Curio ehf

2022

Elliði Hreinsson hefur frá blautu barnsbeini verið á einhvern hátt tengdur vélaþróun og framleiðslu véla og tækja fyrir sjávarútveginn. Hann byrjaði ungur að starfa með afa sínum Elliða og föður sínum Hreini Elliðasyni, í fyrstu við framleiðslu handfæravinda, sem þekktar urðu um allan heim og gengu undir nafninu Elliða rúllur og síðar í fyrirtækinu Hafspili á Akureyri, sem hannaði og smíðaði ýmis vökvadrifin tæki, svo sem spil og blakkir í báta og skip. Elliði réðst síðar til starfa hjá Baader á Íslandi, þar sem hann vann að hönnun véla og sinnti viðgerðum og viðhaldi. Í apríl 1996 stofnar hann síðan fyrirtækið Fiskvélar, sem framleiddi eigin fiskvinnsluvélar auk þessa að bjóða sérhæfða þjónustu við Baader vélar bæði hérlendis og erlendis og framleiða í þær varahluti. Fyrirtækið stækkaði hratt, starfsmönnum fjölgaði og húsnæði stækkaði og brátt varð það þekkt fyrir að endurbæta og tölvuvæða ákveðna tegund Baader flökunarvéla, sem jók stórlega hráefnisnýtingu og hráefnismeðferð í fiskvinnslu. Í júní 2004 stofna hjónin Sólveig og Elliði fyrirtækið Gullmola ehf., sem síðar varð móðurfélag Curio ehf., og snérist starfsemin um að framleiða fiskvinnsluvélar frá grunni, út frá eigin hönnun, sem stæðust ýtrustu kröfur um efnisnotkun við matvælaframleiðslu, öryggisstaðla, áreiðanleika og nýtingu hráefnis.
www.curio.is

Starfsemin
Skrifstofur og aðalaðstaða Curio ehf. er að Eyrartröð 4 í Hafnarfirði, en þar hefur fyrirtækið starfað síðan árið 2011. Þar fer fram framleiðsla og samsetning en einnig fer fram framleiðsla að Eyrartröð 10 og 14 í Hafnarfirði, að Höfða 9 í Húsavík og í Peterhead í Skotlandi.
Curio einbeitir sér að frumvinnslu hráefnis í fiskvinnslu, þ.e. hausningu, flökun og roðflettingu. Fyrirtækið  kynnti nýja vélalínu fyrir fiskvinnslur árið 2008, sem sló í gegn og það ár voru pantaðar 14 flökunarvélar af þessari nýju tegund. Á árunum 2008 til 2012 var framleiðslugeta Curio þrjár til fjórar vélar á ári en með batnandi húsakosti ásamt fjárfestingum í öflugum framleiðslutækjum, getur fyrirtækið nú framleitt tvær til þrjár vélar á mánuði. Tæknifólk Curio og hönnuðir vinna að stöðugri þróunarvinnu fiskvinnsluvéla fyrirtækisins með það að markmiði að bæta áreiðanleika, endingu, nýtingu og framleiðsluhraða. Vélar Curio eru þekktar fyrir góða nýtingu og vinsældir vélanna og hróður eykst jafnt og þétt um heim allan.

Uppbygging á Húsavík
Árið 2015 gerðu Bæjarráð Norðurþings og Gullmolar ehf., móðurfélag Curio, samstarfssamning um að auka og styrkja starfsemi fyrirtækisins á Húsavík. Markmið samstarfssamningsins fól í sér að fyrirtækin flyttu hluta starfsemi sinnar til Húsavíkur til frekari uppbyggingar og að unnið yrði að fjölgun heilsársstarfa í Norðurþingi. Til að þetta mætti gerast, seldi sveitarfélagið Norðurþing Gullmolum ehf. húseign sína að Höfða 9 undir starfsemi fyrirtækisins en sú húseign hentaði sérstaklega vel í þessu tilliti ásamt því að á lóðinni var byggingaréttur sem tryggði áform félagsins um frekari uppbyggingu. Sama ár skrifuðu Curio og knattspyrnudeild Völsungs undir samstarfssamning um auglýsingu Curio á búningum félagsins.  Það samstarf hefur vaxið og dafnað í gegnum árin og varir enn, en Hreinn Elliðason, faðir Elliða, spilaði með og þjálfaði Völsung á sínum tíma auk þess að skora fjöldann allan af mörkum fyrir félagið.  Það voru því margvíslegar ástæður fyrir mikilli ánægju með samninginn innan raða Völsungs.

Þróunarstyrkir og Nýsköpunarverðlaun Íslands 2019
Curio hefur alla tíð leitt öflugt þróunarstarf hvað varðar vinnslu sjávarafurða. Félagið var framan af ekki áberandi í nýsköpunarsamfélaginu en þróunarstarf þess hefur vaxið jafnt og þétt.
Árið 2018 hlaut Curio svo tveggja milljóna evra styrk í nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins innan Horizon 2020 og veglegan styrk frá Tækniþróunarsjóði vorið 2019 vegna nýrrar tölvustýrðrar klumbuskurðarvélar. Nýsköpunarverðlaunin eru veitt árlega af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og hefur náð árangri á markaði. Árið 2019 hlaut Curio þessi verðlaun. „Það er mat dómnefndar að Curio hafi þróað framúrskarandi afurðir og leggi mikla áherslu á áframhaldandi þróun véla sem hafi alla burði til að ná árangri á markaði á næstu árum og sé vel að verðlaununum komið“, sagði í rökstuðningi dómnefndar.

Marel fjárfestir í félaginu
Í nóvember 2019 keypti Marel 40% hlut í Curio.  Fyrirtækin höfðu um árabil unnið saman að heildarlausnum fyrir mörg af framsæknustu fiskvinnslufyrirtækjum heims með góðum árangri og kaupin styrktu stefnu Marel um að vera leiðandi á heimsvísu í hátækniheildarlausnum fyrir fiskvinnslu. Elliði Hreinsson lét þau orð falla á þessum tímamótum að hann teldi þetta frábærar fréttir fyrir viðskiptavini fyrirtækjanna þar sem samlegðaráhrif myndu auka vöruúrval og gefa vöruþróun byr undir báða vængi og að hann hefði miklar væntingar til sameiginlegrar vöruþróunar.

Eyrartröð 4
220 Hafnarfirði
5874040
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd