Hlutverk Byggðasafns Árnesinga er að safna, skrá, varðveita, forverja og rannsaka minjar um byggða-, menningar- og atvinnusögu Árnessýslu og kynna þær almenningi.
Starfsemin
Starfsemi Byggðasafns Árnesinga var óvenjuleg að mörgu leyti árið 2020. COVID-19 faraldur-inn setti strik í aðsóknarfjölda miðað við undanfarin ár og starfsemin raskaðist á ýmsan hátt. En þrátt fyrir það var engan bilbug að finna á innra starfi safnsins, við söfnin var unnið að verkefnum samkvæmt stofnskrám og öðrum samþykktum. Unnið var að söfnun, skráningu, varðveislu og miðlun.
Grunnsýningar
Grunnsýningar safnsins eru í Húsinu á Eyrarbakka, Eggjaskúrnum, Kirkjubæ og Sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Þrjár sýningar voru settar upp á árinu í borðstofu Hússins. Sumarsýningin var Fröken Lunn kemur í heimsókn. Á þorra var boðið upp á leikskólasýningu um vinnslu mjólkur. Jólasýning var að vanda sett upp í upphafi aðventu en ýmsum viðburðum jóladagskrár var streymt. Kirkjubær var opinn um leið og Húsið. Byggðasafn Árnesinga hafði umsjón með starfsemi Rjómabúsins á Baugsstöðum. Bæjarhátíðir sem haldnar eru árlega féllu niður.
Innra starf
Hjá safninu fer fram öflugt innra starf. Við safnið fer fram stöðug söfnun á munum með varðveislugildi og sögu tengdu héraðinu. Er það í samræmi við hlutverk safnsins samkvæmt stofnskrá. Safnað er eftir söfnunarstefnu. Safmnunir eru skráðir í gagnagrunninn Sarp sem sýnilegur er á www.sarpur.is. Við safnið fer jafnframt fram forvarsla, rannsóknir, ráðgjöf, upplýsingagjöf, umsýsla í geymslum, undirbúningur og gerð sýninga, frágangur sýninga og útlán. Á árinu 2020 var átak gert í myndvæðingu gripa í Sarpi.
Búðarstígur 22 var keyptur af Byggðasafni Árnesinga árið 2019 til að hýsa allt innra starf safnsins. Á árinu var unnið að viðgerðum á húsinu og gengu þær vel. Skemma byggingarinnar var tekin í notkun fyrir grófgripi safnsins. Stefnt er að verklokum um mitt ár 2021. Öðru hefðbundu viðhaldi á húsakynnum safnsins var sinnt.
Eigendur og stjórnendur
Byggðasafn Árnesinga er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga bs. sem er byggðasamlag allra átta sveitarfélaganna í Árnessýslu og er Sveitarfélagið Árborg þeirra fjölmennast með um 10 þúsund íbúa. Stjórn safnsins er skipuð Árna Eiríkssyni oddvita Flóahrepps, Eggerti Val Guðmundssyni bæjarfulltrúa í Árborg og Bryndísi Eir Þorsteinsdóttur bæjarfulltrúa í Hveragerði. Safnstjóri er Lýður Pálsson sagnfræðingur. Þrjú stöðugildi voru við safnið á ársvísu. Á vettvangi stjórnar safnsins var starfsemi safnsins til umræðu og voru húsnæðismálin fyrirferðarmikil auk þess sem sérstök bygginganefnd vegna framkvæmda var starfandi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd