árinu 1919. Í þeim fólust margvíslegar réttar- og kjarabætur en einnig formleg viðurkenning ríkisvaldsins á BSRB og forystuhlutverki þess í málefnum opinberra starfsmanna. Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna frá 1954 voru afar merkur áfangi í kjara- og réttindabaráttu BSRB og þau urðu þegar fram liðu stundir fyrirmynd að auknum réttindum fyrir annað launafólk.
Langvarandi barátta skilaði árangri árið 1962 en þá fékk BSRB takmarkaðan samningsrétt gagnvart ríkinu. Starfsmannafélög sveitarfélaga fengu samningsrétt þetta sama ár og gilti um hann reglugerð sem byggði á lögunum um samningsrétt BSRB við ríkið. Samningsrétturinn var án verkfallsréttar og gerðardómur hafði síðasta orðið í ágreiningsmálum viðsemjenda.
Ný lög um kjarasamninga frá 1973 fólu í sér breytta stöðu samtakanna. Gerð sérkjarasamninga við ríkið fluttist til aðildarfélaganna en aðalkjarasamningur var sem fyrr í höndum BSRB. Hin meginbreytingin var ekki síður mikilsverð því að nú voru allir sem fengu laun eftir samningum félaganna skyldaðir að greiða til þeirra félagsgjöld. Innan tíðar völdu langflestir að gerast fullgildir meðlimir og konur urðu í fyrsta sinn meirihluti félagsmanna innan bandalagsins. Þá var stór áfangi í höfn árið 1976 þegar BSRB fékk verkfallsrétt um gerð aðalkjarasamnings. Frá þeim tíma hefur BSRB tvisvar farið í allsherjarverkfall, árin 1977 og 1984.
BSRB hefur forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu og beitir sér í fjölmörgum málaflokkum til að bæta velferðarsamfélagið. Starfsmenn bandalagsins taka þátt í ýmiskonar málefnastarfi og vinna að hagsmunum félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins með þátttöku í nefndum og ráðum, bæði á vegum hins opinbera og annarra. Barátta BSRB og annarra samtaka launafólks á undangengnum áratugum hefur borið ríkulegan ávöxt. Hún hefur skilað auknum réttindum, betri kjörum og meiri velferð almenningi til handa. Afar fáar úrbætur hafa komið upp í hendurnar á launafólki fyrirhafnarlaust – þvert á móti hafa allir meiriháttar áfangar og sigrar náðst í krafti samtakamáttar og samvinnu fjöldans.
Eitt af stærstu baráttumálum BSRB er að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna. Hluti af því viðamikla verkefni var að stytta vinnuvikuna án þess að laun skerðist á móti. Samið var um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum flestra aðildarfélaga BSRB vorið 2020, að undangengnum tilraunaverkefnum sem unnin voru með bæði ríkinu og Reykjavíkurborg.
BSRB leggur mikla áherslu á að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera á réttlátan hátt fyrir skattfé landsmanna. Rannsóknir sýna að þar talar bandalagið fyrir hönd þorra þjóðarinnar. Þrátt fyrir það er vaxandi þrýstingur á stjórnvöld að auka einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu sem BSRB hefur barist gegn af fullum þunga.
BSRB hefur lengi beitt sér í jafnréttismálum enda að jafnaði um tveir þriðju hlutar félaga aðildarfélaga bandalagsins konur. Bandalagið hefur beitt sér gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kallað eftir leiðréttingu á launum kvennastétta og komið með ýmsum öðrum hætti að því að auka jafnrétti kynjanna.
Sérstök réttindanefnd er starfrækt á vegum BSRB sem hefur það hlutverk að taka til umfjöllunar þau mál sem aðildarfélög skjóta til BSRB varðandi túlkun á réttindamálum sem eru almenn fyrir aðildarfélögin.
Mennta- og fræðslumál hafa verið ríkur þáttur í starfi BSRB og aðildarfélaga bandalagsins í yfir 50 ár. Skipta má núverandi áherslum bandalagsins í mennta- og fræðslumálum í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða áherslur vegna starfsmenntamála félagsmanna og hins vegar stefnumörkun og sýn bandalagsins vegna áherslna og aðgerða stjórnvalda í menntamálum. Þessir tveir flokkar liggja þó oft saman.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd