Byggiðn – Félag byggingamanna

2022

Byggingamenn sameinaðir í 120 ár

Byggiðn – Félag byggingamanna er stéttarfélag launamanna og einyrkja sem starfa í bygginga- og mannvirkjagerð og sameinar krafta þeirra byggingariðnaðarmanna sem eiga samleið um kaup og kjör, þjónustu og tryggingamál.
Tilgangur félagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna. Í því felst meðal annars að semja um kaup þeirra og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á lagalegan og samningsbundinn rétt þeirra. Félagið aðstoðar félagsmenn í atvinnuleit, sé þess óskað, stuðlar að bættri verkmenntun og tryggir eftir fremsta megni að félagsmenn kunni starf sitt sem best og hafi sem víðtækasta þekkingu á öllu sem að iðn þeirra lýtur.
Byggiðn hefur það að markmiði að bæta iðnlöggjöfina og vera á verði um réttindi þau sem hún veitir lærðum iðnaðarmönnum og iðnnemum.
Félagsmenn í Byggiðn geta þeir orðið sem hafa sveinsbréf eða stunda nám í
húsa-, húsgagna-, skipasmíði, húsgagnabólstrun, málaraiðn, múraraiðn, pípulögnum og veggfóðrun eða hafa löggilt iðnbréf, útgefið samkvæmt iðnaðarlögum. Þeir starfsmenn sem hafa að minnsta kosti eins árs menntun í byggingariðnaði og með staðfest starfsréttindi því til staðfestingar geta einnig orðið félagsmenn. Félagið vinnur á Stór-Reykjavíkursvæðinu utan Hafnarfjarðar og á Eyjafjarðarsvæðinu til Siglufjarðar. Félagið þjónustar félagsmenn sína hvar sem þeir vinna á landinu.

Eitt af fyrstu verkalýðsfélögunum

Byggiðn varð til í núverandi mynd árið 2008, þegar Trésmíðafélag Reykjavíkur og Félag byggingamanna í Eyjafirði sameinuðust. Fyrstu árin hét hið sameinaða félag Fagfélagið en í mars 2012 var því breytt í Byggiðn – Félag byggingamanna.
Þrátt fyrir ýmsar sameiningar og vendingar spannar saga félagsins ríflega 120 ár. Nokkur félög sjálfstæðra iðnaðarmanna voru stofnuð undir lok 19. aldar en þeirra á meðal var Trésmíðafélag Reykjavíkur. Það var stofnað 10. desember 1899 en stofnfélagar voru 51 talsins. Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Sveinsson. Markmiðið var hið sama og verið hefur allar götur síðan; að gæta hagsmuna félagsmanna í bygginga- og mannvirkjagerð.
Eftir kröftuga byrjun lagðist félagið niður árið 1909 en það starfaði svo með hléum þar til það var endurvakið 21. janúar 1917, í kjölfar launaskerðingar sem trésmiðir urðu fyrir árin á undan. Félagið hefur starfað óslitið síðan þó ýmsar breytingar hafi orðið á þessum langa tíma.
Félagið hefur sinnt fræðslumálum allar götur frá því fræðslunefnd var stofnuð innan þess árið 1959. Endurmenntunarnefnd hóf að starfa snemma á áttunda áratugnum en í dag annast IÐAN fræðslusetur alla sí- og endurmenntun í iðngreinum byggingariðnaðarins.

Iðnfélögin sameinuð undir einu þaki

Finnbjörn A. Hermannsson er formaður Byggiðnar. Hann hefur verið í forsvari fyrir trésmiði og byggingamenn frá árinu 1997, þegar hann leysti Grétar Þorsteinsson af hólmi, sem kjörinn var forseti Alþýðusambands Íslands árið áður. Varaformaður félagins er Heimir Kristinsson.
Byggiðn rekur tvær skrifstofur; eina við Stórhöfða 31 í Reykjavík, en hina við Skipagötu 14 á Akureyri, þar sem Heimir varaformaður hefur aðsetur. Félagið flutti skrifstofur sínar í Reykjavík í Hús fagfélaganna, við Stórhöfða 31, árið 2019. Þar sameinuðust undir einu þaki Félag iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsambandið, Matvís og Samiðn, auk Byggiðnar. Félögin starfa saman á ýmsum sviðum. Samstarfið miðar allt að því bæta enn frekar þjónustu við félagsmenn. Þau samnýta móttöku, fundarsali, mötuneyti og að hluta til starfsfólk sem annast bókhald og almenna skrifstofuvinnu. Starfsfólk félaganna sem annast kjaramál, sjúkrasjóðs- og orlofsmál starfa náið saman. Í því felst mikill styrkur en félögin hyggja á samstarf á fleiri sviðum, félagsmönnum til heilla.
Fimm starfsmenn í fullu starfi vinna hjá félaginu, auk starfsmanna sem vinna sameiginlega fyrir félögin í Húsi fagfélaganna.

Eftirlit á vinnumarkaði

Byggiðn stendur ásamt öðrum félögum í 2F-húsinu fyrir öflugu vinnustaðaeftirliti. Þann 15. ágúst 2010 tók gildi samkomulag á milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Skírteinunum er ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði. Eftirlitið heimsækir vinnustaði með reglubundnum hætti og gætir þess að atvinnurekendur og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum. Reynslan hefur sýnt að full þörf er á öflugu eftirliti þar sem skattabrot í mannvirkjagerð eru tíð og dæmi um að brotið sé gegn kjarasamningsbundnum réttindum starfsfólks. Brot starfsmannaleiga sem starfa í byggingariðnaði hafa, svo dæmi sé tekið, verið áberandi í fjölmiðlum síðustu ár.

Fjölbreytt verkefni

Byggiðn annast fjölmörg verkefni fyrir félagsmenn, til viðbótar þeim sem að ofan eru talin. Það á og rekur orlofshús víða um land, sem það leigir félagsmönnum. Félagið á land í Gnúpverjahreppi þar sem það hefur komið upp tjaldsvæði með mjög góðri aðstöðu til afnota fyrir félagsmenn yfir sumarmánuðina. Þá hafa félagsmenn einnig möguleika á að leigja sér land undir eigin sumarbústað. Félagið hefur rekið mælingastofu í um hálfa öld. Það er þjónusta sem framsækin fyrirtæki notfæra sér. Með verðlagningu einstakra verkþátta sem mælingastofan mælir upp – og reiknar þannig út laun manna – verða afköstin góð og byggingatími styttri. Launþegarnir fá auk þess sanngjörn laun fyrir vinnuframlag sitt.
Byggiðn heldur úti öflugum sjúkrasjóði sem styrkir félagsmenn í veikinda- og slysatilfellum þegar greiðslum atvinnurekenda lýkur. Félagið er með fræðslusjóð og er þátttakandi í rekstri IÐUNNAR-fræðsluseturs, eins og áður hefur verið nefnt. Þá má líka nefna að Byggiðn gefur út fréttabréf til upplýsinga fyrir félagsmenn og heldur úti virkri heimasíðu auk þess að vera virkur þátttakandi á samfélgsmiðlum. Félagið rekur öflugt félags- og vinnustaðastarf og leggur metnað sinn í að vera í fararbroddi verkalýðsfélaga á Íslandi og að veita félagsmönnum sínum framúrskarandi þjónustu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd