Byggðastofnun starfar eftir lögum nr. 106/1999 og heyrir undir innviðaráðuneytið. Ráðherra skipar sjö manna stjórn til eins árs í senn. Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggða og atvinnulífs í landsbyggðunum. Skrifstofa stofnunarinnar er á Sauðárkróki.
Úttektir og greiningar
Byggðastofnun heldur úti þjónustukorti sem sýnir aðgengi landsmanna að almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila í þeim tilgangi að bæta yfirsýn og skapa grundvöll fyrir aðgerðir sem miða að því að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað. Stofnunin hefur látið gera þjónustukannanir í öllum landshlutum til að kanna hvert og hversu oft íbúar sækja margvíslega þjónustu. Stofnunin vinnur skýrslur um búsetuáform íbúa á Íslandi, allt frá dreifbýli og minni bæjum að höfuðborgarsvæðinu. Mælaborð Byggðastofnunar er hluti af metnaðarfullum áformum hennar í stafrænni vegferð og sýnir á aðgengilegan hátt, m.a. fasteignagjöld, atvinnutekjur og orkukostnað heimila. Mælaborðunum er ætlað að gefa einfalt og fljótlegt yfirlit yfir ýmis byggðatengd gögn.
Byggðaáætlun
Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu, rannsakar forsendur byggðaþróunar og leggur fram tillögur um aðgerðir. Stofnunin vinnur að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir landið allt í samráði við innviðaráðherra. Í áætluninni skal gera grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggða í landinu og lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Meginmarkmið byggðaáætlunar er að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum. Stofnunin var ábyrgðaraðili tíu aðgerða í byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 og samstarfsaðili í mörgum öðrum. Þá tóku starfsmenn þátt í endurskoðun byggðaáætlunar 2022-2036 og mótun fimm ára aðgerðaáætlunar.
Samstarfsverkefni
Mikið og gott samstarf er á milli Byggðastofnunar og landshlutasamtaka sveitarfélaga. Samstarfið er afar mikilvægt þar sem aðilar vinna í sameiningu að þróun byggðar og mannlífs í landsbyggðunum. Byggðastofnun tekur auk þess þátt í ýmsum samstarfsverkefnum á sviði atvinnu- og byggðamála, bæði innlendum og fjölþjóðlegum. Meðal fjölþjóðlegra verkefna eru ESPON, Nordregio og NPA.
Önnur helstu verkefni
– Þar sem framleiðendur fjarri innflutningshöfnum eða mörkuðum glíma við mun hærri flutningskostnað en aðrir, veitir stofnunin þeim sérstaka flutningsjöfnunarstyrki í samræmi við lög nr. 160/2011, auk styrkja til söluaðila olíuvara vegna flutningsjöfnunar til dreifðari byggða.
– Byggðastofnun sinnir eftirliti með póstmálum í samræmi við lög um póstþjónustu nr. 98/2019 en verkefnið var flutt til Byggðastofnunar 1. júlí 2021 með lögum nr. 76/2021. Hlutverk stofnunarinnar er að annast framkvæmd laganna, hafa eftirlit með póstþjónustu, stuðla að samkeppni á póstmarkaði ásamt því að eiga í samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir.
– Brothættar byggðir er verkefni sem hleypt var af stokkunum árið 2012 með það að markmiði að styðja við byggðir og stöðva fólksfækkun í smærri byggðakjörnum.
– Byggðastofnun hefur frá árinu 2013, með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, úthlutað og haft eftirlit með sértækum byggðakvóta í viðkvæmum sjávarbyggðum til þess að sporna við viðvarandi fólksfækkun.
– Stofnunin veitir viðurkenningar til framfaraverkefna í byggðum landsins. Eyrarrósin er veitt framúrskarandi menningarverkefnum utan höfuðborgarsvæðisins og Landstólpinn er veittur þeim sem vakið hafa athygli á byggðamálum eða styrkt samfélög í landsbyggðunum. Frá árinu 2015 hefur Byggðastofnun einnig veitt styrki til meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðaþróunar.
– Verkefnið Aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga er verkefni á byggðaáætlun sem stofnunin sinnir. Markmið verkefnisins er að búa til aðgengilegan leiðarvísi fyrir íslensk sveitarfélög til mótunar aðlögunaraðgerða og áætlana til þess að mæta áhrif loftslagsbreytinga.
Lánastarfsemi
Byggðastofnun veitir langtímalán til fjárfestinga fyrirtækja í landsbyggðunum í þeim tilgangi m.a. að bæta búsetuskilyrði í einstökum byggðarlögum og draga úr óæskilegri byggðaröskun. Takmarkað aðgengi atvinnulífs í landsbyggðunum að fjármagni og þá ekki síst lánsfjármagni er þekkt alþjóðlegt vandamál á svæðum sem eiga undir högg að sækja. Útlánastarfsemi á vegum Byggðastofnunar hefur þann megintilgang að leitast við að tryggja atvinnulífi á veikari svæðum landsins lágmarksaðgengi að lánsfé. Í árslok 2024 námu útlán Byggðastofnunar rúmum 26 milljörðum króna og voru lántakar um 460 einstaklingar og fyrirtæki í atvinnurekstri í landsbyggðunum. Fram til ársins 2013 var aðeins einn lánaflokkur í boði hjá Byggðastofnun, almenn lán í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Síðan þá hafa fimm lánaflokkar bæst við og þjónustuframboð því aukist verulega. Um er ræða lán til jarðakaupa eða endurbóta í landbúnaði, lán til stuðnings atvinnurekstri kvenna, sérstök lán til nýsköpunarverkefna, græn lán til verkefna sem stuðla að umhverfisvernd og lán til viðkvæmra byggðarlaga. Segja má að framboð stofnunarinnar á lánamöguleikum spanni vítt svið og sé vel til þess fallið að þjóna landsbyggðunum með fjölbreyttu og góðu aðgengi að lánsfjármagni á samkeppnishæfum kjörum.
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd