Traustar rætur í íslensku samfélagi
Sögu Deloitte á Íslandi má formlega rekja til stofnunar Endurskoðunar Sigurðar Stefáns-sonar árið 1952, sem varð fullgildur aðili að alþjóða endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu Deloitte Touche Tohmatsu International þann 15. mars 1994. Stoð endurskoðun hf. sameinaðist Endurskoðun Deloitte & Touche hf. þann 1. janúar 1999 undir nafninu Deloitte & Touche endurskoðun hf., Löggiltir endurskoðendur hf. bættust í hópinn þann 1. júlí 1999 og var nafninu breytt á þeim tímamótum og það stytt í Deloitte & Touche hf. Löggiltir endurskoðendur hf. var elsta endurskoðunarfyrirtæki landsins, stofnað 1927. Þann 1. janúar 2001 sameinaðist svo EBEÁ Endurskoðun, sem stofnuð var árið 1930, Deloitte & Touche hf. Á árunum 2000-2002 voru frekari sameiningar á sviði stjórnunar- og rekstrarráðgjafar fyrirtækisins. Í lok ársins 2003 var nafni Deloitte & Touche breytt á alþjóðavísu í Deloitte. Í kjölfarið var nafni fyrirtækisins breytt hér á landi í Deloitte í samræmi við alþjóðlegt vörumerki þess. Á þessum árum óx fyrirtækið jafnt og þétt. Til marks um það þá rúmuðust flestir starfsmenn Deloitte fyrir 20 árum í 600 fm húsnæði í Ármúla. Síðar flutti Deloitte á Stórhöfða í húsnæði sem var um 2.500 fm en nú er Deloitte á fimm hæðum í Turninum í Kópavogi, á svæði sem nemur um 4.000 fm. Á þessu tímabili hefur starfsmannafjöldinn farið úr um 30 í ríflega 260 manns.
Þar eru meðtaldir fjöldi sérfræðinga í upplýsingatækniráðgjöf en sú þjónustulína Deloitte varð til í júlí 2016 þegar gengið var frá kaupum Deloitte á félögunum Staki Automation og Talenta af Símanum. Megináhersla þessara fyrirtækja er á sjálfvirkni ferla, viðskiptagreind, greiningu gagna og SAP. Meginmarkmiðið með þessum kaupum var að efla upplýsingatækniþjónustu Deloitte á Íslandi, í takt við áherslur Deloitte á alþjóðavísu sem hefur yfir að ráða ríflega 30.000 sérfræðinga á því sviði.
En Deloitte rekur ekki aðeins öfluga starfsstöð í Kópavogi. Fyrsta starfsstöð Deloitte utan höfuðborgarsvæðisins var sett á laggirnar í Vestmannaeyjum árið 1980. Starfsstöðvarnar í dag eru nú í heildina 10, í Kópavogi, Vestmannaeyjum, Reykjanesbæ, Grundarfirði, Snæfellsbæ, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Neskaupsstað og á Höfn. Þá er Deloitte í samstarfi við endurskoðunarskrifstofur á Ísafirði, í Bolungarvík og í Færeyjum.
Mannauðurinn mikilvægasta auðlindin
Starfsfólk Deloitte er kjarninn í velgengi þess og hefur fyrirtækið á að skipa öflugum hópi sérfræðinga sem leggur sig daglega fram við að veita framúrskarandi þjónustu. Drifkraftur Deloitte er að hafa afgerandi áhrif með sínum störfum og vera leiðandi í ráðgjöf og þjónustu, þar sem gæði eru ávallt í forgrunni.
Mikil áhersla er því lögð á að hlúa vel að starfsfólki, vexti þeirra og framþróun, enda markmið Deloitte að vera talinn ákjósanlegasti vinnuveitandinn með öflugasta starfsfólkið. Deloitte hefur lagt áherslu á þrjá meginþætti þessu tengdu: veita starfsfólki markvissa þjálfun og endurgjöf, að starfsfólki líði vel í vinnunni s.s. með góðri vinnuaðstöðu, öflugu starfsmannafélagi og sveigjanlegum vinnutíma og að kynna Deloitte út á við sem öflugan vinnuveitanda.
Deloitte hefur um árabil haft virka menntaáætlun sem tekur til starfsfólks á öllum sviðum, þar sem óhæðis- og gæðamál fá sérstakan sess enda hornsteinn í starfsemi Deloitte. Þá var innleiddur stór áfangi á árinu 2017 þegar nýtt frammistöðumatskerfi var tekið upp. Í stað þess að veita árlegt mat á frammistöðu fortíðar byggir nýja kerfið á endurgjöf í rauntíma með áherslu á eflingu og hvatningu starfsfólks til frekari vaxtar. Það er Deloitte sérstakt keppikefli að hafa yfir að ráða vel menntuðu starfsfólki, á sem fjölbreyttustu sviðum. Hjá fyrirtækinu starfa yfir 40 löggiltir endurskoðendur en auk þeirra má nefna lögfræðinga, hagfræðinga, verkfræðinga, sálfræðinga, kennara og viðskiptafræðinga. Þá styður Deloitte við bakið á starfsfólki sem t.a.m. hyggst afla sér löggildingar í endurskoðun og á ári hverju fer hópur starfsmanna á sérstök námskeið hjá Deloitte University í Brussel. Að auki má nefna að Deloitte stendur vörð um fjölbreytni og jafnræði meðal starfsmanna, en hlutfall kynjanna meðal starfsmanna hefur verið nokkuð jafnt. Deloitte hefur virka jafnlaunastefnu og hefur hlotið vottanir sem staðfesta að eftir henni sé markvisst unnið. Deloitte leggur mikið uppúr því að stuðla að starfsþróun og að mæla árangur, en það er meðal annars gert með reglulegum starfsánægjukönnunum og mati starfsmanna á frammistöðu stjórnenda.
Markviss þátttaka í samfélaginu
Eins og mörg önnur stór íslensk fyrirtæki þá leggur Deloitte mikla rækt við að styðja við samfélagið. Það gerum við með margvíslegum hætti, t.a.m. með styrkjum til íþróttamála og góðgerðarmála um allt land og viðburðum þar sem við reynum að skapa umræðuvettvang um mikilvæg málefni. Nefna má Sjávarútvegsdag Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem haldinn var í fyrsta sinn árið 2014. Markmið þessa viðburðar er að draga saman stöðu og horfur í þessari mikilvægu atvinnugrein, en á Sjávarútvegsdeginum eru m.a. niðurstöður í sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte birtar. Þá er Deloitte stoltur samstarfsaðili Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) að hreyfiaflsverkefninu Jafnvægisvoginni sem fór af stað á árinu 2019. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Frá árinu 2018 hefur Heimsþing kvenleiðtoga Women Leaders Global Forum verið haldið hér á landi og koma þá saman hundruð kvenleiðtoga, víðs vegar að, og fjalla um jafnréttismál og stöðu kvenna í stjórnmálum og viðskiptum. Deloitte hefur verið bakhjarl þingsins frá upphafi. Á árinu 2019 gekk Deloitte til liðs við Snjallræði, fyrsta íslenska viðskiptahraðalinn fyrir samfélagslega nýsköpun. Hraðlinum er ætlað að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir aukið samfélagslegt frumkvöðlastarf. Nýsköpun er Deloitte hugleikið. Á árinu 2019 tók Deloitte höndum saman með Almannarómi, miðstöð um máltækni og Háskólanum í Reykjavík, að frekari þróun á íslenskum máltæknilausnum til að bjarga íslenskunni frá stafrænum dauða. Upphaflega fór verkefnið af stað með því markmiði að kenna vélmenninu AIME, afurð gervigreindarvinnu Deloitte í Hollandi, íslensku en með veglegum styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna var hægt að þróa verkefnið í www.samromur.is, raddsýnasöfnun fyrir opið gagnasafn raddsýna fyrir íslensku sem hver sem er getur notað til að þróa sínar máltæknilausnir.
Auk þessara verkefna má nefna árlegan Skattadag Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands og könnun Deloitte meðal fjármálastjóra stærstu fyrirtækja í Evrópu þar sem viðhorf þeirra til stöðu efnahagsmála eru kortlögð.
Frá endurskoðunarfyrirtæki til alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis
Meginbreytingin sem hefur orðið á starfsemi Deloitte undanfarin ár er aukin fjölbreytni í þjónustuframboði. Framan af var endurskoðun bróðurparturinn af starfsemi fyrirtækisins. Í dag skiptist Deloitte í sjö svið, sem auk Endurskoðunar og reikningsskilasviðs eru: áhætturáðgjöf, upplýsingatækniráðgjöf, fjármálaráðgjöf, skatta- og lögfræðiráðgjöf og viðskiptalausnir auk rekstrarsviðs sem sér um innri rekstur og þjónustu. Upplýsingatækniráðgjöf er nýjasta viðbótin við þjónustuframboð Deloitte. Upplýsingatækniráðgjöf sinnir meðal annars verkefnum á borð við stefnumótun í upplýsingatækni, viðskiptagreiningu, hýsingu gagna og samþættingu kerfa. Ráðgjöf í stefnumótun og rekstri snýr einkum að ráðgjöf til æðstu stjórnenda fyrirtækja og stofnana þegar kemur að rekstrarumbreytingu, stjórnun aðfangakeðju og stafræna umbreytingu. Endurskoðun og reikningsskil er enn í dag stærsta svið Deloitte með tæplega helming starfsmanna fyrirtækisins innanborðs. Starfsemi sviðsins má í grófum dráttum skipta í endurskoðun og könnun reikningsskila, alþjóðlega reikningsskilastaðla sem og ýmsa nátengda sérfræðiþjónustu. Viðskiptalausnir annast t.a.m. bókhald- og launavinnslu fyrir fjölda fyrirtækja, veita uppgjörsþjónustu og bjóða fyrirtækjum uppá tímabundnar ráðningar þegar hlaupa þarf í skarðið fyrir starfsmenn í fjárhagsdeildum.
Áhætturáðgjöf Deloitte veitir þjónustu m.a. á sviði netöryggismála, áhættustýringar, innri endurskoðunar, tölvuendurskoðunar og sinnir ráðgjöf á sviði persónuverndar. Fjármálaráðgjöfin hefur yfir að ráða sérfræðingum í kaupum og sölu fyrirtækja, áreiðanleikakönnunum, verðmatsgerð og líkanasmíði, svo eitthvað sé nefnt. Skatta- og lögfræðiráðgjöf Deloitte veitir alhliða skatta- og lögfræðiráðgjöf til innlendra jafnt sem alþjóðlegra fyrirtækja.
Þessi aukna fjölbreytni er í takt við aðild fyrirtækisins að Deloitte á alþjóðavísu en þar innanborðs eru ríflega 320 þúsund sérfræðingar starfandi í yfir 150 löndum. Saman myndum við öll stærsta endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtæki í heimi, sem gerir okkur kleift að þjónusta viðskiptavini okkar í öllum atvinnugreinum og hvar sem er í heiminum.
Deloitte hefur verið svo lánsamt að þjónusta viðskiptavini í öllum helstu atvinnugreinum á Íslandi. Má þar nefna fyrirtæki í sjávarútvegi, fjármálum, verslun- og þjónustu, framleiðslu, orku, heilbrigði, líftækni, tækni, fjarskiptum og opinbera aðila.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd