Carbfix ohf. var formlega stofnað 2007. Það var upphaflega samstarfsverkefni milli Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, CNRS í Toulouse og Earth Institute við Columbia háskóla.
Síðan þá hefur fjöldi samstarfsaðila og rannsóknarhópa komið að verkefninu, einkum í tengslum við rannsóknar- og þróunarverkefni sem notið hafa stuðnings frá samkeppnissjóðum Evrópusambandsins.
Hugmyndin á bakvið Carbfix var að þróa tækni til að líkja eftir náttúrulegri bergmyndun úr kolefnismettuðu vatni, þ.e. að leysa koldíoxíð upp í vatni og dæla því niður í berglög neðanjarðar svo það steingerist og umbreytist í steindir með tímanum.
Á sjö árum óx Carbfix úr því að vera hugmynd upp í það að vera sannreynd og umhverfisvæn tæknilausn sem fangar koldíoxíð og brennisteinsvetni úr útblæstri og fargar því varanlega í berglögum neðanjarðar.
Í fyrstu voru gerðar tilraunir á rannsóknastofum en árið 2012 eftir langt og strangt þróunar- og leyfisveitingaferli var hafist handa við að gera raunhæfar tilraunir úti í mörkinni í samstarfi við Orku náttúrunnar. Tilrauninni var valinn staður skammt frá Hellisheiðarvirkjun.
Heil 175 tonn af hreinu koldíoxíði voru leyst upp í vatni og dælt niður á 500 metra dýpi við 35 gráðu hita. Nokkrum mánuðum síðar var 73 tonnum af gasblöndu úr Hellisheiðarvirkjun sem innihélt 75% af koldíoxíði og 25% af brennisteinsvetni dælt niður með sömu aðferð.
Niðurstöðurnar voru birtar árið 2016 í hinu virta vísindatímariti Science og þær voru ótvíræðar. Kolefnið sem dælt var niður steingerðist á tveimur árum.
Tæknin
Trjágróður og annað í jurtríkinu er ekki eina fyrirbærið sem dregur til sín kolefni úr andrúmsloftinu. Stærsti hluti kolefnis á jörðinni er náttúrulega geymdur í bergi. Carbfix líkir eftir og hraðar þessu náttúrulega ferli með því að leysa fangað koldíoxíð upp í vatni og dæla niður í hentug berglög eins og basalt þar sem náttúruleg efnahvörf milli bergs og vatns leiða til varanlegrar kolefnisbindingar í steindum. Carbfix tæknin fjarlægir koldíoxíð með öllu og það varanlega.
Til þess að Carbfix tæknin virki þá þarf þrennt að vera til staðar: hentugt berg, vatn og uppspretta koldíoxíðs.
Carbfix ferlið byggir á traustum vísindalegum grunni og hefur verið sannreynt á stórum skala. Yfir 70.000 tonnum af koldíoxíð hefur verið breytt í stein á Hellisheiði hingað til. Til að tryggja að steinrenning koldíoxíðs eigi sér stað og að það sé tryggilega og varanlega geymt er traustum mæliaðferðum beitt. Þær eru m.a. niðurdæling ferilefna sem rekja steindabindingu og flæði niðurdælds vökva, reglulegar sýnatökur í nálægum eftirlitsholum, mælingar á flæði koldíoxíðs úr jarðvegi til að staðfesta að niðurdæling sé með eðlilegum hætti og líkanagerð.
Eftir að niðurstöður tilrauna- og prófunarfasa lágu fyrir var hafist handa við að innleiða tæknina á stærri skala við Hellisheiðarvirkjun árið 2014. Rekstur hefur gengið vandkvæðalaust allar götur síðan og var förgunargetan tvöfölduð árið 2016. Árið 2017 hóf Carbfix í samstarfi við svissneska fyrirtækið Climeworks að farga koldíoxíði sem fangað er beint úr andrúmslofti á Hellisheiði.
Fyrirtækið
Carbfix hefur verið starfrækt sem sjálfstætt fyrirtæki frá 2019. Það er markmið og tilgangur þess að sporna gegn hamfarahlýnun jarðar með því að innleiða tæknilausn félagsins á stórum skala víða um heim. Um 5% af landmassa jarðar er þakið hentugu bergi fyrir steinrenningu koldíoxíðs, sem og megnið af sjávarbotninum. Geymslugetan er margfalt meiri en þörf er fyrir til að heimurinn nái loftslagsmarkmiðum sínum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd