Malbikunarstöð Austurlands er staðsett á Reyðarfirði og var stofnuð árið 2019 af Guðmundi Pálssyni sem jafnframt á og rekur East coast rental ehf. samhliða.
Að jafnaði starfa 15-20 manns hjá fyrirtækjunum og fer það eftir eðli verkefnanna fyrir hvort þessara fyrirtækja þeir vinna. Það liggur því í hlutarins eðli að þegar um malbikunarframkvæmdir er að ræða þá eru þær á vegum Malbikunarstöðvarinnar en þegar önnur verkefni kalla þá kemur til kasta ECR. Það má segja að þessi tvö fyrirtæki falli undir þann hatt að vera dæmigerð verktakafyrirtæki sem taka að sér að þjónusta ýmsa aðila á svæðinu. Stórir verkkaupendur eru t.a.m. álverið í Reyðarfirði, laxeldisfyrirtæki á Austfjörðum og sveitarfélög sem þurfa á verkþjónustu að halda.
Starfsemin
Guðmundur Pálsson er vel þekktur athafnamaður fyrir austan og hefur staðið í rekstri frá árinu 1981. Árið 1996 stofnar hann Áhaldaleigu Austurlands en síðar meir eða árið 2012 stofnaði hann East coast rental og svo síðast Malbikunarstöðina. Fyrirtækin búa yfir miklum og góðum tækja- og vélakosti og geta þar af leiðandi veitt fyrirtækjum á svæðinu fjölbreytta þjónustu eins og þrif og viðhald í álverinu, malbikun, snjómokstur, grasslátt, auk ýmissa smærri og stærra verkefna sem til falla eða eru boðin út. Guðmundur er einkum þekktur fyrir greiðvikni og gengur langt í þeirri viðleitni sinni að leysa vandasöm verkefni af hendi þegar á þarf að halda og er alla jafnan fljótur að bregðast við ef til hans er leitað. Það starfa þrjár konur í fyrirtækinu sem verður öðrum þræði að teljast karlavinnustaður, en flest þeirra verkefna sem um ræðir gera kröfu um vasklegt líkamlegt atgervi þeirra sem starfa að þeim.
Að sögn eru næg verkefni fyrir austan og sjaldan dauð stund. Það þarf ekki einungis að sinna þjónustunni heldur er líka nóg að gera í því að viðhalda tækjabúnaði og húsnæði. Það koma þeir tímar þegar mikið er um að vera eins og alþekkt er á Íslandi og langar erilsamar vinnutarnir er eitthvað sem flestir kannast við. Fyrirtæki Guðmundar eru þannig í stakk búin að geta sinnt flestum verkum enda fjölbreytnin mikil. Sjálfur kýs hann að ganga í verkin með mannskapnum fremur en að sitja inni á kontór enda sannur framkvæmdamaður með gott orðspor. Góður andi ríkir innan starfsmannahópsins og flestum þykir gaman í vinnunni; einkum og sér í lagi þegar mikið er að gera. Þá leggjast allir á eitt um að finna lausnir og ganga í verkin.
Framtíðarsýn
Hvað Malbikunarstöðina áhrærir þá er ljóst að alltaf verða einhvers staðar vegaspottar sem þarf að klæða eða bæta og sú athafnasemi sem hefur einkennt atvinnulífið á landsbyggðinni mun seint leggjast af. Athafnaskáld og framkvæmdamenn eins og Guðmundur munu ávallt skapa sér og öðrum verkefni á öllum tímum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd