Árið 1993 ákváðu hjónin Soffía Kristín Kwaszenko og Jóhann Ingólfur Halldórsson, ásamt móður Soffíu, Elísu Magnúsdóttur Kwaszenko að stofna fyrirtæki á gæludýramarkaði. Það sumar voru gerð drög að stofnun fyrirtækis með heiðarleika í viðskiptum og virðingu fyrir dýrum sem grunngildi. Þann 21. febrúar 1995 var Dýrheimar sf. formlega stofnað og í maí sama ár ferðaðist Soffía til Frakklands þar sem undirritaður var dreifingarsamningur við fóðurframleiðandann Royal Canin. Markmið fyrirtækisins var að efla samfélag gæludýraeigenda og stuðla að bættri heilsu hunda og katta með því að bjóða upp á sérsniðið hunda- og kattafóður þar sem vísindi og rannsóknir lágu að baki. Fljótlega bættist í vöruúrvalið, m.a. hársnyrtivörur fyrir hunda og ketti frá Bio Groom sem og ýmsar sérvörur frá Ancol. Fyrirtækið gerði þá samning við félag kattaeigenda, Kynjaketti, um að styrkja eigendur katta ekki bara í að auka næringu katta sinna heldur einnig feldhirðu. Til að undirstrika mikilvægi feldhirðu katta var ákveðið að veita verðlaun, á sýningum Kynjakatta, fyrir best snyrtu kettina. Einnig var gerður samningur við Hundaræktarfélag Íslands um að styrkja hundasýningar félagsins. Fyrst barnastarfið með því styrkja för stigahæstu ungmenna til að sýna erlendis. Svo öldunga og hvolpa á öllum sýningum félagsins. Síðar bættust við útisýningar sem fyrirtækið styrkir með stolti.
Starfsemin
Fyrirtækið hefur líka verið öflugt í að styrkja dýralækna við að auka þekkingu sína á sjúkdómum í hundum og köttum og jafnframt fengið til landsins sérfræðinga í ýmsum greinum til að fræða bæði dýralækna og ræktendur hunda og katta. Á upphafsárunum var erfitt að koma hunda- og kattavörum á framfæri þar sem hundahald var bannað á höfuðborgarsvæðinu sem og lítil áhersla lögð á næringarinnihald fóðurs fyrir hunda og ketti. Til að vekja athygli á vörunum á gæludýramarkaði var lögð áhersla á fræðslu á sölubásum hunda- og kattasýninga. Til aðstoðar á sýningum var sonur þeirra hjóna, Halldór Jóhannsson og tengdadóttir, Ingibjörg Björnsdóttir sem sá einnig um færslu bókhalds. Öll unnu þau saman að því að koma vörum fyrirtækisins á framfæri til að stuðla að bættri heilsu dýranna. Á þriðja starfsári urðu breytingar í eigendahópi fyrirtækisins þegar Elísa fór út og Halldór kom í hennar stað inn í fyrirtækið sem eigandi við hlið foreldra sinna. Eigendur unnu öll önnur störf samhliða fyrirtækjarekstrinum þar til fyrirtækið varð sjálfbært. Jóhann starfaði við trésmíði á daginn og hjá fyrirtækinu á kvöldin og um helgar. Soffía starfaði hjá fyrirtækinu á daginn en við ræstingar á kvöldin og Halldór starfaði sem sölumaður á daginn en hjá fyrirtækinu á kvöldin og um helgar. Þannig gátu eigendur unnið að uppbyggingu fyrirtækisins og reksturinn vaxið með sjálfbærum hætti.
Aðsetur
Fyrstu árin var fyrirtækið starfrækt í bílskúr á heimili Soffíu og Jóhanns og vörur keyrðar út á heimilisbílnum en fljótlega var starfsemin farin að springa út og ljóst að fara þurfti í fjár-festingar á húsnæði og fyrirtækjabíl. Fyrsta lagerhúsnæðið var keypt á Höfðabakka 9 og var fyrirtækið rekið þar í um 3 ár. Vöxtur fyrirtækisins var þá orðinn nokkur og þörf á frekari stækkun húsnæðis nauðsynleg. Árið 2003 flutti fyrirtækið að Bæjarflöt 5 þar sem fyrirtækið starfaði allt til ársins 2011 þegar aftur var komin þörf á stækkun. Fyrirtækið keypti þá nýtt húsnæði að Ögurhvarfi 8 þar sem skrifstofa og vöruhús fyrirtækisins er staðsett í dag. Fram til ársins 2017 hafði fyrirtækið einbeitt sér að heildsölumarkaði en með kaupum á fyrirtækinu Dýralandi ehf. útvíkkaði það starfsemi sína til smásölu en fyrirtækið rak nokkrar gæludýraverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Fljótlega eftir kaupin var verslunum Dýralands lokað í þeirri mynd sem þær voru og smásölu starfsemin færð inn í vefverslun með þjónustu um land allt.
Þjónusta
Hjá fyrirtækinu starfar nú öflugur hópur starfsmanna sem hver um sig er sérfræðingur á sínu sviði, í næringu og velferð hunda og katta. Nú sem fyrr snýst starfsemin um að auka velferð gæludýra með því að uppfylla þarfir eigenda þeirra svo dýrunum líði sem best, vaxi og dafni. Við þessar breytingar var áhersla aukin á þjónustu við viðskiptavini og samfélagið sett á laggirnar. Samfélagið er staður þar sem hunda- og kattaunnendur geta sótt þær vörur og þjónustu sem þeir þurfa til að annast dýrið sitt með öruggum hætti, tryggt velferð þeirra og heilsu, bæði andlega og líkamlega. Samfélagið er einnig félagsskapur sérfræðinga og hunda- og kattaunnenda er hjálpast að við ýmsa þætti tengdum hundum og köttum.
Royal Canin
Aukin áhersla hefur verið sett á að kynna vísindin á bakvið Royal Canin vörurnar og sér næringarfræðingur um fræðslu því tengdu. Glæsileg aðstaða til kynninga er nú til staðar hjá fyrirtækinu þar sem hægt er að bjóða hinum ýmsum hópum til fræðslu eins og nýjum hvolpa og kettlingaeigendum, ræktendum, dýralæknum sem og starfsmönnum dýralæknastofa.
Til að tryggja sýnileika og aðgengi að heildarvörulínu Royal Canin hefur verið opnaður sýningarsalur í afgreiðslu fyrirtækisins. Það hefur reynst vel að geta sýnt vörurnar og rætt samtímis um kosti hverrar tegundar og hvað hentar hverju dýri fyrir sig.
Markmið
Þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi í gegnum árin hefur reksturinn gengið vel enda hafa eigendur ávallt lagt áherslu á ábyrgan rekstur sem og einbeitt sér að verkefninu, að gera heiminn betri fyrir gæludýr, fremur en hagnað. Alla tíð hefur virðing og ást á hundum og köttum stýrt ferðinni og fyrirtækið vaxið ár frá ári. Auk heiðarleika og virðingar eru gildi fyrirtækisins liðsheild og þekking.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd