Hugbúnaðarfyrirtækið dk hugbúnaður ehf. framleiðir og selur viðskiptakerfi fyrir allar greinar atvinnulífsins. Viðskiptahugbúnaðurinn er alíslenskur hugbúnaður, þróaður og smíðaður frá grunni af starfsmönnum dk. Hann er sería af alls kyns samverkandi kerfum og er sérlega hentug heildarlausn fyrir íslensk fyrirtæki. Hugbúnaðurinn er afar einfaldur í uppsetningu og notkun og með honum fylgja full uppsett fyrirtækjaform sem hvert um sig inniheldur tilbúinn bókhaldslykil með tengingum við undirkerfi, uppsettan rekstrar- og efnahagsreikning ásamt sundurliðunum og sjóðstreymi.
dk
dk býður upp á allar algengustu kerfiseiningarnar eins og fjárhags-, viðskiptamanna-, lánadrottna-, innkaupa-, sölu-, birgða-, verk- og launakerfi. Auk þess býður það upp á úrval sérlausna fyrir ýmsar tegundir fyrirtækja, s.s. almenn þjónustufyrirtæki, verslanir, veitingahús, hótel og gististaði, stéttarfélög, sveitarfélög, endurskoðunar- og bókhaldsfyrirtæki, útgerðir, fiskvinnslur og framleiðslufyrirtæki svo eitthvað sé nefnt. Auk þess hefur dk smíðað önnur kerfi, bókunarvélar, vefsíður og vefþjónustur fyrir fyrirtæki og stofnanir. Einnig býður dk upp á alls kyns sérlausnir fyrir allar stærðir fyrirtækja. Í öllum kerfiseiningum dk eru að finna öflug greiningartól, hvort sem unnið er með fjárhag, viðskiptamenn, lánardrottna, sölu, birgðir, innkaup, verk eða laun. Greiningarvinnslurnar virka frá upphafi og ekki er þörf á langri og erfiðri uppsetningarvinnu með tilheyrandi tilraunum og prófunum.
Áskrift
Vinsælt er orðið að vera með dk viðskiptahugbúnaðinn í áskrift en þá er greitt mánaðarlegt gjald fyrir hugbúnað, uppfærslur- og þjónustugjöld. Þá velja alltaf fleiri og fleiri að hafa hug-
búnaðinn í hýsingu eða í skýinu en dk hugbúnaður er með öfluga hýsingardeild og rekur skýjaþjónustu fyrir stór og smá fyrirtæki. dk er stærsti hýsingaraðili SPLA-Microsoft lausna á Íslandi.
Skýjaþjónusta dk
Með því að notast við skýjaþjónustu dk eru fyrirtæki að tryggja sér aukið rekstraröryggi. Afritataka er alfarið í höndum dk og allur vélbúnaður sem og kerfissalur dk uppfyllir ströngustu skilyrði um gagnatengingar, vararaflstöðvar, aðgangsstýringar, vírusvarnir og bruna- og vatnslekavarnir, auk þess að vera undir stöðugu eftirliti fagmanna allan sólarhringinn.
Stofnun dk hugbúnaðar
dk hugbúnaður var stofnaður 1. desember 1998 af þeim Brynjari Hermannssyni, Dagbjarti Pálssyni, Magnúsi Pálssyni, Guðmundi Breiðdal og nokkrum fjárfestum. Þeir ákváðu að hanna bókhalds- og hótelkerfi. Í upphafi var sú ákvörðun tekin að smíða skattframtalsforrit fyrir endurskoðendur og bókara. Þeir fjórmenningar héldu síðan fyrstu kynninguna á skattaframtalinu í sal Vinstri grænna í húsakynnum Strætós í Hafnarstræti 1 þar sem fullt var út úr dyrum og hleypa þurfti inn í hollum. Í framhaldi af skattaframtalskerfinu kom svo dk viðskiptahugbúnaðurinn.
Staðan í dag
Nú rúmum 22 árum síðar er fyrirtækið orðið stórt og raunar eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins en það hefur vaxið að jafnaði um 15% ár hvert. Stefnt er að því að fyrirtækið vaxi áfram með sama hraða næstu ár. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrirtækið hóf starfsemi í litlu skrifstofunni í Hafnarstræti 1 fyrir rúmum tveimur áratugum en núna eru höfuðstöðvar dk staðsettar í turninum á Smáratorgi og einnig er útibú í Hafnarstræti á Akureyri.
Um 7.000 fyrirtæki hér á landi nota hugbúnað frá dk, þar af um 4.800 sem nýta sér skýjalausnir dk sem setur dk í 1. sæti hvað vinsældir varða.
Starfsmenn
Hjá dk starfa þrautreynt og öflugt lið vel menntaðra einstaklinga en starfsmenn dk eru orðnir um 70 og þar af 8 hjá útibúi fyrirtækisins á Akureyri. Starfsmenn veita hraða, nákvæma og örugga meðhöndlun upplýsinga sem er lykilþáttur í rekstri fyrirtækja og er ráðandi, jafnt við daglega stjórnun sem og stefnumótandi ákvarðanir. Starfsmenn dk veita aðstoð við úttekt á þörfum fyrirtækja og gefa góð ráð við endurskipulagningu þeirra. Markmið starfsmanna dk er að viðskiptavinir fyrirtækisins njóti bestu lausna og þjónustu hverju sinni.
Stöðug þróun
dk viðskiptahugbúnaður er í stöðugri þróun í takt við nýja tíma og nýjungar í allri nútímatækni. Hann hefur breyst mikið frá því hann kom fyrst á markaðinn, ekki síst eftir snjalltækjabyltinguna. Hugbúnaðurinn virkar á snjallsímum og spjaldtölvum. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar úr kerfinu í gegnum vafra.
Ný útgáfa „dk 5.0“
Ný útgáfa af dk viðskiptahugbúnaði kom út á árinu 2021. Útgáfa 5.0 inniheldur nýtt útlit sem er töluvert frábrugðið því sem hefur verið ráðandi síðustu 20 ár. Í þessari útgáfu hefur nýtt notendaviðmót verið tekið upp og er val um hvort aðalvalmynd kerfisins sé föst vinstra eða hægra megin á skjánum eða fljótandi eins og hún hefur verið í gegnum árin. Lögð er meiri áhersla á tækjastiku kerfisins sem aðlagar sig að þeim töflum og kerfiseiningum sem unnið er með hverju sinni. Allar aðgerðir eru sýnilegri en áður og útlitið nútímalegra. Einnig geta notendur aðlagað kerfið að sínum þörfum. Nú þegar hefur stór hópur tekið nýju útgáfuna í notkun og hún fengið mjög jákvæðar undirtektir.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd