Bústólpi ehf. starfrækir fóðurverksmiðju á Oddeyrartanga á Akureyri ásamt því að reka verslun með vörur sem tengjast landbúnaði. Helst ber þar að nefna áburð, sáðvörur, girðingarefni, heyverkunarvörur, vítamín og steinefni, ásamt ýmsum smávörum sem bændur nota við rekstur sinn. Þá rekur fyrirtækið sérstaka deild sem selur og þjónustar á landsvísu mjaltabúnað frá DeLaval, bæði sjálfvirka mjaltaþjóna og hefðbundin mjaltakerfi.
Aðal framleiðsluvörur fyrirtækisins eru fjölmargar tegundir kjarnfóðurs fyrir húsdýr í landbúnaði, en árlega framleiðir fyrirtækið milli 15 og 16 þús tonn af kjarnfóðri. Framleiðslan er vöktuð með virku gæðakerfi á öllum stigum allt frá vali hráefna til afhendingar fóðurs til bænda. Stærstur hluti framleiðslunnar er keyrður út til bænda á tankbílum fyrirtækisins og dælt í fóðursíló heima á bæ.
Heildarvelta fyrirtækisins er rúmir tveir milljarðar á ári og starfsmannafjöldinn 24. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá 2007 er Hólmgeir Karlsson.
Framleiðsluferlið
Verksmiðja Bústólpa er mjög tæknivædd framleiðsla þar sem sömu kröfur eru gerðar um gæði og öryggi varanna eins og um matvælaframleiðslu væri að ræða, enda er framleiðslan skilgreind sem fyrsta þrepið í matvælaframleiðslunni. „Við leggjum grunn að gæðum“ er slagorð framleiðslunnar. Framleiðsla Bústólpa er vottuð af MAST og einnig er verksmiðjan vottuð til lífrænnar framleiðslu af Tún vottunarstofu.
Öflugar konur í stjórnunarstöðum
Miklar breytingar hafa orðið á Bústólpa á liðnum árum og ein þeirra er fjölgun kvenna í störfum stjórnenda og millistjórnenda. Staðan í dag er sú að jafn margar konur og karlar eru í hópi stjórnenda hjá fyrirtækinu. Á síðustu 10-15 árum hefur velta félagsins þrefaldast og fjöldi starfsmanna tvöfaldast. Fyrir utan kjarnfóðurframleiðsluna hefur fyrirtækið vaxið mjög í þjónustu við bændur og sölu á vörum tengdum landbúnaðinum. Sérstök deild sem þjónustar og selur mjaltabúnað frá DeLaval hefur vaxið jafnt og þétt og telur nú fimm sérhæfða starfsmenn sem sinna tækniþjónustu og uppsetningum á búnaðinum um allt land.
Starfsfólkið lykill að velgengni
Hólmgeir Karlsson, framkvæmdastjóri Bústólpa, er ekki í vafa um að það efli fyrirtækið til muna að í starfsmannahópinn hafi valist hæfileikaríkt fólk með ólíka reynslu og þekkingu, karlar og konur. „Frá því ég tók við fyrirtækinu fyrir tæpum 14 árum hefur það vissulega verið eitt af mínum markmiðum að fá fleiri konur í hópinn, bæði vegna hæfni þeirra og svo einfaldlega vegna þess að ég tel það hafa mjög jákvæð áhrif á fyrirtækjamenninguna að blanda hópinn. Þannig hefur það verið mér kappsmál að byggja upp starfsmannahóp með ólíka sérþekkingu, reynslu og sýn á hluti. Í því felast mikil verðmæti og sköpunarkraftur. Þar sem ólík þekking og reynsla mætast verða framfarir og nýsköpun. Lykill að velgengni er að þú ráðir til þín fólk sem er klárara á einhverjum sviðum en þú sjálfur,“ segir Hólmgeir og bætir við að Bústólpi hafi á sínum tíma verið frekar karllægur vinnustaður. Því hafi kannski ekki verið sjálfgefið né auðvelt að laða konur að starfseminni. Hólmgeir segir að eftir því sem Bústólpi hafi þróast, byggt upp hátækni í framleiðslunni, eflt markaðsdrifna starfsemi og framsækna þjónustu hafi störfum fjölgað. Þörf hafi verið á fleira sérmenntuðu fólki og það hafi opnað tækifæri til að laða fleiri konur til liðs við starfsmannahópinn. „Engin þeirra er þó hér af því hún er kona,“ leggur Hólmgeir áherslu á. „Allar hafa þær verið ráðnar úr hópi fjölda umsækjenda á hverjum tíma þar sem þær skoruðu einfaldlega hæst vegna hæfni, þekkingar og reynslu.“
Við bryggjukantinn á Oddeyrartanganum á Akureyri er að finna aðsetur Bústólpa ehf. sem í dag er einhver öflugasta miðstöð kjarnfóðursframleiðslu til handa bústofni á Norður- og Austurlandi. Stærstur hluti afurðanna er nautgripafóður en einnig er framleitt fyrir sauðfé, svín og hross ásamt varp- og alifuglum. Bústólpi var upphaflega stofnaður sem einkahlutafélag árið 2000 en grunnur starfseminnar lá hjá Fóðurvörudeild KEA sem nú hefur verið aflögð. Fyrsti framkvæmdastjóri var Ólafur Jónsson, núverandi héraðsdýralæknir í Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu. Ólafur sinnti starfinu til ársins 2007 en arftaki hans, Hólmgeir Karlsson, hefur gegnt sömu stöðu upp frá því.
Kjarnmeira húsdýrafóður
Samkvæmt orðanna hljóðan þýðir kjarnfóður einfaldlega „kjarnmeira“ fóður og er tilgangurinn sá að með næringarríkri neyslu þess skili húsdýrin af sér efnameiri og verðmætari kjöt- og mjólkurafurðum. Á undanförnum árum hefur þróunin á þessu sviði verið mjög hröð og er í raun samofin uppgötvunum helstu næringarefnanna á síðustu öld. Skipuleg framleiðsla á köggla-kjarnfóðri hófst á Akureyri í kringum 1970 og þá hjá áðurnefndri Fóðurvörudeild KEA sem upphaflega var sett á legg á fjórða áratug 20. aldar. Á nýrri öld hefur Bústólpi ehf. tekið við kyndlinum á traustum grunni með leiðandi og umsvifamikilli kjarnfóðursframleiðslu og öruggri miðlun hennar til bænda á Norður- og Austurlandi.
Framleiðslan
Framleiðsluferlið hjá Bústólpa ehf. er mjög úthugsað. Meginuppistaða hráefna eru hveiti, bygg, maís, fiskimjöl, vítamín og steinefni. Eftir mölun og sigtun eru þau blönduð eftir ákveðnum forskriftum, síðan hituð, sett í kögglun, kæld niður og loks afgreidd til bænda. Mikil áhersla er lögð á að öll næringarefni haldi eiginleikum sínum og gæðum alla leið. Við hitun hráefnanna er þess vandlega gætt að viðhalda lægsta mögulega hitastigi sem þarf til þess að eyða öllum hugsanlegum sjúkdómsvöldum en varðveita um leið efnagæði fóðursins. Frumgerð framleiðslunnar er, að mestu, sótt til Norðurlanda, en helstu breyturnar felast þó í aðlögun á íslenskum aðstæðum og næringarþörfum þeirra dýrastofna sem hér eru fyrir hendi. Nærtækt dæmi um slíkt liggur í þeirri staðreynd að hér á landi ríkir mun óstöðugra veðurfar heldur en í nágrannalöndunum. Af þeim sökum geta grasgæði breyst mikið á milli ára og þarf að taka mið af því í efnisinnihaldi kjarnfóðursins.
Verslun – Starfsmannafjöldi – Velta
Fyrir utan umsvifamikla kjarnfóðursframleiðslu útvegar Bústólpi ehf. fjölþættar landbúnaðarvörur í verslun sinni við Oddeyrartangann. Hjá fyrirtækinu starfa í dag um 15 manns. Meðaltalsveltan á ársgrundvelli er um 1,2 milljarðar króna.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd