Fyrirtækið var stofnað í október 2012 af 3 konum, þeim Önnu Sigríði Jörundsdóttur, Birgittu Baldursdóttur og Sigrúnu Sigurðardóttur. Hugmyndin að verkefninu kviknaði í MBA námi við HÍ sem stofnendur stunduðu 2009-2011. Ætlunin var að útbúa og koma á markað gæludýralýsi. Þegar nánar var skoðað varð frumkvöðlum ljóst að nútíma framleiðsla á hefðbundnu lýsi til manneldis hafði fjarlægst mjög upprunann. Ákveðið var að fara í samstarf við Matís um þróun á framleiðslu á lýsi til manneldis sem væri lík þeirri framleiðslu sem var áður fyrr. Fyrsta afurð fyrirtækisins kom á markað í apríl 2015 en það var Dropi fljótandi lýsi og einnig lýsishylki úr fiskgelatíni. Árið 2016 bættist Ragnar Jóhannsson við sem hluthafi en hann hafði unnið með stofnendum frá upphafi. Í dag sjá Anna Sigríður og Sigrún um framleiðslu og rekstur fyrirtækisins í Bolungarvík en Óttar Kristinn Bjarnason sér um sölu- og markaðsstarf með aðsetur í Kópavogi. Stjórn fyrirtækisins skipa; Kristinn Jörundsson formaður, Ársæll Baldursson og Ingibjörg Þórdís Jónsdóttir.
Vinnulag og framleiðsluferli
Þekkingarleit frumkvöðla leiddi í ljós að hefðbundin framleiðsla á fiskiolíu væri komin langt frá upprunanum. Stefnan var því sett á að framleiða olíu úr þorsklifur sem innihéldi öll upprunaleg næringarefni. Ákveðið var að vinna eingöngu úr fersku hráefni sem tekið er af dagróðrabátum og kaldvinna það. Ekki er vitað um annan fiskiolíu-framleiðanda í heiminum með ámóta framleiðslu.
Skipulag og sérstaða
Sérstaða fyrirtækisins er framleiðsluferlið, ásamt staðsetningu verksmiðju, sögu framleiðslunnar og rekjanleika hráefnisins, en það er einsdæmi á alþjóðavísu í þessum flokki fiskiolía. Í olíunni er hátt gildi af furan fitusýrum sem vernda sérstaklega fyrir oxun fituefna í líkamanum. Sérstaða vörunnar, saga frumkvöðla og falleg hönnun á umbúðum gefur vörunni gæðastimpil. Bragðefnin sem notuð eru í framleiðslu bragðbætts Dropa eru lífrænar ilmkjarnaolíur.
Framtíðarsýn
Stefnt er á aukningu í sölu í Bandaríkjunum og Bretlandi með frekari dreifingu til verslana. Jafnframt er horft til annarra ríkja í Evrópu þar sem hefð er fyrir lýsi. Mikill áhugi hefur verið frá Kína og stefnt á þann markað innan 5 ára. Í dag eru 7 vörutegundir í vörulínu Dropa en unnið er í frekari þróun og stefnt á nýjar vörur á næstunni.
Aðsetur, velta og hagnaður
Verksmiðjan er staðsett við höfnina í Bolungarvík. Staðsetning vinnslunnar byggir á nálægð við ein fengsælustu fiskimið landsins en gríðarlegum afla er landað í Bolungarvíkurhöfn. Verksmiðjan er staðsett 50 metra frá löndunarstað og 200 metra frá fiskmarkaðinum.
Helstu markaðir Dropa fyrir utan Ísland eru Bandaríkin og Bretland. Í upphaflegu vörulínuna hafa bæst við fljótandi lýsi með engiferbragði og fennelbragði og hylki með grænmyntu.
Dropa hefur verið vel tekið á þeim mörkuðum sem hann er seldur á. Stöðugur vöxtur hefur verið í sölu ár frá ári. Eftir góðan vöxt fyrstu 2 árin þurfti fyrirtækið að breyta til í sölumálum til þess að taka ennþá stærri skref til framtíðar. Það hefur tekist mjög vel og hafa sölutekjur fyrirtækisins aukist mikið síðustu 2 ár.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd