Byggðasafnið í Görðum Akranesi var stofnað 13. desember 1959 að frumkvæði sr. Jóns M. Guðjónssonar, þáverandi sóknarprests á Akranesi. Safnið er sjálfseignarstofnun. Eigendur þess eru Akraneskaupstaður (90%) og Hvalfjarðarsveit (10%) og markast starfssvæði safnsins við landsvæði eigenda. Safnið er staðsett á hinu forna höfuðbóli, Görðum á Akranesi, sem var kirkjustaður og prestsetur frá öndverðri kristni til loka 19. aldar. Samkvæmt Landnámabók bjó þar í upphafi Jörundur hinn kristni, sonur Ketils Bresasonar, sem ásamt Þormóði bróður sínum kom til Íslands frá Írlandi í lok 9. aldar og nam Akranes.
Safnið og fastasýning
Safnið býður gestum einstaka innsýn í liðna tíma en jafn heildstæð sýning er fágæt á landsvísu. Sýningar safnsins eru afar fjölbreyttar, m.a. í nokkrum húsum sem sum hafa verið flutt á svæði safnsins. Meðal húsa safnsins eru Garðahús, elsta steinsteypta hús sinnar tegundar á Íslandi, byggt sem prestssetur á árunum 1876-1882 og hýsti safnið við stofnun þess, Neðri-Sýrupartur sem er elsta varðveitta timburhús á Akranesi, byggt árið 1875 og stóð á svokölluðum Pörtum á Niður-Skaga og Stúkuhúsið sem var upphaflega byggt sem hlaða og fjós um 1916 og stóð við Háteig 11 en í dag er húsið m.a. nýtt fyrir tónlistarflutning fyrir safngesti og leigt út til fundahalda og annarra samkoma. Þá starfar félagsskapurinn Íslenskir eldsmiðir í eldsmiðju sem staðsett er á svæði safnsins.
Fastasýning safnsins var endurgerð og opnuð fyrir almenning á árinu 2020. Í nýrri sýningu er lögð áhersla á sérstöðu starfssvæðis safnsins og er efnistökum skipt upp í fjögur meginþemu: Lífið til sjós, lífið í landi, lífið í vinnu og lífið í leik. Þá fá valdir ferðalangar, sem sett hafa mark sitt á samfélagið, jafnframt sérstakann sess. Í sýningarhúsinu eru einnig sérstakt kvikmyndarými, sýningarými fyrir skammtímasýningar og fræðslurými.
Sýningin miðlar fróðleik með fjölbreyttum hætti og má þar nefna ljósmyndir, kvikmyndir, veggtexta, fatnað sem gjarnan má prófa að ógleymdum safnmunum. Metnaðarfull hljóðleiðsögn er í boði í afspilunarbúnaði sem er nýjung hér á landi. Boðið er uppá hljóðleiðsögn bæði á íslensku og á ensku og er hún innifalin í aðgangseyri. Aðgengismál hafa fengið sérstaka áherslu í nýrri sýningu og má m.a. nefna að tvær hjólastólalyftur hafa verið teknar í gagnið, gott aðgengi er að salernisaðstöðu og inntak hljóðleiðsagnar er í boði í útprentuðu handriti fyrir þá sem hafa skerta heyrn. Heimsókn á Byggðasafnið í Görðum leikur við öll skilningarvit gesta.
Stjórnendur og starfsmenn
Forstöðumaður safnsins er Ella María Gunnarsdóttir. Aðrir starfsmenn safnsins eru Jón Allansson deildarstjóri minjavörslu, Nanna Þóra Áskelsdóttir sérfræðingur og Guðmundur Sigurðsson iðnaðarmaður.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd