Dekkjahöllin ehf

2022

Dekkjahöllin var stofnuð af Gunnari Kristdórssyni og er nú í eigu hans og fjölskyldu hans. Konan hans, Fjóla Sigurðardóttir, starfar einnig í fyrirtækinu, sem og þrjú börn hans, Elín Dögg, Kristdór Þór og Stefán. Barnabörnin taka jafnvel til hendi ef þörf er á, sannkallað fjölskyldufyrirtæki.

Sagan
Gunnar Kristdórsson opnaði fyrst hjólbarðaþjónustu í bílskúrnum heima hjá sér á Akureyri haustið 1982. Tveimur árum seinna var byggt húsnæði fyrir reksturinn í Draupnisgötu 5 og þá fékk fyrirtækið nafnið Dekkjahöllin. Þar er ennþá starfsrækt þjónustumiðstöð og aðalskrifstofur fyrirtækisins. Húsnæðið sem Gunnar byggði í Draupnisgötu var talið ágætlega stórt á sínum tíma, 6 þjónustubil, en ekki leið á löngu þar til það dugði ekki til og var þá byggt við árið 1991. Eftir það var húsnæðið orðið tæpir 650 m2 að flatarmáli og samtals 10 þjónustubil.
Árið 1993 var ákveðið að bæta við þjónustugreinum og smurþjónusta og bílaþvottur urðu fyrir valinu.
Árið 1998 var ákveðið að fara í útrás á önnur landsvæði og var þá Hlébarðinn ehf. í Fellabæ á Austurlandi keyptur. Markaði þetta fyrstu skref fyrirtækisins á Austurlandi, en árið 2002 var rekstur Sóldekks í Þverklettum 2 á Egilsstöðum einnig yfirtekinn og þar hefur verið byggt upp úrvals þjónustuverkstæði fyrir Austfirðinga, með hjólbarða- og smurþjónustu.
Á þessum árum jókst umfang fyrirtækisins enn frekar og það kallaði á stækkun húsnæðis. Hluti af Draupnisgötu 3 var keyptur og byggð tengibygging milli húsa árið 2000. Árið 2004 var síðan byggt við á Egilsstöðum.
Fyrsta þjónustuverkstæði fyrirtækisins í Reykjavík var opnað árið 2008 í Skeifunni 5. Fjórum árum síðar, vorið 2012, var opnað annað verkstæði í Skútuvogi 12. Aukin þjónusta, sala og innflutningur hefur kallað á enn frekari stækkanir fyrirtækisins. Á Egilsstöðum var húsnæði að Þverklettum 3 keypt og síðan Draupnisgata 1 á Akureyri. Í dag er reksturinn í 6400 fm, þar af er um 75% í eigin eigu. Þjónustubilin eru um 30 talsins. Vefsíða: dekkjahollin.is

Vörur og þjónusta
Í Dekkjahöllinni hefur ávallt verið lögð rík áhersla á fljóta og góða þjónustu. Jafnframt er áhersla á að selja úrval af vönduðum og góðum dekkjum fyrir kröfuharða ökumenn. Fjórar þjónustustöðvar eru nú í rekstri, á Akureyri, Egilsstöðum og tvær í Reykjavík. Dekkjahöllin er auk þess innflutningsfyrirtæki og flytur inn dekk fyrir flestöll farartæki, t.d. fólksbíla, jeppa, sendibíla, vörubíla og ýmsar búvélar. Jafnframt flytur fyrirtækið inn tengdar vörur sem tengjast rekstrinum, s.s. felgur, loftskynjara og margvíslegar rekstrarvörur.
Að síðustu má nefna að fyrirtækið er söluaðili fyrir tvo vandaða evrópska kerruframleiðendur. Upp úr aldamótum hófst vinna við að finna gæðakerrur til að selja, en í gamla daga hafði Gunnar smíðað og selt kerrur og taldi það passa vel með öðrum þjónustugreinum fyrirtækisins. Í dag selur fyrirtækið samsettar kerrur í flestum stærðarflokkum.
Framúrskarandi og til fyrirmyndar
Gunnar er frumkvöðull sem leggur mikla áherslu á fljóta og góða þjónustu en hann hefur einnig lagt áherslu á ábyrgan rekstur. Miklu máli skipti að greiða reikninga á réttum tíma og halda skuldum í lágmarki. Því kom það ekki á óvart þegar fyrirtækið fékk útnefningu sem Framúrskarandi fyrirtæki frá Credit-info, strax árið 2010 þegar þeir hófu að veita slíkar viðurkenningar og hefur fengið þær alla tíð síðan. Jafnframt hefur fyrirtækið fengið árlega útnefningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri frá Viðskiptablaðinu og Keldunni síðan 2017.

Mannauður
Mannauður fyrirtækisins er verðmætur og fjölmargir starfsmenn hafa fylgt fyrirtækinu í áratugi. Uppsöfnuð reynsla starfsmanna er gríðarleg. Til gamans má nefna að samanlagður starfsaldur þeirra 27 fastráðnu starfsmanna í lok árs 2020 eru tæp 275 ár eða 10 ár að meðaltali.
Í félags- og framkvæmdastjórn í árslok 2020 eru eftirfarandi: Gunnar Kristdórsson, Fjóla Sigurðardóttir, Elín Dögg Gunnars Väljaots, Kristdór Þór Gunnarsson og Þorgeir Jóhannesson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd