Dalbær heimili aldraðra

2022

Dalbær heimili aldraðra er hjúkrunarheimili á Dalvík. Það var opnað árið 1979 og fyrstu íbúarnir fluttu inn þá um sumarið. Heimilið var svo formlega vígt í janúar 1980. Stofnendur heimilisins voru Dalvíkurbær og Svarfaðardalshreppur og síðar bættist Árskógsstrandarhreppur við en þessi aðilar sameinuðust í Dalvíkurbyggð fyirr ríflega 20 árum. Dalbær hefur alla tíð verið rekinn sem sjálfseignarstofnun með rekstarfé frá ríkinu, nú Sjúkratrygginum Íslands samkvæmt gildandi samningum hverju sinni. Ábyrgð á rekstri Dalbæjar er í höndum 5 manna stjórnar og yfirmanna heimilisins hverju sinni. Skipað er í stjórn Dalbæjar samhliða sveitarstjórnarkosningum og stjórn ræður yfirmenn heimilisins. Lengi vel var starfandi forstöðumaður og hjúkrunarforstjóri en sumarið 2018 voru þessi störf sameinuð í starf hjúkrunarframkvæmdastjóra og Elísa Rán Ingvarsdóttir hefur gegnt því starfi frá ágústmánuði 2018. Núverandi stjórn Dalbæjar skipa: Kristinn Bogi Antonsson formaður, Valdís Guðbrandsdóttir, varaformaður, Rúna Kristín Sigurðardóttir ritari, Heiða Hilmarsdóttir meðstjórnandi og Valdemar Þór Viðarsson meðstjórnandi. Auk þess eiga starfsmenn einn áheyrnarfulltrúa í stjórn.

Starfsemin
Dalbær hefur frá upphafi skipað mikilvægan sess í samfélaginu og sveitarfélaginu og notið mikils velvilja íbúa byggðarlagsins. Dalbær hefur alla tíð gengt sama hlutverki, þ.e. að vera heimili fyrir aldraða og í einhverjum tilvikum yngra fólk sem ekki getur búið í sjálfstæðri búsetu á eigin heimili og þarfnast umönnunar og aðstoðar. Dalbær er líka stór vinnustaður sem hefur verið svo lánsamur að búa við mikinn mannauð í gegnum tíðina. Á Dalbæ hafa margir byrjað sinn starfsferil sem oft hefur leitt til þess að fólk velur að mennta sig til starfa við umönnun og velferðarþjónustu eða haldið áfram að vinna á Dalbæ árum og áratugum saman.
Á Dalbæ eru nú 38 rými til búsetu, 11 dvalarrými og 27 hjúkrunarrými. Að öllu jöfnu er eitt hjúkrunarrýmið nýtt sem skammtímapláss. Einnig eru 14 dagdvalarrými. Að auki hefur Dalbær starfrækt félagsstarf fyrir aldraða og öryrkja í Dalvíkurbyggð yfir vetrarmánuðina samkvæmt samningi við sveitarfélagið. Allir íbúar Dalbæjar búa í einbýli og hefur svo verið nánast alfarið alla tíð. Árið 1995 var tekin í notkun viðbygging við Dalbæ með stórum matsal, eldhúsi, skrifstofum, starfsmannaaðstöðu o.fl. Framundan er umfangsmikið viðhalds- og endurbótaverkefni á eldri hluta húsnæðisins sem fjármagnað verður með framlögum frá Framkvæmdasjóði aldraðra og Dalvíkurbyggð.

Mannauður
Árið 2020 voru að jafnaði um 54 starfsmenn í ríflega 34 stöðugildum. Hér starfa hjúkrunar-fræðingar, sjúkraliðar, félagsliðar, iðjuþjálfi, hársnyrtir, húsvörður, matráður og stór hópur annarra starfsmanna við umönnun, félagsstarf og matargerð. Læknisþjónustu er sinnt af heimilislæknum frá heilsugæslustöð HSN á Dalvík samkvæmt verktakasamningi og sjúkra-þjálfi kemur tvisvar í viku í verktakavinnu. Þá nýtur heimilið þess að eiga marga góða vini og velunnara sem meðal annars koma og skemmta með tónlist og söng. Dalbær á einnig gott samstarf við heimahjúkrun, félagssþjónustuna, skólana og Dalvíkurprestakall. Smæð samfélagsins auðveldar samskipti og boðleiðir eru stuttar.

Gjafasjóður og hollvinasamtök
Haustið 2019 var haldið uppá 40 ára afmæli Dalbæjar og fékk heimilið þá ýmsar gjafir, m.a. peningagjafir sem runnu í Gjafasjóð Dalbæjar. Sá sjóður hefur fært heimilinu fjölmargar góðar gjafir í gegnum tíðina, t.d. sjúkrarúm, hjálpartæki, húsbúnað, sjónvörp, tölvur og líkamsræktarbúnað. Einnig hefur sjóðurinn lagt til fé í stærri verkefni og kaup eins og uppsetningu á þráðlausu neti og nýja þjónustubifreið fyrir heimilið. Í október 2019 voru stofnuð Hollvina-samtök Dalbæjar sem í byrjun árs 2020 færðu Dalbæ fyrstu gjöfina, rafdrifinn baðbekk. Fyrir nokkurm árum var staðið fyrir fjáröflun til að kaupa sérútbúið hjól sem heimilinu var síðan gefið. Síðan hafa áhugasamir hjólavinir lært á hjólið og geta boðið heimilisfólki í hjólatúr um bæinn og jafnvel kíkt við á kaffihúsi eða keypt ís í sjoppunni.

Viðburðir
Stærsti árlegi viðburður á Dalbæ er þorrablótið þar sem skemmta sér saman íbúar, starfsfólk og gestir. Komast færri að en vilja á þessa stórgóðu skemmtun þar sem boðið er uppá hefðbundið þorrahlaðborð, gamanmál, söng, annál, leikrit og dans. Einnig hefur skapast hefð fyrir vorfagnaði, haustfagnaði, útimarkaði, litlu-jólum, kaffihúsadögum og fleiru í þeim dúr. Þá kannast margir við handavinnusýningu sem hefur verið haldin á hverju vori í mörg ár og hana hafa sótt gestir víða að.

Árið 2020
Árið 2020 getur ekki talist venjulegt ár í starfemi Dalbæjar í ljósi heimsfaraldursins. Reyndar verður að telja desembermánuð 2019 með en þá geysaði aftakaveður á Norðurlandi og rafmagnslaust varð á Dalvík í nokkra sóalrhringa. Það var mikil áskorun að halda heimilislífinu á Dalbæ gangandi með öllum þeim verkefnum sem þarf að sinna án rafmagns og við vorum rækilega minnt á hve allt okkar daglega líf er háð rafmagninu. Það má teljast mildi að ekki varð slys eða óhapp í þessum aðstæðum þegar eina birtan í mesta skammdeginu var frá kertum og vasaljósum, bjöllukerfi óvirkt, elda þurfti yfir prímus og stórhríð úti. Starfsfólk og íbúar sýndu mikla útsjónarsemi og hér ríkti stóísk ró sem minnti á baðstofustemningu fyrri tíma.
Við horfum björtum augum til framtíðar jafnvel þótt umræðan um rekstarvanda hjúkrunar-heimila sé áberandi og mikil þörf á frekari uppbyggingu á húsnæði, aðstöðu og aukningu á mönnun hjá okkur eins og víða annars staðar. Mestu máli skipta þó manneskjur og þeirra lífsgæði og við leggjum áherslu á að stuðla að góðri líðan og velferð heimilisfólks, starfsfólks og annarra sem sækja Dalbæ heim.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd