Dverghamrar ehf.

2022

Verktakafyrirtækið Dverghamrar ehf. er eitt af elstu fyrirtækjum sinnar tegundar á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað árið 1986 og hefur starfað samfellt síðan. Það voru nýútskrifaðir byggingameistarar, Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Þröstur Valdimarsson, sem stofnuðu fyrirtækið. Magnús Jóhannes Sigurðsson byggingameistari gekk til liðs við þá ári síðar. Fyrstu árin var unnið með handflekamótum en árið 1998 voru keyptir byggingakranar og kranamót. Á sama tíma dró Þröstur sig út úr fyrirtækinu. Síðan þá hafa Guðmundur og Magnús átt fyrirtækið tveir saman. Megináhersla Dverghamra er bygging íbúðarhúsnæðis en einnig hefur fyrirtækið byggt iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði. Í gegnum tíðina hefur félagið haft eitt til tvö verkefni í gangi hverju sinni.

Fjölbreytt verk í 35 ár
Fyrstu verk Dverghamra voru parhús við Helgubraut í Kópavogi og við Suðurhvamm í Hafnarfirði en þeim verkum var skilað 1988. Fyrstu fjölbýlishúsin voru við Dofraberg og við Háholt í Hafnarfirði. Næstu árin á eftir hélt félagið sig að mestu við verkefni í Hafnarfirði og Kópavogi. Félagið tók þátt í uppbyggingu á blómlegum hverfum eins og Linda-, Sala- og Kórahverfunum í Kópavogi og svo Ása- og Vallahverfunum í Hafnarfirði. Í seinni tíð hefur félagið einnig fært sig yfir til Reykjavíkur og byggt fjölbýlishús við Mánatún, Hraunbæ og einnig við Skógarveg.
Alveg frá upphafi hafa Dverghamrar tileinkað sér þá stefnu að fjárfesta í byggingarlóðum og stýra sjálfir öllum hliðum framkvæmdanna, allt frá jarðvinnu og fram að sölu fullbúinna eigna. Fram til ársins 2006 sáu Dverghamrar sjálfir um uppsteypuhluta verkanna ásamt verk- og byggingarstjórnun en undirverktakar tóku að sér aðra verkþætti. Árið 2006 var gerð sú breyting að uppsteypuhluti verkanna var einnig boðinn út til undirverktöku. Því fylgdi sú áherslubreyting að starfsmenn Dverghamra sjá aðallega um stjórnun verkanna, innkaup og gæðaeftirlit.

Persónuleg þjónusta á traustum grunni
Í dag starfa 10 manns hjá Dverghömrum með ólíkan bakgrunn: verkfræðingur, húsa-smíðameistarar, smiðir, tækjamenn og verkamenn. Að auki starfa að jafnaði um 50 manns sem undirverktakar á ólíkum fagsviðum. Markmið félagsins er ávallt að veita framúrskarandi og faglega þjónustu og að skila af sér vönduðum íbúðum í góðum gæðum og á réttum tíma. Mikill metnaður er lagður í fagleg og öguð vinnubrögð sem byggja á langri reynslu og þekkingu úr greininni, auk þess sem fylgst er vel með nýjungum. Metnaður er lagður í að veita viðskiptavinum persónulega þjónustu og gott samstarf yfir byggingartímann. Fyrir vikið hefur fyrirtækið áunnið sér góðan orðstír fyrir vönduð vinnubrögð.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd