Droplaugarstaðir hjúkrunarheimili

2022

Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir tók til starfa þann 30. júní 1982. Í fyrstu var heimilið hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða en þann 1. janúar 1996 var heimilinu alfarið breytt í hjúkrunarheimili. Droplaugarstaðir eru reknir á daggjöldum frá ríkinu og leigja húsnæðið af Reykjavíkurborg. Forstöðumaður heimilisins er Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, hún hefur gengt því starfi frá árinu 2018. Hjúkrunarstjóri er Inga Kolbrún Hjartardóttir.

Íbúar
Á Droplaugarstöðum búa 83 íbúar og eru allir í sérbýli með baði. Húsnæðið er á fjórum hæðum og skiptist starfsemin í fjórar deildir. Á annarri, þriðju og fjórðu hæð eru 26 – 28 íbúa deildir sem skiptast hver um sig í þrjár átta til tíu manna einingar. Á annarri og þriðju hæð eru sitthvor einingin fyrir heilabilaða sem hægt er að hafa lokaðar þegar á þarf að halda. Á fyrstu hæð er þriggja íbúa sérhæfð hjúkrunardeild fyrir einstaklinga með MND sjúkdóm. Boðið eru upp á sólarhringsþjónustu allt árið um kring en allir íbúar heimilisins hafa þörf á sólarhringshjúkrun. Íbúar á Droplaugarstöðum glíma við margvísleg líkamleg, andleg og félagsleg vandamál. Hjúkrun á heimilinu er mikil, flókin og sérhæfð samanber á MND deildinni þar sem íbúar geta verið bundnir við öndunarvél allan sólarhringinn.

Starfsemin
Hver heimilismaður á Droplaugarstöðum nýtur umönnunar hjúkrunarfræðings og sjúkraliða/starfsmanns. En áhersla er lögð á tengslamyndun og uppbyggilega aðlögun að nýju heimili. Hver heimilismaður hefur að auki tengil, sem er milliaðili í samskiptum við aðstandendur, starfsfólk og lækni. Hjúkrunarfræðingur setur fram hjúkrunaráætlun og tryggir að hjúkrunarþörfum viðkomandi sé fullnægt. Sjálfræði heimilismanns er ávallt í fyrirrúmi og einstaklingsbundnar skoðanir og vilji ráðandi í samskiptum sem og möguleikar viðkomandi til að hafa áhrif á eigin aðstæður.

Starfsfólk
Stefna Droplaugarstaða er að halda í góðan vinnuanda, að starfsfólk búi við öryggi og góðan aðbúnað á vinnustaðnum og að jafnrétti sé gætt í hvívetna. Árið 2021 voru að meðaltali 162 starfsmenn, í 115 stöðugildum, sem samanstanda af hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, félagsliðum, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum og öðrum starfsmönnum í hinum ýmsu störfum heimilisins. Á heimilinu er sjúkra- og iðjuþjálfun og hægt er að leita til öldrunarsálfræðings. Á heimilinu er fullkomið eldhús þar sem leitast er við að elda frá grunni og hafa heimabakað kaffibrauð. Einnig er starfrækt hárgreiðslustofa og fótaaðgerðarstofa.

Sjúkraþjálfun
Sjúkraþjálfarar koma að öllum íbúum Droplaugarstaða með einum eða öðrum hætti. Allir fá sína einstaklingstíma þar sem fram fer einstaklingsmiðuð sjúkraþjálfun, einnig er boðið upp á hópleikfimi. Sjúkraþjálfarar útvega öll hjálpartæki eftir þörfum íbúa auk þess að sjá um hjálpartæki sem notuð eru við umönnun á deildum heimilisins.
Markmið sjúkraþjálfunar er að viðhalda og bæta líkamlega færni og getu íbúa, auka lífsgæði þeirra og létta alla umönnun. Allt að 30 heimilismenn heimsækja sjúkraþjálfun Droplaugarstaða dag hvern. Flestir koma í hefðbundna þol- og styrktarþjálfun, aðrir til sérhæfðrar meðferðar og endurhæfingar. Sjúkraþjálfarar sinna einnig heimilismönnum á deildum þegar svo ber undir. Sjúkraþjálfun er heildræn og tekur mið af líkamlegum, andlegum og félagslegum þörfum hvers og eins íbúa. Sjúkraþjálfari sér um kennslu í starfsstellingum fyrir starfsmenn. Það er gert til að minnka áhættu á álagsmeiðslum við störf.

Iðjuþjálfun / Félagsstarf
Þegar einstaklingur flytur á Droplaugarstaði hefur þegar orðið röskun á daglegum venjum hans sökum veikinda eða öldrunar. Aukin þörf fyrir aðstoð við athafnir daglegs lífs, eins og að klæða sig eða fara í bað getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd einstaklingsins og dregið úr áhuga hans á þátttöku í tómstundum og afþreyingu.
Eitt af markmiðum iðjuþjálfunar er að gefa íbúum tækifæri til að virkja og viðhalda athafnagetu sinni með tómstundaiðju sem viðkomandi hefur ánægju af.
Á vegum iðjuþjálfunar er boðið er upp á bæði einstaklings- og hópastarf. Þar gefst einstaklingum kostur á að fást við ýmsa tómstundaiðju s.s. prjónaskap, blómarækt, spilamennsku, bakstur, söng, kaffispjall og fjölbreytt klúbbastarf.

Önnur þjónusta
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins annast alla læknisþjónustu á heimilinu samkvæmt þjónustusamningi.
Guðsþjónustur eru haldnar einu sinni í mánuði. Prestar Hallgrímskirkju annast messuhald og félagar úr kór aldraðra í Gerðubergi syngja við messu.

Öryggi, virkni og vellíðan
Droplaugarstaðir fengu ISO 9001 vottun árið 2020, fyrst hjúkrunarheimila á Íslandi og er mikil áhersla lögð á fagleg vinnubrögð og gæði þjónustunnar.
Droplaugarstaðir setja öryggi, virkni og vellíðan íbúa, starfsfólks og fjölskyldna í öndvegi. Borin er virðing fyrir íbúum heimilisins og markvisst unnið í anda þess að virða rétt íbúanna, óskir og áhugamál. Lífssaga íbúa er þar lykilatriði.
Lögð er áhersla á sjálfræði einstaklingsins, heimilislegt umhverfi, virðingu fyrir einkalífi, athafnasemi og að öryggi og vellíðan sé í fyrirrúmi. Til að ná því er starfsemin í stöðugri endurskoðun gegnum virkt gæðaeftirlit á öllum sviðum þjónustunnar.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd