Sveitarfélagið Dalabyggð varð til 1994, en síðasta sameining sveitarfélaga var 2006. Flest voru sveitarfélögin 10 á svæðinu; Skógarstrandar-, Hörðudals-, Miðdala-, Haukadals-, Laxárdals-, Hvamms-, Fellsstrandar-, Klofnings-, Skarðs- og Saurbæjarhreppar. Dalabyggð er um 2420 km2 og nær yfir landsvæðið frá Álfafirði að Gilsfjarðarbotni. Samkv. Hagstofunni eru 254 íbúar í Búðardal (póstnr. 370) og 385 íbúar í dreifbýli Dalabyggðar (póstnr. 371).
Grunnatvinnugreinar eru landbúnaður og ferðaþjónusta ásamt afleiddum störfum.Fjölmennustu vinnustaðirnir eru MS Búðardal, hjúkrunarheimilið Fellsendi og sveitarfélagið. Auðarskóli í Búðardal er samrekin leik-, grunn- og tónskóli með yfir 100 nemendum. Fjölbreyttir gistimöguleikar og þjónusta fyrir ferðamenn er til staðar.
Um Dalabyggð
Dalabyggð liggur fyrir botni Breiðafjarðar og inn af honum eru meðal annars Hvammsfjörður og Gilsfjörður. Breiðafjörður nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum í þeim tilgangi að stuðla að vernd sérstæðs landslags, jarðmyndana, lífríkis og menningarminja. Fjöldi eyja er á Breiðafirði og einna þéttastar eru þær við mynni Hvammsfjarðar. Haförn er ekki óalgeng sjón í Dölum.
Jarðhiti
Jarðhitasvæði eru í Laugadal, Reykjadal og Sælingsdal. Hitaveita í Suðurdölum og Búðardal fær vatn úr Reykjadal. Sælingsdalslaug er á Laugum og þar er einnig Byggðasafn Dalamanna. Leir frá síðustu ísöld er að finna við innanverðan Hvammsfjörð og á Skarðsströnd og er hann nýttur af leirlistarfólki.
Laxveiði
Margar laxveiðiár eru í Dölum og er laxveiði talin til hlunninda á um 130 jörðum. Þekktustu laxveiðiárnar eru Laxá í Dölum og Haukadalsá, auk fjölda annarra. Haukadalsvatn er langstærsta stöðuvatnið, en fleiri góð silungsvötn er einnig að finna.
Sagan
Fá héruð eiga sögu sína jafnvel skráða og Dalirnir. Þekktust landnámsmanna eru Auður djúpúðga og Geirmundur heljarskinn. Á Eiríksstöðum er tilgátubær og Vínlandssetur sem stendur við höfnina í Búðardal. Sturlungar áttu ættir sínar að rekja til Hvamms og á Staðarhóli bjó Sturla Þórðarson sagnaritari. Skarðsverjar voru löngum atkvæðamiklir, þekktastur þeirra er Ólöf ríka á 15. öld. Sauðafell var lengi höfðingjasetur og þar var Jón Arason biskup handtekin haustið 1550. Magnús Ketilsson sýslumaður var atkvæðamikill á 18. öld, mikill jarðræktarfrömuður, einn af frumkvöðlum Hrappseyjarprentsmiðu og gaf út fyrsta tímarit landsins. Torfi Bjarnason stofnaði fyrsta búnaðarskóla landsins í Ólafsdal og var einnig frumkvöðull að samvinnuverslun bænda. Staðarfell var mikið höfðingjasetur og þar var rekinn húsmæðraskóli á 20. öld.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd