CCP hf.

2022

Árið 1997 stofnaði Reynir Harðarson CCP ásamt Ívari Kristjánssyni og Þórólfi Beck. Eitt fyrsta verkefnið var að gefa út Hættuspilið, sem varð fljótlega eitt mest selda borðspil Íslandssögunnar. Fjármagnið sem fékkst úr sölu á Hættuspilinu var síðan sett í þróun á fyrstu skrefum tölvuleiksins EVE Online. EVE Online er fjölspilunarleikur (MMO) sem gerist í geimnum í framtíðinni og hefur ýmsa óvenjulega eiginleika eins og að hafa algjörlega frjálsan markað með vörur og hráefni sem er rekinn af spilurunum sjálfum ásamt því að hafa þá uppsetningu að allir leikmenn spila í sama heimi, eða svokallað „single shared universe“. EVE var þrjú ár í forframleiðslu og þrjú í framleiðslu og kom leikurinn út 6. maí 2003. Reksturinn var lengi vel mikið hark og var t.d. ekki hægt að greiða laun starfsmanna í nokkra mánuði þegar fyrirtækið var ennþá ungt.
Áskrifendahópur EVE stækkaði þó hröðum skrefum og sex árum eftir útgáfu leiksins var EVE Online kominn með fjölmennara hagkerfi en Ísland, með yfir þrjú hundruð þúsund þátttakendum. Árið 2006 var síðan opnaður nýr netþjónn þegar leikurinn var gefinn út í Kína. Það gekk á ýmsu við að koma getu fyrirtækisins á þann stað að geta haldið utan um svona stórt hagkerfi. Árið 2005 þurfti fyrirtækið t.a.m. að fá undanþágu frá Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, til að flytja út tölvubúnað sem hafði aldrei verið notaður af óbreyttum borgurum en var nauðsynlegur til að geta eflt netþjóna og gagnagrunn fyrirtækisins. Í dag hafa um 9,5 milljón sálir spilað þetta íslenska hugverk sem er EVE Online og yfir 40 milljón manns prófað einhverjar af vörum fyrirtækisins. Íslensk fingraför eru sjáanleg víða í leiknum, bæði í nöfnum á geimskipum og stjörnukerfum en einnig kröftuglega í þeirri staðreynd að gjaldmiðillinn sem spilararnir nota heitir ISK, sem stendur fyrir InterStellar Kredit. EVE Online er stærsta vara fyrirtækisins og hefur haft öflugan og tryggan kúnnahóp síðan árið 2003.
CCP hefur gefið út fleiri leiki og má þar t.a.m. nefna fyrstu persónu skotleikinn Dust 514 sem var gefinn út fyrir Playstation árið 2013 en þar var rudd tæknibraut þegar leikurinn var tengdur við PC-leikinn EVE og leikmenn gátu spilað á milli þessara leikja og leikjakerfa. CCP hefur einnig þróað sýndarveruleikaleiki sem nutu töluverðrar hylli, eins og EVE Valkyrie, Gunjack 1 og 2 og íþróttaleikinn Sparc. Gunjack var um tíma mest seldi sýndarveruleikaleikur í heimi.

Starfsemi og starfsfólk
Í dag starfa 277 manns hjá fyrirtækinu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjavík en þar er jafnframt stærsta skrifstofan með 225 starfsmenn og eru 60% þeirra Íslendingar en aðrir starfsmenn eru frá 28 löndum sem eru gjarnan mikilvægir sérfræðingar með þekkingu sem erfitt getur verið að finna á heimamarkaði. Megnið af starfsemi skrifstofunnar í Reykjavík varðar rekstur og þróun á EVE Online leiknum. CCP er einnig með skrifstofur í London og Shanghai og minni starfstöðvar í Bandaríkjunum og Vestmannaeyjum og á Akureyri.
Hilmar Veigar Pétursson er í dag framkvæmdastjóri fyrirtækisins og hefur verið það síðan 2004 en frá árinu 2000 gegndi hann starfi tæknistjóra og sinnti hann um tíma báðum störfum samtímis. Sigurður Stefánsson er fjármálastjóri fyrirtækisins en hann kom til CCP frá Lazy Town. Erna Arnardóttir er mannauðsstjóri fyrirtæksins, Eyrún Jónsdóttir er markaðsstjóri og James Debrowski leiðir vöruþróun. Saman mynda þessir fimm einstaklingar stjórnendateymi CCP.

Tekjur, áhrif á heiminn og sala fyrirtækisins
Í dag þjónustar CCP yfir milljón viðskiptavini á ári, en árið 2019 spiluðu um 1,3 milljón einstaklingar EVE Online. EVE Online hefur á 16 árum þénað um 96 milljarða króna inn í íslenskt hagkerfi. Sérfræðingar hafa bent á að þetta sé ein besta ávöxtun á kílówattstund sem finnst í íslenska hagkerfinu þar sem framleiðsla leiksins gengur að mjög takmörkuðu leyti á endanlegar náttúruauðlindir og byggir þekkingarmargfaldara inn í hagkerfið á meðan.
CCP hefur líka reynst vera mikil landkynning fyrir Ísland enda eru vörur fyrirtækisins vel þekktar í tölvuleikjaiðnaðinum sem er orðinn stærri en kvikmyndaiðnaðurinn og tónlistariðnaðurinn til samans. Sem dæmi um þetta má nefna að MoMA-safnið í Bandaríkjunum tók EVE Online inn sem hluta af „permanent collection“ safni sínu árið 2013 sem ómetanlegt menningarframlag Íslendinga til veraldarinnar.
CCP var mestan hluta sögu sinnar í eigu hóps fjárfesta og starfsmanna og má þar helst nefna bandarísku fjárfestingarsjóðina General Catalyst og New Enterprice Associates (NEA) ásamt íslenska fjárfestingarfélaginu Novator. Fyrirtækið var hins vegar selt í heilu lagi til suður-kóreska leikjafyrirtækisins Pearl Abyss árið 2018. Áhersla Pearl Abyss er að gera góða tölvuleiki og sérstaklega að efla lykilvöru CCP, EVE Online, enn frekar. CCP er því í dag sjálfstætt starfandi dótturfélag Pearl Abyss og eru höfuðstöðvar fyrirtækisins áfram í Reykjavík þar sem þær hafa alltaf verið en CCP flutti inn í nýjar höfuðstöðvar sínar, Grósku í Vatnsmýrinni, í febrúar 2020.

Rannsóknarstarf & þekkingaruppbygging
CCP hefur lengi verið segull á rannsóknir á fræðasviðinu ásamt því að vera óhrætt við að prufukeyra nýja tækni á ýmsum sviðum. Dæmi um slíkt er að með Project Discovery verkefninu var próteinatlas mannsins kortlagður með hjálp spilara í EVE Online. Þetta reyndist vera svo mikið afrek að þann 9. september 2018 var EVE Online á forsíðu Nature Biotechnology, sem er elsta og mest tilvitnaða vísindatímarit sögunnar. Í næsta Project Discovery, sem er samstarfsverkefni fjölda mennta- og rannsóknarstofnana, eru leikmenn EVE að leita að plánetum sem kunna að vera fýsilegar fyrir mannlegt líf til að þrífast.
CCP hefur lagt mikla áherslu á að efla tæknikunnáttu á Íslandi og tók fyrirtækið meðal annars þátt í því að styðja við microbit-verkefnið til að efla forritunarþekkingu grunnskólanema. CCP hefur einnig greitt fyrir stöðu í Háskólanum Í Reykjavík til að efla þar kennslu í hátækni ásamt því að stunda margvíslegt samstarf með Háskóla Íslands enda er stefnan með nýjum höfuðstöðvum fyrirtækisins að geta aukið samstarfið við háskólasamfélagið enn betur. Mikilvægasta framlag fyrirtækisins til þekkingaruppbyggingar á Íslandi er þó líklegast þekkingin sem starfsmenn fyrirtækisins hljóta enda hafa fyrrum og núverandi starfsmenn CCP stofnað tugi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi á undanförnum árum.
CCP byggði líka upp mikla þekkingu í þróun á sýndarveruleikalausnum. Þekkingin var orðin svo mikil að stærstu skjákortaframleiðendur heims, AMD og Nvidia, sendu teymi til Íslands til að fá ráðgjöf hjá fyrirtækinu um hvernig ætti að smíða næstu kynslóð skjákorta. Við þróun á sýndarveruleika braut fyrirtækið marga múra og fékk t.d. þrjú einkaleyfi við þróun á síðustu vöru sinni á þessu sviði, rafíþróttaleiknum Sparc.
Ekki er óalgengt að starfsmenn CCP hafi farið til stærstu tæknifyrirtækja í heimi eftir störf hjá CCP og síðan snúið aftur heim með mikilvæga þekkingarmargfaldara fyrir hagkerfið. Má þar nefna fyrirtæki eins og Google, Facebook, Microsoft, Nvida, EA Games og fleiri.

Framtíðarsýn
CCP er nú komið í öflugt samstarf við nýju kóresku eigendurna, Pearl Abyss, og nýtur góðs af þekkingu og reynslu þess fyrirtækis. Stefnt er á mikla sókn inn á nýja markaði með EVE Online en hún hófst í lok 2019 með endurútgáfu á leiknum í Suður-Kóreu sem heppnaðist svo vel að á aðeins einum mánuði urðu Kóreubúar þriðji stærsti kúnnahópur CCP.
Árið 2020 er síðan stefnt að umfangsmikilli endurútgáfu leiksins á Kínamarkað. Þá er verið að koma EVE meira inn á snjallsímamarkaðinn með útgáfu á svokölluðu „companion app“ sem kallast EVE Portal og hefur gengið vel og mun stækka að umfangi árin 2020 og 2021. Að lokum má nefna að í gangi eru viðræður um að gera sjónvarpsþátt í Kína þar sem EVE-heimurinn er sögusviðið.
Langtímamarkmiðið er að EVE „lifi að eilífu” en framkvæmdastjóri CCP, Hilmar Veigar Péturson, telur að mest spennandi tímar fyrirtækisins séu framundan. Árin 2018 og 2019 réðst fyrirtækið í umfangsmiklar rannsóknir á því hvernig vinátta verður til í tölvuleikjum og hvaða hæfileika og þekkingu vörur CCP byggja upp hjá viðskiptavinum þess. Þessar niðurstöður verða nýttar til frekari uppbyggingar og hafa nú þegar leitt til samstarfs við Háskóla Íslands í rannsóknum og kennslu, áætlana um að auka hlut kvenna sem notenda, eflingar á djúpum tengingum á milli spilara í leikjum CCP og svo mætti áfram telja.
Fleiri stór verkefni eru í farvatninu hjá CCP. Má þar helst nefna tölvuleikinn EVE Echoes en stefnt er að útgáfu hans árið 2020. EVE Echoes er útgáfa af EVE Online fyrir farsíma. Verkefnið er uppskera af margra ára góðu samstarfi við kínverska fyrirtækið NetEase.
Slagorð CCP hefur lengi verið „Making virtual worlds more meaningful than real life“, sem útleggst: Að smíða sýndarveruleikaheima sem eru tilgangsríkari en raunveruleikinn. Hilmar Veigar telur að fyrirtækið hafi styrkt stöðu sína undanfarin ár með þekkingu og vaxandi tæknigetu og aldrei staðið nær markmiðinu. Til að mynda hafi í raun enginn utan CCP skilið það almennilega, fyrr en rannsóknir fyrirtækisins sýndu fram á það með afgerandi hætti, hversu mikilvægar félagslegar tengingar, sterka vináttu og gagnlega hæfileika eins og þrautseigju og rekstrarþekkingu er hægt að mynda í gegnum EVE Online.
Hilmar Veigar orðar þetta sjálfur svona: „Ef við horfum til sögu okkar Íslendinga þá er ljóst að það hefur alltaf verið mikill metnaður til þess að skapa ríkulega heima og upplifanir. Snorra-Eddu mætti t.d. lýsa sem leikjahönnunarhandriti, það er einfaldlega skrifað nákvæmlega þannig. Byggt á ríkri sagnahefð, sem Íslendingar hafa þróað allt frá Snorra-Eddu og inn í skáldverk nútímans, hefur CCP metnað fyrir því að taka þetta stærsta skáldverk íslandssögunnar, EVE Online, sem nær tíu milljón manns hafa tekið þátt í, og láta það dýpka enn þau áhrif sem íslensk skáldverk hafa haft á heimssöguna. Metnaður okkar nær til þess að koma leiknum upp á þann stall að það sem gerist í EVE Online hefur meiri áhrif á líf fólks heldur en það sem gerist á plánetunni jörð!“

2012

Útsýni frá höfuðstöðvum CCP.

Tölvuleikjafyrirtækið CCP er einstakt fyrirbæri í íslensku atvinnulífi. Drifkraftur þess er mótaður af samræmingu raunvísinda, tölvutækni, grafískrar hönnunar og félagslegrar gagnvirkni. Á tiltölulega stuttri vegferð hefur þróunarvinna fyrirtækisins gefið af sér afþreyingarmöguleika á sviði sýndarveruleika, þar sem þungamiðjan byggist á landnámi geimsins og ímyndunaraflsins í alþjóðlega fjölspilunarleiknum Eve Online.
Á undanförnum 10 árum hefur CCP notið mikils vaxtar á alþjóðlegum markaði. Fyrirtækið er nú starfrækt í fjórum löndum og hefur á bak við sig um 500 starfsmenn sem sinna um 400.000 notendum í um 200 löndum. Þar af starfa tæplega 300 manns hér á landi. Höfuðstöðvar CCP eru að Grandagarði 8 í Reykjavík. Dótturfélög eru rekin í Atlanta í Bandaríkjunum, Shanghai í Kína og í Newcastle á Englandi auk þess sem gagnaver er staðsett í Lundúnum á Englandi og minni skrifstofur í San Fransisco, New York og Akureyri.

Upphafið
Starfsemi CCP tók á sig mynd á árunum 1995-96 þegar Reynir Harðarson starfaði hjá tölvufyrirtækinu OZ. Þetta var á þeim tíma þegar gagnvirk tækni Internetsins tók að hasla sér völl um gervalla heimsbyggðina. Reynir velti upp þeirri djörfu hugmynd að þróa fram þrívíddartölvuleik með áskrift sem leikinn yrði á rauntíma af öllum spilurum. Hugmyndin var annarsvegar fengin frá einmenningstölvuleiknum Elite sem snerist um geimbardaga og viðskipti og hinsvegar fjölnotendahugbúnaðinum OZ Virtual sem tölvufyrirtækið OZ hafði þróað.
Um sumarið 1997 stofnaði Reynir Harðarson, í félagi við Ívar Kristjánsson og Þórólf Beck frumkvöðlafyrirtækið Loka margmiðlun. Tilgangur starfseminnar snerist um að leggja grunninn að EVE Online. Til að byggja upp höfuðstólinn tók fyrirtækið að sér ýmis minni verkefni eins og leturvinnslu og heimasíðugerð. Á vegum þess var jafnframt gefið út borðspilið Hættuspil sem kom á markað fyrir jólin 1998 og náði mikilli sölu.  Spilið reyndi mikið á herkænsku og gagnvirkni á milli spilara en sömu eðlisþættir urðu síðar að helsta aðalsmerki EVE Online. Í kjölfarið tók fyrirtækið að sér þrívíddarhönnun fyrir sjónvarpsþættina um Latabæ og í því skyni var safnað saman hópi starfsmanna með góða þekkingu á sviði þrívíddarhönnunar.
Þegar líða tók nær aldamótum var framgangur Loka margmiðlunar orðinn hægur og sígandi upp á við. Í ársbyrjun 1999 var ákveðið að gefa fyrirtækinu heitið Crowd Control Productions, sem fljótlega hlaut sína alkunnu styttingu sem CCP.

Fjármögnunin
Undir lok ársins 1999 opnberaðist fyrsta þrívíddarfrumgerð EVE Online en hún sýndi sjónarhorn þátttakanda á flugi um óravíddir alheimsins á geimskipi. Í beinu framhaldi fór fram fyrsta hlutafjárútboð CCP til „viðskiptaengla“ sem skilaði af sér lítilsháttar rekstrarfé frá áhættufjárfestum til þess að koma frumgerðinni lengra áfram. Í mars árið 2000 gekk Hilmar Veigar Pétursson til liðs við fyrirtækið sem tæknistjóri. Innkoma hans átti eftir að hleypa miklum drifkrafti í starfsemina. Í lokuðu hlutafjárútboði sem fór fram á vormánuðum 2000 náðist að safna nægjanlegu fé til þess að klára framleiðslu EVE Online, miðaðist sú spá við fyrirliggjandi áætlanir þess tíma. Útboðið gekk mjög vel og var eftirspurn fjórfalt umfram það sem í boði var.
Þessi góði meðbyr var þó eingöngu skammgóður vermir. Þegar áhrifa netbólunnar tók að gæta hér á landi minnkaði mjög áhugi fjárfesta á fyrirtækjum sem hugðust nýta sér netið til viðskipta. Árið 2002 var nær allt fjármagn CCP til rekstrarins uppurið. Þannig varð starfsfólkið að sætta sig við algert launaleysi um tíma. Í sama mund fóru fram umræður um markmið og áherslur fyrirtækisins og varð úr að sumir af stofnendum og stjórnendum gengu úr skaftinu og nýir yfirmenn komu inn. Ívar Kristjánsson tók við sem framkvæmdastjóri og gegndi því starfi til ársins 2004 og varð síðan fjármálastjóri til ársins 2010. Hilmar Veigar Pétursson tók við sem framkvæmdastjóri af Ívari í byrjun árs 2004 og hefur gegnt því starfi allt fram á þennan dag.

Markaðssetningin
Þróunarvinna tölvuleikjar er mikið þolinmæðisverk sem kostar ófáar tilraunir áður en lokaniðurstaða fæst. Við slíkar aðstæður þarf að hnýta marga lausa enda áður en varan er tilbúin. Framleiðendur þurfa sífellt að vera á tánum á kröfuhörðum markaði þar sem tækniþróunin er mjög ör. Ofan á allt bætist að fjármagnið getur þrotið í miðju vinnsluferli og tæknileg mistök geta reynst dýrkeypt.
Um vorið 2002 landaði CCP stórum sölusamningi við margmiðlunardeild bandaríska útgáfurisans Simon & Schuster um alþjóðlega markaðssetningu á EVE Online. Samningurinn fól í sér fyrirframgreidd leyfisgjöld og þannig tókst að grynnka á skuldunum og treysta rekstrargrundvöllinn hjá CCP. Fyrsti opinberi útgáfudagur EVE Online rann síðan upp þann 6. maí 2003 og varð fljótlega merkjanlegt að lítið fór fyrir skipulegri markaðssetningu. Upp úr dúrnum kom að Margmiðlunardeild Simon & Schuster hafði verið lögð niður áður en leikurinn kom út. Útgáfurétturinn var í þeirra höndum og hann þá falur hæstbjóðanda til kaups. Á þeirri stundu var ákveðið að fara um öll markaðssvæðin og kaupa útgáfuréttinn til baka. Að lokum stóð CCP eftir með allan útgáfurétt að EVE Online og með því hófst markaðssetning sem fram til þessa hefur að stórum hluta farið fram á netinu.

Bóka- og leikherbergi starfsfólks, CCP höfuðstöðvar Grandagarði 8.

Uppgangurinn
Þann 3. desember 2003 hóf CCP í fyrsta skipti að opna fyrir aðgang að EVE Online upp á eigin spýtur. Um þetta leyti höfðu ADSL háhraðatengingar óðum rutt sér til rúms og samfara því tóku ýmsir tölvuleikir með fjölþátttöku að njóta meiri hylli. Þar með var fyrirtækinu gert fært að láta alla sölu fara fram í gegnum niðurhal á netinu og nam fyrsta mánaðargjaldið 12,95 bandaríkjadölum eða um 1.000 krónum. Fyrirtækið fetaði jafnframt nýjar slóðir í markaðssetningu. Þar munaði þó mestu um árið 2004 þegar sérstök reynslutíma útgáfa EVE Online kom á markað en hún leyfði spilurum að reyna sig við leikinn endurgjaldslaust í takmarkaðan tíma.
Eftir þetta tók að birta til í rekstri CCP. Leikurinn vakti mikla athygli fyrir sérstöðu sína og þroskaða sýn á viðfangsefni sitt. Brátt tóku áskriftir á meðal netverja að aukast verulega. Á árunum 2004-2005 fór rekstur CCP að skila hagnaði og átti hann eftir að margfalda sig næstu árin á eftir. Jafnframt fjölgaði starfsmönnum töluvert á þessu tímabili.
Árið 2006 festi CCP kaup á bandaríska fyrirtækinu White Wolf sem er einn stærsti útgefandi hlutverkaspila í heiminum. Um svipað leyti náðust samningar um útgáfu EVE Online í Kína. Mikil vinna hefur verið lögð í að þýða og staðfæra leikinn yfir á kínversku. Í dag rekur CCP sérstaka skrifstofu í Shanghai þar sem meðal annars framleiðsla DUST 514 fer fram.

Nýjungarnar
Á undanförnum árum hefur CCP laðað til sín öfluga og hæfileikaríka einstaklinga sem kunna að draga upp raunsannar myndir af óravíddum alheimsins inni í áhrifamiklum sýndarveruleika. Að þessu leyti eru möguleikar himingeimsins jafn óendanlegir og stærð hans. Framþróunin er sífelld og einu sinni til tvisvar á ári koma á markað viðbætur við EVE Online. Þar geta helstu breyturnar snúist um allt frá yfirgripsmiklum félagsfræði- og hagfræðilegum þáttum yfir í ýmis afmörkuð atriði eins og nýja geimskipasmíði og bardagatækni.
Þann 18. ágúst árið 2009 opinberaði CCP að fyrirtækið væri að vinna að tölvuleiknum DUST 514 sem eingöngu er hægt að spila í Playstation 3 leikjatölvu frá Sony. Þetta er svokallaður „fyrstu persónu skotleikur“ að viðbættri herkænskulist í anda EVE Online. Þátttakendur skipa sér í lið og geta áskotnast þungavopn, brynvagnar og loftför. Framvindan er hröð og kraftmikil þar sem barist er í návígi um yfirráð yfir landsvæðum. Bakgrunnurinn er að hluta íslenskt landslag þar sem t.d. náttúra Þórsmerkur gegnir veigamiklu hlutverki.
Á útgáfuáætlun CCP er jafnframt fjölspilunarleikurinn World of Darkness. Heimur leiksins kemur úr smiðju White Wolf fyrirtækisins sem gefið hefur út teiknimyndabækur og hlutverkaspil frá árinu 1991 en CCP keypti rekstur þess árið 2006. Efniviður hans byggir á gotneskri rómantík en sögusviðið gerist þó í óskilgreindri stórborg í nútímanum þar sem vampírur stjórna heiminum að næturlagi á meðan hinir dauðlegu ráða ferðinni að degi til.

Bakgrunnur og sögusvið EVE Online
Sögusvið EVE Online færir okkur fram í tíma um nokkur árþúsund þróunarsögunnar þegar vinnsla góðmálma úr loftsteinum himingeimsins hefur loks gert geimferðir hagkvæmar. Þarna er komin til sögunnar fullkomin geimstökkstækni sem gerir fólki og farartækjum þess kleift að ferðast á einu andartaki um víðáttur alheimsins og búa sér ból á fjarlægum plánetum. Á 28. öld hafa lönd verið numin í hundruðum sólkerfa og fer brátt svo að eftirspurn eftir nýlendum á eftir að bera framboðið ofurliði. Þá uppgötvast skyndilega náttúruleg ormagöng sem liggja til óþekktrar stjörnuþoku í annarri vídd og spyrst fljótt út að þar sé hægt að komast í algera paradís fyrir landnema. Göngin hljóta nafn fyrstu kvenkyns mannverunnar eða EVE. Þar er byggð fullkomin geimstöð sem gegnir hlutverki hliðvörslu og aðstoðar jafnframt geimskip við að komast þar í gegn. Í kjölfarið hefjast mikilir þjóðflutningar yfir í hinn nýfundna Edensgarð himingeimsins. Nokkrum áratugum síðar ríður þar yfir óstjórnlegur kraftur segulþyngdarsviðs sem eyðir öllu lífi á meginhluta hins eftirsótta nýlendusvæðis. Í kjölfarið lokast EVE göngin og fjöldi jarðarbúa verða strandglópar fyrir utan. Þá rennur upp tími ófriðar þar sem fjórar þjóðir berjast um yfirráðin yfir athafnasvæðinu. Eftirlifendur þurfa að læra að bjarga sér við erfiðar aðstæður og byggja sjálfa sig tæknilega upp og vera þátttakendur með öðrum í uppbyggingu samfélagsins frá grunni. Þar byggist markmiðið á að notandinn sé ávallt að uppgötva eitthvað nýtt í mannlegum samskiptum og að hann öðlist í leiðinni nýja reynslu á sviði herkænsku, stjórnmála og félagstengsla.

Að gerast þátttakandi í Eve Online
Hægt er að skrá sig til leiks í gegnum heimasíðu EVE Online og hlaða leiknum niður gegnum síðuna. Nýjum notendum er boðið upp á prufuaðgang án endurgjalds í vissan tíma. Leikurinn fer síðan fram á Internetinu gegn föstum mánaðargreiðslum.
Hver þátttakandi velur sér persónu úr flóru fjögurra þjóða og síðan er útlitið ásamt klæðnaði sett saman af notendanum. Jafnframt þarf að velja sér búsetu hjá einni af fjórum þjóðum sem há sífellda valdabaráttu í leiknum. Að loknum undirbúningi er haldið á vit hins fjölskrúðuga samfélags EVE Online sem óneitanlega dregur dám af okkar eigin raunveruleika. Þetta er stór og margslunginn heimur þar sem hver er sinnar gæfu smiður. Leikmenn mynda oft bandalög og fyrirtæki stunda einhverja sérstaka iðju og geta haft af henni umtalsverðar tekjur. Þeim sem standa sig vel getur áskotnast mikill auður og verða eftirsóknarverðir meðspilarar í leiknum. Til dæmis með því stunda viðskipti og byggja upp sín eigin fyrirtæki, standa í flutningum á farmi inn á hættuleg svæði, berjast eða stunda rányrkju.
Meðal atvinnuvega má nefna námagröft, sem er ásamt verslun, einn vinsælasti atvinnuvegurinn. Meðfram námagreftrinum fer fram ýmis sérhæfð starfsemi eins og rekstur geimskipaverksmiðja, varahlutaþjónustu og tryggingafyrirtækja auk þess sem verðbréfahöll er starfrækt. Með því að komast í álnir innan samfélagsins þýðir að þú getur eignast þín eigin geimskip með lítilli fyrirhöfn og gerst öflugur þátttakandi í leiknum. Reglan er sú að eftir því sem virðingarstiginn hækkar, því flóknari verða þrautirnar og verkefnin sem þarf að leysa. Hafa ber í huga að virðingin fæst hvorki keypt eða seld í samfélagi EVE Online. Mestu máli skiptir að byggja upp gott mannorð með friðsemd og sanngirni að leiðarljósi og vera umfram allt samkvæmur sjálfum sér.
Á meðan á öllu þessu gengur eru alltaf einhverjir sem kjósa að efnast með öðrum hætti og leggjast í smygl, þjófnað og alls kyns glæpastarfsemi. Á meðal þeirra brjótast gjarnan út átök sem stundum leiða til styrjalda í samfélaginu. Þeir sem verða öðrum að bana á friðartímum eru eftirlýstir og réttdræpir hvar sem til þeirra næst. Hver þátttakandi sem lendir í að verða myrtur á alltaf tryggt klónað eintak af sjálfum sér sem hægt er að grípa til – en hann þarf þó að byrja algerlega frá grunni á nýjan leik.
Hafa ber í huga að eina hlutverk CCP er að mynda rammann utan um allt samfélagið. Að því leyti er helsta hlutverk fyrirtækisins að leggja til fjármagn í formi ISK gjaldmiðilsins ásamt því að sjá til þess að allir nauðsynlegir fylgihlutir séu fyrir hendi. Sjálf framvindan er ávallt í höndum þátttakenda og úrlausnarefnin einnig. Á þeirri stundu reynir fyrst á hæfileikana, getuna, kænskuna og fyrirhyggjuna hjá hverjum og einum.

Lýðræði spilara EVE Online
Spilarar í EVE Online eiga þess kost að kjósa fulltrúa sína í lýðræðislegum kosningum til sérstaks ráðs, Council of Stellar Management (CSM), sem er tengiliður spilara við CCP. Ráðið sér meðal annars um að koma á framfæri óskum um breytingar og viðbætur við leikinn.
CCP stóð að stofnun CSM ráðsins árið 2008 og vakti þessi lýðræðisvæðing í sýndarheimi töluverða athygli í alþjóðlegum fjölmiðlum, en BBC lýsti framtakinu á þann máta að fyrirtækið væri að taka „lýðræði til stjarnanna“ og gefa leikmönnum tölvuleiks tækifæri á að hafa áhrif á mótun leiksins sem þeir spiluðu gegnum fulltrúalýðræði sem væri einstakt.
Fyrst um sinn var kosið til ráðsins á 6 mánaða fresti, en nú er kjörtímabil kjörina fulltrúa 12 mánuðir og því kostið árlega. Umfangsmikil kosningabarátta er í kringum hverjar kosningar þar sem frambjóðendur kynna sig og stefnumál sín.

Fanfest hátíðin
EVE Fanfest er árleg hátíð og ráðstefna CCP sem dregur hingað til lands mikinn fjölda spilara EVE Online, fjölmiðlafólk og starfsmenn tölvuleikjaiðnaðarins. Hátíðin var fyrst haldin 2004 og hefur síðan vaxið og eflst með hverju árinu.
Hátíðin þjónar margvíslegum tilgangi fyrir CCP og samfélag EVE Online spilara. Leikmenn sem sumir hverjir hafa aldrei hist í raunheimum koma þá saman í Reykjavík, allstaðar að úr veröldinni, fagna og ráða ráðum sínum. Svarnir óvinir í leiknum fallast t.d. í faðma á börum borgarinnar og hið lýðræðislega kjörna CSM ráð leikmanna fundar. Samstarfsaðilar CCP, blaðamenn og starfsmenn úr tölvuleikja- og afþreyingariðnaðinum koma jafnframt á hátíðina til að fræðast fyrstir allra um framtíðaráætlanir fyrirtækisins, sem venja er að svipta hulunni af á Fanfest.
Eftir farsæl ár í Laugardalshöll færði hátíðin sig yfir í Hörpu í mars árið 2011 og var þá stærsti viðburðurinn sem farið hafði fram í þessu glæsilega tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Síðustu ár hafa vel yfir þúsund erlendir gestir sótt hátíðina heim auk mikils fjölda innlendra gesta og tugþúsunda sem fylgjast með beinni útsendingu frá hátíðinni gegnum sjónvarpsstöð CCP, EVE TV, á netinu.
Dagskrá Fanfest er fjölbreytt og samanstendur m.a. af sýningum, pallborðsumræðum, fyrirlestrum og ýmsum óvæntum uppákomum. Árið 2010 var t.a.m. keppt í Skákhnefaleikum hérlendis í fyrsta sinn á hátíðinni og árið 2011 kynnti CCP geimferðaráætlun sína, Skyward Sphere. Hátíðin hefur síðustu ár staðið í 3 daga og endað á laugardagskvöldi með stórri samkomu og tónleikum, Party at the Top of the World, þar sem ekkert er til sparað í að gera upplifun gesta sem skemmtilegasta.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd