Drífandi stéttarfélag var stofnað á vetrarvertíðinni árið 1917. Stofnaði félagið fljótlega Pöntunarfélag verkamanna, prentsmiðju og byggði Alþýðuhúsið í Vestmannaeyjum. Var þetta gert af mikilli nauðsyn þar sem ekki fékkst prentað í einu prentsmiðju bæjarins neitt frá félaginu, ekki var til húsnæði undir fundi og algengt var að fólk fengi launin greidd í matvöru fyrir vinnu sína en ekki í reiðufé. Miklir umbrotatímar voru í Evrópu á fyrri part tuttugustu aldar. Þessi áhrif fóru ekki fram hjá Vestmannaeyjum og fyrir tilstuðlan erindreka ASÍ stofnuðu konur í Drífanda Verkakvennafélagið Snót árið 1926, árið 1934 stofnuðu sjómenn Sjómannafélagið Jötunn og að árið 1939 var Verkalýðsfélag Vestmannaeyja stofnað með verkamönnum úr Drífanda. Þótti áhrifaöflum innan ASÍ að Drífandi horfði fullmikið til austurs og hugmynda bolsévismans. Verkamannafélagið Drífandi var lagt niður árið 1945. Eftir þessar sviptingar var verkafólk í kynjaskiptum félögum frá árinu 1926. Þann 9. desember árið 2000 sameinuðust Snót og Verkalýðsfélagið undir nafni Drífanda stéttarfélags og voru þá síðustu kynjaskiptu verkalýðsfélögin á Íslandi.
Frá árinu 2000 hefur verkafólk sem starfar hjá ríkisstofnunum, Vestmannaeyjabæ og á almennum vinnumarkaði komið fram undir merkjum Drífanda og verið virkt í störfum SGS og ASÍ. Frá því Drífandi var endurvakinn hefur félagið staðið frammi fyrir mörgum áskorunum. Sameiningar og hagræðing orðið meðal stærstu fyrirtækjanna í Eyjum með tilheyrandi fækkun starfa og hefur fjórða iðnbyltingin haldið innreið sína fyrir áratugum í fiskvinnslunni í Eyjum. Ásamt minni afla og breyttri samsetningu félagsmanna hefur það gjörbreytt starfi og eðli félagsins. Félagið stendur á traustum grunni sem félagsmenn lögðu með baráttu sinni á síðustu öld. Má segja að í raun sé meginhlutverk félagsins í dag að verja þá sigra sem forverarnir náðu ásamt því að byggja jafnt og þétt þar ofan á. Meginhlutverk Drífanda er í dag sem fyrr gerð kjarasamninga og verja réttindi og hagsmuni félagsmanna sinna. Stór hluti daglegs rekstrar í dag eru styrkveitingar úr fræðslu- og sjúkrasjóðum, útleiga íbúða og orlofshúsa auk aðstoðar við mjög fjölbreytt mál er koma upp hjá félagsmönnum.
Framtíðin verður krefjandi fyrir verkalýðshreyfinguna, breytt viðhorf til stéttarfélaga, fækkun starfa með tæknibreytingum og alþjóðavæðing setur verkalýðshreyfinguna í allt aðra stöðu en hún hefur staðið frammi fyrir. Hvernig til tekst mun tíminn einn skera úr um.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd