Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð varð til árið 1998 þegar þrjú sveitarfélög við utan verðan Eyjafjörð; Dalvíkurbær, Svarfaðardalshreppur og Árskógshreppur sameinuðust undir einum hatti. Á merki Dalvíkurbyggðar er mynd af þremur fjöllum sem tákna uppruna sveitarfélagsins: fjöllin, ströndin og víkin. Í Dalvíkurbyggð búa um 2000 manns. Sjávarútvegur, fiskvinnsla og aðrar atvinnugreinar tengdar sjávarnytjum skipa öndvegissess en einnig eru hér öflug iðnaðarfyrirtæki og matvælafyrirtæki sem skapa fjölda fólks atvinnu. Þá hafa margir atvinnu af ýmis konar þjónustu, viðskiptum og verslun. Í sveitarfélaginu eru þrjár hafnir, ein í hverjum byggðakjarna. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu og hér hafa verið að byggjast upp öflug fyrirtæki á því sviði, allt frá hvalaskoðun yfir í þyrluskíðamennsku. Á Árskógsströnd standa þorpin Hauganes og Árskógssandur. Þar snýst lífið öðru fremur um blómstrandi ferðaþjónustu, fiskveiðar og fiskvinnslu. Landbúnaður í Dalvíkurbyggð er í öflugum í höndum framsækinna bænda. Mjólkur-framleiðsla er helsta lífsviðurværi bændanna og er stór hluti þeirra kúabúa með tölvustýrðan mjaltarþjón eða svokölluð róbótafjós. Flestir bændur stunda fjárbúskap, hvort sem um er að ræða áhugabúskap eða atvinnu. Hestamennska er hér bæði stunduð meðal bænda og bæjarbúa og er hér að finna eitt stærsta hesthús landsins, Hringsholt í Svarfaðardal. Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð er með öfluga þjónustu fyrir íbúa sína og rekur heimasíðu þar sem allar lykilupplýsingar eru aðgengilegar. www.dalvikurbyggd.is
Skólastarf
Dalvíkurskóli er staðsettur á Dalvík, en þar er kennsla fyrir 1-10 bekk. Á Árskógsströnd er Árskógaskóli sem er með kennslu fyrir börn frá 1-7. Bekk. Tveir leikskólar eru reknir í sveitarfélaginu, Krílakot á Dalvík og Kötlukot í Árskógi. Sveitafélagið rekur einnig metnaðar-fullan tónlistarskóla þar sem nemendum gefst kostur á að efla listsköpun sína á sviði tónlistar. Dalvíkurbyggð býður í raun upp á framúrskarandi umgjörð fyrir menntun barna. Smæðin reynist oft kostur og eru því til staðar kjöraðstæður til að ná heildrænt utan um börn og ná hámarksárangri með hvern nemanda. Metnaður í skólasamfélaginu er mikill og framþróun og grasrótarstarf öflugt.
Söfn, menning og mannlíf
Í Dalvíkurbyggð er öflugt og gróskufullt menningarlíf. Berg menningarhús stendur í miðju bæjarins og slær þar sem lífæð menningar- og félagsstarfs bæjarins. Í húsinu er fjölbreytt starfsemi sem leitast við að skapa veglega umgjörð og aðstöðu utan um hvers kyns menningarstarfsemi. Í húsinu hefur aðsetur Bókasafn Dalvíkurbyggðar sem þjónar bæði almenningi og skólum. Einnig stendur safnið fyrir reglulegum samverustundum, fræðslufyrirlestrum og nýjungagjörnum uppákomum fyrir gesti safnsins. Á sumrin er að auki starfandi upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn í Bergi menningarhúsi. Að auki við bókasafnið eru tvö önnur söfn, þ.e. Héraðsskjalasafn Svarfdæla og Byggðasafnið Hvoll. Héraðsskjalasafnið safnar, varðveitir og skráir opinber skjöl í umdæminu, skjöl félaga og úr einkaeigu eins og kostur er. Byggðasafnið Hvoll er vottað viðurkennt safn af Safnaráði. Þar eru ýmis áhöld og innanstokksmunir frá fyrri tíð sem vitna um þróun verkmenningar og sögu byggðarinnar. Starfsemi menningarhússins og safnanna heyra undir sama hatt og með því samstarfi hefur myndast aukið flæði í menningarstarfi Dalvíkurbyggðar.
Heilsueflandi Dalvíkurbyggð
Hitaveita Dalvíkur sér Dalvíkurbyggð fyrir heitu vatni og er stærsti hluti sveitafélagsins tengdur henni og nýtur góðs af. Til gamans má geta að í Svarfaðardal má finna elstu yfirbyggðu sundlaug landsins, Sundskála Svarfdæla, sem reistur var sumardaginn fyrsta 1929. Sundlaugin á Dalvík er þekkt fyrir fallegan byggingarstíl og hið frábæra útsýni hvort sem litið er úr pottum eða turni. Íþróttahús sem byggt var við sundlaugarbygginguna var tekið í notkun í október 2010. Í Dalvíkurbyggð eru einnig virk íþrótta- og tómstundafélög, sem og fjölbreytt störf í kringum heilsurækt utan íþróttamiðstöðvar.
Náttúran
Fjalllendi Tröllaskagans er að margra dómi ein mikilfenglegasta útivistarparadís landsins. Hér má finna gönguleiðir við allra hæfi allan ársins hring. Fyrir fjallgöngumenn eru fjallatindar af öllum stærðum og gerðum. Fyrir þá sem frekar kjósa styttri göngutúra má benda á stiklaðar gönguleiðir um Friðland Svarfdæla sem er elsta votlendisfriðland landsins, stofnað 1972 að frumkvæði bænda í Svarfaðardal.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd