Controlant er framsækið hátæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í tæknilausnum sem tryggja gæði viðkvæmra vara í flutningi og draga úr sóun á lyfjum og matvælum.
Controlant var stofnað árið 2007 en rætur þess má rekja til samstarfs og vináttu frumkvöðla sem kynntust í verkfræðideild Háskóla Íslands nokkrum árum fyrr. Frumkvöðlarnir fengu vini sína til liðs við sig og stofnuðu þeir fimm saman fyrirtækið Controlant árið 2007.
Saga Controlant hófst í Háskóla Íslands
Upphafsár Controlant mörkuðust af tilraunum stofnendanna bæði við að þróa lausnina og einnig að finna út hvernig hún myndi nýtast sem best. Þessar tilraunir leiddu þá m.a. út í byggingariðnaðinn og matvælageirann en áherslan var ávallt sú sama að þróa og framleiða þráðlausa skynjara sem gefa upplýsingar í rauntíma.
Þegar svínaflensufaraldurinn skall á árið 2009 kom þessi tækni sér vel við að vakta bóluefnið gegn flensunni sem var viðkvæmt fyrir hitastigsbreytingum. Fyrsta stóra verkefni Controlant, sem einnig markaði innkomu þess í lyfjageirann var því samningur við Landlækni um að vakta bóluefnin sem komu til Íslands. Sama ár vann Controlant Gulleggið, sem er stærsta frumkvöðlakeppni Íslands og tryggði sér í kjölfarið fjármögnun til að styðja við frekari vöxt fyrirtækisins.
Controlant hélt áfram að þróa lausn sína í takt við tækniþróun og þarfir viðskiptavina sinna og árið 2017 var tekin ákvörðun um að leggja áherslu á lyfjageirann og á það að fá stærstu lyfjaframleiðendur heims í viðskipti.
Lausn Controlant kom að góðum notum í lyfjageiranum og árið 2019 var fyrirtækið komið í viðskipti við flest af stærstu lyfjafyrirtækjum heims, þar á meðal Pfizer sem er stærsta lyfjafyrirtæki í heimi. Þegar að heimsfaraldurinn skall á 2020 gegndi Controlant lykilhlutverki í dreifingu og geymslu COVID-19 bóluefnis Pfizers og vakti árangurinn í dreifingunni mikla athygli í lyfjageiranum en 99,998% bóluefnisins komst heilt á áfangastað sem er áður óþekktur árangur.
Ævintýralegur vöxtur í kjölfar heimsfaraldurs
Í kjölfar samningsins við Pfizer um að vakta dreifingu á COVID-19 bóluefnunum stækkaði Controlant hratt. Í árslok ársins 2019 störfuðu rétt rúmlega 50 manns hjá fyrirtækinu en í árslok 2021 voru þeir orðnir 350 talsins. Á árinu 2021 tífölduðust tekjur félagsins og námu 68 milljónum Bandaríkjadala.
Nú, 15 árum eftir að Controlant var stofnað af 5 vinum sem deildu brennandi áhuga á nýsköpun og tækni er Controlant orðið að leiðandi hátæknifyrirtæki á sínu sviði með 370 starfsmenn og starfsstöðvar á Íslandi, Bandaríkjunum, Póllandi, Danmörku og Hollandi.
Viðskiptavinir og framtíðarsýn
Viðskiptavinir Controlant eru lyfja-, matvæla- og flutningafyrirtæki á heimsvísu. Daglega vakta lausnir Controlant viðkvæman og verðmætan varning út um allan heim og koma þannig í veg fyrir sóun og auka sjálfbærni en framtíðarsýn Controlant er að útrýma sóun í verðmætustu virðiskeðjum heimsins með hugvit og tækni að leiðarljósi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd