Búlandstindur ehf

2022

Árið 1945 tóku nokkrir vaskir aðilar sig saman og stofnuðu hraðfrystihús á Djúpavogi til þess að svara þörf samfélagsins á auknu atvinnuöryggi og uppbyggingu á staðnum. Eftir nokkra undirbúningsfundi og söfnun hlutafjár var haldinn stofnfundur fyrir tilstilli Kaupfélags Berufjarðar sem var langstærsti eignaraðilinn að félaginu og sá um bókhald og daglegan rekstur og tveimur árum síðar, árið 1947 hófst rekstur sem markaði tímamót á Djúpavogi. Framkvæmdastjóri Búlandstinds er Elís Hlynur Grétarsson og í stjórn sitja Jens Garðar Helgason, Guðmundur Gíslason og Håvard Grøntvedt.

Sagan
Segja má að sagan hafi endurtekið sig 60 árum síðar þegar tímamót urðu í rekstri fiskvinnslunnar. Til stóð að hætta rekstri árið 2015 með tilheyrandi atvinnuleysi þeirra 30 sem þar störfuðu og 5000 m2 atvinnuhúsnæði hefði engan tilgang. Enn á ný settust vaskir aðilar að borðinu og börðust fyrir áframhaldandi starfsemi frystihússins, einni af stærstu lífæð samfélagsins.
Einn af þeim sem lögðu nótt við nýtan dag við að finna leiðir til að halda fiskvinnslu á staðnum var Fáskrúðsfirðingurinn Elís Hlynur Grétarsson sem starfaði á þessum tíma sem verkstjóri og einn af eigendum fiskvinnslufyrirtækisins Ósness ehf. lítils fjölskyldufyrirtækis sem lagði áherslu á þorsk og saltfiskvinnslu. Eftir fjölmarga fundi og samtöl keyptu Ósnes ehf. og Fiskeldi Austfjarða ehf. með fremstan í flokki Guðmund Gíslason, búnað og húsnæði fiskvinnslunnar. Markmið frá byrjun var áframhaldandi bolfiskvinnsla og uppbygging laxasláturhúss.
Samningur var gerður við útgerðirnar Eyfreyjunes og Sigurð Ólafsson frá Hornafirði um að landa bolfiski í fyrirtækið. Fiskurinn frá þeim hélt lífi í fyrirtækinu fyrstu 2 árin. Einnig festi Búlandstindur kaup á dagróðra línubát sem fékk nafnið Sunnutindur, en ljóst var frá upphafi að meira þurfti til en bolfiskinn sem veiðiheimildir þessara útgerða gáfu. En grundvöllur áframhaldandi reksturs var þó laxinn og var traustið sett á laxeldi þrátt fyrir að fiskeldi á Austurlandi hafi verið rétt að byrja og mikið óöryggi sem fyrirtækin stóðu frammi fyrir. Ekki höfðu allir trú á þessari atvinnugrein sem aldrei hafði gefið vel af sér við Íslandsstrendur. Fyritækin höfðu trú, sýndu kjark og þrautsegju og tóku séns sem hefur heldur betur skilað sér 5 árum síðar.

Starfsemin
Þrátt fyrir brösuglega byrjun í fiskeldi á Austfjörðum fóru hlutirnar fljótt að ganga og fljótlega varð ljóst að þörf yrði á að tæknivæða og auka afköst jafnt og þétt til að hafa undan eldisframsleiðslu þegar hún tæki á flug. Í september 2020 var settur upp hátæknibúnaður sem samanstendur af fiskinnmötun og gæðaskoðun, sjálfvirkum heilfisk flokkara og kassakerfi sem heldur utan um kassana sem fiskurinn er settur í. Árið 2015 var 300 tonnum af laxfiski slátrað en árið 2020 var slátrað um 8000 tonnum, auk þess sem aukin gæði og rekjanleiki er mun betur tryggður. Til samanburðar fór þorskvinnsla frá 1200 tonnum árið 2015 í 2100 tonn árið 2019. Það er gríðalega mikilvægt fyrir fyrirtækið að halda úti vinnslu á báðum þessum tegundum. Margir óttast að með aukinni tækni fækki störfum en á svipuðum tíma og nýju tækin komu í hús hófu 5 nýir starfsmenn störf við framleiðslu í Búlandstindi og hafði því starfsmannafjöldi aukist frá 30 í yfir 70 á 5 árum. Störfin eru fjölbreyttari en áður, sértæk störf sem krefjast sértækrar menntunnar í bland við hefðbundnari fiskvinnslustörf. Í Búlandstindi er öflug nýliða- og starfsfræðsla og endurmenntun.

Mannauður
Fyrirtækið starfar nú undir fyrirkomulagi teymisvinnu sem byggir á trausti, öryggi, virðingu og dreifðri ábyrgð milli allra. Í Búlandstindi eru fjölmargar starfsstöðvar og nokkur teymi sem vinna náið saman. Með því að skipta fyrirtækinu í smærri einingar gefst tækifæri til að vinna nánar með hverjum og einum, með það að leiðarljósi að hvert teymi geti alltaf náð betri árangri. Reglulega eru haldnir teymisfundir þar sem starfsmönnum gefst tækifæri á að tjá sig, skiptast á skoðunum, setja sér markmið, fá endurmenntun og fleira. Eigendur Búlandstinds vita að starfsmennirnir gegna lykilhlutverki í fyrirtækinu og því er lögð rík áhersla á samvinnu, hvetjandi stjórnunarhætti og jákvæðar samskiptaaðferðir. Öflugur tækjabúnaður og háleitar hugsjónir eru til lítils ef starfsfólkið er ekki líka öflugt, samstillt, upplýst og áhugasamt.

Aðsetur og vinnsla
Starfsemi Búlandstinds er öll á Djúpavogi í upprunalegu húsnæði Búlandstinds sem hefur í gegnum tíðina tekið stakkaskiptum í takt við nýja tækni, kröfur og þörf. Mikil nýsköpun hefur átt sér stað með tilkomu laxins og hefur Elís trú á að næstu 5 ár verði jafn viðburðarrík og undanfarin 5 ár, ekkert lát er á hugmyndum og háleitum markmiðum. Búlandstindur verður áfram leiðandi í heildarlausnum með framleiðslu á frosnum, ferskum og söltuðum fiski og að veita viðskiptavinum fyrsta flokks vöru og topp þjónustu. Nú þegar er hafin vöruþróun og tilraunavinnsla á laxaflökum en hingað til hefur laxinn verið sendur heilfrystur til kaupenda. Enn meiri fullvinnsla er mjög líkleg. Einnig er framundan að opna kassaverksmiðju á Djúpavogi sem mun skapa atvinnu fyrir 4-6 og framleiða allar umbúðir fyrir laxinn. Þetta mun spara mikinn flutning á umbúðum milli staða sem er í takt við umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd