Veitingastaðurinn Caruso var settur á laggirnar árið 1994 en árið 2000 tóku hjónin José Luis Carcia og Þrúður Sjöfn Sigurðardóttir við staðnum. Áherslunar voru fyrst og fremst á ítalska matargerð og ítalskt þema einkenndi innanstokksmuni, húsgögn og innréttingar. Upphaflega var Caruso til húsa á horni Þingholtsstrætis og Bankastrætis en á Þorláksmessu árið 2014 var flutt í nýtt húsnæði í Austurstræti 22. Það hús er sögfrægt og var upphaflega byggt árið 1801 af Ísleifi Einarssyni og talið fyrsta húsið sem reist var við Austurstræti. Það hefur verið kennt við Jörund Hundadagakonung sem tók sér vald sem hæstráðandi maður landsins eftir sögulegt valdarán, en hélst þó ekki á konungstign sinni nema í tvo mánuði. Árið 2007 brann stærstur hluti byggingarinnar fyrir utan arininn sem var eini hluti hennar sem eftir stóð. Framkvæmdir við endurbygginguna hófust árið 2010 og má segja að húsið hafi verið endurbyggt í kringum þennan arinn sem eftir stóð.
Staðurinn
José Luis Garcia er arkitekt að mennt og starfaði sem slíkur um árabil, en í kringum 1991 varð samdráttur í íslensku efnahagslífi og minna að gera hjá arkitektum. Þá bauðst honum að starfa í veitingageiranum og það fór svo að hann fjárfesti í Caruso, sem hann innréttaði og hannaði sjálfur. Byrjunin lofaði góðu og að staðnum hópuðust viðskiptavinir sem hafa haldið tryggð við staðinn til margra ára sumir hverjir. Þótt veitingahúsarekstur sé ekki beinlínis starfssvið José þá nýtur hann sín í starfi sínu en hefur fengið útrás fyrir arkitektinn í sér með því að hanna og teikna innviði annarra veitingahúsa.
Þjónusta er eitthvað sem honum er í blóð borin og hann elskar að taka á móti gestum, svo vitnað sé í hans eigin orð og bætir við að hann kunni að búa t il góðar pizzur. Hann þvertekur ekki fyrir að meginþema og yfirbrað Caruso sé ítalskt eins og nafnið gefur til kynna, en vill meina að áherslan sé á fremur suðræna matargerð. Þarna ríkir andi frá Spáni og Frakklandi sömuleiðis svo það mætti kalla Caruso veitingastað undir suðrænum áhrifum.
Það hafa komið erfiðir tímar í bland en José segist einbeita sér að því sem hann sjálfur er að gera og er ekki upptekinn af því hvernig aðrir haga sínum rekstri. Honum finnst mikilvægt að halda sínu og er ekki með neina útþenslustefnu á dagskrá hjá sér þótt staðurinn gangi mjög vel í dag enda hefur hann skapað sér ákveðna sérstöðu á veitingamarkaðnum. Hann hefur sína fastakúnna og orðsporið hefur haldið nafni staðarnins á lofti í mörg ár.
Þótt staðurinn hafi flutt úr Þingholtsstrætinu á sínum tíma þá hefur sá andi sem þar skapaðist flust með í Austurstrætið enda er á báðum stöðum andblær fortíðar í hinum sögufrægu húsum. Viðskiptavinir tala um að þeim finnist þeir upplifa gamla Caruso þótt yfirbragðið sé aðeins öðruvísi en það má eflaust þakka því hvernig arkitektinn José Luis Garcia skapar umhverfi staðarins og þótt borðum hafi fækkað og staðurinn í reynd minnkað þá er stöðugur straumur fólks inn og út af Caruso. Útisvæðið í Austurstrætinu kemur að góðum notum á hlýjum sumardögum því þá er hægt að snæða utandyra og þjónusta fleiri.
Þjónustan er sá hluti starfseminnar sem José leggur ofuráherslu á enda líka margrómuð.
Starfsfólk og starfsandi
Hann er með meira en 30 manns í vinnu og í dag er mannskapurinn að mestu af erlendu bergi brotinn en innan starfshópsins hafa orðið til tengsl og vinnáttubönd sem gera það að verkum að starfsandinn er einna líkastur því að samhent fjölskylda sé að snúast í kringum gestina. Það er bros á hverju andliti og öllum finnst jafn gaman í vinnunni og José sjálfum.
Þótt José sé eigandi staðarins þá setur hann sig aldrei úr færi að standa sjálfur í fordyrinu og taka á móti gestum enda hefur hann gaman af því að vinna. Hann elskar að mæta í vinnuna á Caruso að eigin sögn þótt sumum finnist kannski að hann ætti að fara að hætta og taka lífinu með ró; en kannski er Caruso ekki bara vinnustaður heldur lífsstíll hans sem elskar það sem hann gerir. Hann gefur sér tíma og næði til að spjalla við gestina sem hann er farinn að þekkja persónulega og gildir þá einu hvort þeir eru Íslendingar eða útlendingar sem koma til Íslands ár eftir ár. Þessi andblær og starfsandi sem hér er verið að lýsa gæti hreinlega verið lykillinn að velgengni staðarins og það verður áreiðanlega svo í lengd og bráð á meðan eigandinn sjálfur nýtur þess að hugsa um hann og heldur áfram smita frá sér þeirri jákvæðni og gleði sem einkennir José. Hann er orðinn einn af þessum þekktu veitingamönnum í Reykjavík og setur svip sinn á mannlífið í miðborginni.
Honum er umhugað um velferð starfsfólksins og sýnir þakklæti sitt fyrir þeirra vinnuframlag í verki með því t.d., að bjóða því öllu til Spánar í haust og hann tekur það með sér í golf þegar sá gállinn er á honum. José liðtækur kylfingur og spilar golf þegar hann hefur tækifæri til þess. Þrúður kona hans hefur nokkuð dregið úr sinni vinnu við fyrirtækið upp á síðkastið, en José sér framtíðina fyrir sér einfaldlega að halda áfram á sömu braut. Njóta velgengninnar, huga vel að því sem hann hefur og hver veit nema einhver úr þessum úrvals starfsmannahópi taki við staðnum þegar honum finnst að sé komið nóg. Caruso heldur áfram að syngja!
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd