Dohop ehf.

2022

Dohop var stofnað árið 2004, en á þeim tíma voru svokölluð lággjaldaflugfélög óðum að verða stærri hluti af flugi í heiminum en þau höfðu áður verið. Fram að því höfðu þau staðið utan við hinar hefðbundnu flugleiðir sem stóru flugfélögin markaðsetja. Dohop gerði mögulegt að tengja saman ólíkar flugleiðir og gat boðið viðskiptavinum sínum upp á ýmsa möguleika til að komast á áfangastað á hagstæðara verði. Til þess að svo mætti verða þurfti að kaupa gögn varðandi áætlanir flugfélaganna til að geta í framhaldinu miðlað þeim möguleikum sem sköpuðust við að tengja saman gríðarlegan fjölda flugáætlana og geta þar með boðið notendum Dohop upp á að sníða sín ferðaplön að eigin þörfum á betra verði á skjótan og öruggan hátt.
Árið 2009 leit út fyrir að flestir Íslendingar vissu um tilvist Dohop þótt vissulega hafi verið þörf fyrir að markaðssetja félagið enn betur, einkum þó á erlendum mörkuðum. Dohop náði t.d. að tvöfalda þann fjölda sem nýtti sér þjónustu félagsins á árunum milli 2009 og 2010 og svo aftur á milli 2010 og 2011. Það voru að stærstum hluta farþegar frá Íslandi.

Hugbúnaður
Dohop er þó miklu fremur hugbúnaðarfyrirtæki en ferðaskrifstofa. Tæknin byggir á upplýsingum um öll farþegaflug og jafnvel önnur flug í heiminum sem er blandað saman eftir ákveðnu regluverki og hugbúnaðurinn finnur út ýmsar ólíkar tengileiðir til hinna ýmsu áfangastaða í heiminum með útreiknuðum tengitíma og sú niðurstaða er síðan birt á vefsíðu fyrirtækisins. Að auki tengist Dohop beint við flugfélögin til að fá upplýsingar um verð og flugáætlanir. Þetta gefur margháttaða ferðamöguleika fyrir notendur þjónustunnar.

Sagan
Í raun má skipta sögu Dohop í tvo hluta. Fyrri hlutinn gerist á árunum 2004-2014 þar sem áherslan var mest á að þjónusta viðskiptavini á Íslandi í gegnum vefsíðuna dohop.is; en í dag og má segja frá ársbyrjun 2015 þegar Davíð Gunnarsson tók við sem framkvæmdastjóri þá var settur kraftur í að þjónusta flugfélög með því að nýta sömu grunntækni til að hjálpa flugfélögum að selja tengiflug í gegnum þeirra eigin vefsíður. Það er fyrst og fremst viðskiptamódel fyrirtækisins í dag.
Árið 2014 hófst samstarf við Gatwick-flugvöll í Lundúnum sem vildi fá aðstoð við að selja tengiflug þar sem þeir voru að þjónusta mörg lággjaldaflugfélög og í framhaldi af því fór Dohop að vinna með easyJet árið 2017. easyJet er eitt af stærstu flugfélögum í heimi og smám saman vatt þetta upp á sig og félagið fór að vinna beint með sífellt fleiri flugfélögum.
En áföllin létu ekki standa á sér því í ársbyrjun 2020 gekk COVID-19 faraldurinn yfir heimsbyggðina og setti heldur betur strik í reikninginn fyrir farþegaflug í heiminum. Dohop tókst með herkjum að lifa af það gríðarlega högg sem dundi á.
Davíð segir flugbransann vera afar lifandi og skemmtilegan en hann verður þó oft fyrir skakkaföllum. Þrátt fyrir að COVID-19 sé að mestu um garð gengið þá eru sum lönd ennþá með strangar takmarkanir og ekki orðinn sami erill í farþegaflugi og var áður en bylgjan fór af stað. Sem dæmi má nefna að flug milli heimsálfa ennþá nokkuð skert; er rétt svo helmingurinn af því sem það var áður og svo kom Úkraínustríðið með tilheyrandi olíukreppu. Þannig að farþegaflug í heiminum hefur þurft að þola miklar sveiflur í gegnum tíðina.

Mannauður
Dohop hefur í dag á að skipa einum 60 starfsmönnum sem flestir vinna á Íslandi og vegna eðlis flugsamgangna þá þarf að hafa fólk á ýmsum stöðum í heiminum og á sama hátt eru starfsmenn af ólíku þjóðerni. Dophop rekur sömuleiðis þjónustuver til að þjónusta viðskiptavini sína sem áður var staðsett í Úkraínu en vegna aðstæðna í dag þá var nauðsynlegt að auka þjónustu frá öðrum löndum, m.a. Búlgaríu, Indlandi og Fillippseyjum, en þar eru samtals 50 manns að störfum. Fjöldi bókana á mánuði er á bilinu 20 til 25 þúsund, en það er ekki í gegnum vefsíðuna sjálfa heldur í gegnum flugfélögin sem Dohop er í beinu samstarfi við.
Mikil vöruþróun og hugbúnaðarþróun á sér stað innan veggja fyrirtækisins og má sem dæmi nefna að vefsíðan dohop.is hefur hlotið verðlaun sem nefnast „World’s Leading Flight Comparison Website“ ein sex ár í röð.
Starfsmannastefnan svarar kröfum nútímans svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Hver og einn starfsmaður ber ábyrgð verkefnum sínum og sum eru þess eðlis að hægt er að vinna þau hvaðan sem er á hvaða tíma sem er. Allt byggist á trausti og færni hvers og eins metin að verðleikum.

Framtíðarsýn
Fyrirtækið er í stöðugri þróun og markviss uppbygging á sér stað þar sem verið að skapa hugbúnað, störf og tækni til framtíðar.

Afkoma
Velta á milli ára hefur verið rúmlega milljarður og að sögn framkvæmdastjórans er Dohop ekki að skila hagnaði þrátt fyrir að tekjurnar séu góðar, enn sem komið er.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd