Eðalfiskur í þrjátíu ár – Saga og þróun
Hugmynd um vinnslu og sölu á unnum laxaafurðum varð til árið 1987 í Borgarfirði. Hugmyndin fékk góðan stuðning vegna hinna mörgu gjöfulu laxveiðiáa í héraðinu. Þann 25. mars 1987 var haldinn fundur í Vírneti h/f um stofnun og rekstur á fyrritæki sem kæmi til með að slátra og reykja lax. Fundurinn var boðaður að frumkvæði Jóns Gests Sveinbjörnssonar og Páls Guðbjartssonar. Jón Gestur hafði unnið við fiskirækt og vinnslu í Noregi nokkru áður. Samtals voru 9 undirbúningsfundir haldnir um stofnun félagsins í framhaldinu. Stofnfundur félagsins var haldinn fimmtudaginn 4. júní 1987 að Hótel Borgarnesi kl. 20. Formaður undirbúningsstjórnar, Eiríkur Ingólfsson setti fundinn og lagði til að Bjarni Arason yrði fundarstjóri. Fundarstjóri las upp hluthafaskrá og var hún samþykkt. Safnað var 6 milljónum króna í hlutafé. Í stjórn voru kosnir: Eiríkur Ingólfsson, Bjarni Arason, Jón Gestur Sveinbjörnsson, Sveinn Snorrason og Magnús Aspelund. Til vara: Theodór Þórðarson, Þórólfur Sveinsson, Sæmundur Guðmundsson, Ólafur Skúlason og Jón Guðlaugur Magnússon. Endurskoðendur félagsins voru kjörnir Gísli Kjartansson og Gísli Karlsson. Indriði Albertson til vara. Þórir Páll Guðjónsson var ráðinn fyrsti framkvæmdarstjóri félagsins frá 1. ágúst 1987.
Fram til ársins 2004 voru bæði sólskinsár og regnár í rekstri félagsins. Eigendaskipti voru tíð. Ragnar Hjörleifsson stýrði Eðalfisk sem framkvæmdarstjóri frá árinu 1991 og fram til 2001 en þá ár varð methagnaður af rekstri félagsins. Eigendur árið 2002 voru svissneskir aðilar, Sparisjóður Mýrasýslu auk Íslensk Ameríska. Sparisjóður Mýrasýslu keypti hlutbréf allra annarra og var félagið rekið sem deild undir Borgarnes-Kjötvörum fram til 1. mars 2004. Þá seldi Sparisjóður Mýrasýslu rekstur laxvinnslunnar í Eðalfiski til þriggja einstaklinga. Birgir Benediktsson, Dagný Hjálmarsdóttir og Pétur Már Jónsson keyptu þann rekstur í gegnum nýstofnað félag sitt, Eðalfang. Kristján Rafn Sigurðsson, fisktæknir varð framkvæmdarstjóri félagsins og keypti hlut Péturs í ársbyrjun 2005. Allt frá þeim tíma hefur verið stöðugur og jafn vöxtur í umfangi og rekstri félagsins.
Aðsetur og rekstur
Ráðist var í byggingu nýs sérhannaðs verksmiðjuhúsnæðis að Sólbakka 4, Borgarnesi undir starfsemina. Við gerð húsnæðis var miðað við 270 tonna vinnslu á reyktum laxaafurðum á ársgrundvelli. Flutt var í nýja húsnæðið í september 2005.
Árið 2007 keypti Eðalfiskur rekstur Fiskiðjunnar Reykás og hóf starfsemi að Grandagarði 33 í vinnslu á villtum laxi sem var aðskilin annarri starfsemi. Margir veiðimenn nýttu sér þessa þjónustu. Rekstrinum var hætt árið 2010 þar sem arðsemi var lítil sem engin. Með auknum verkefnum á árinu 2009 þótti ljóst að húsnæðið var strax orðið of lítið. Það var þó ekki fyrr en í desembermánuði 2016 að samningar tókust um kaup á stærra húsnæði að Vallarási 7-9 þar sem Eðalfiskur er nú til húsa. Í dag eru heilsdagsstörfin 26 og starfsemin fjölbreyttari en áður. Mun meiri og nákvæmari vélbúnaður hefur stuðlað að meiri afköstum og gæðum framleiðslunnar. Öryggissjónarmið eiga ríkari sess í framleiðsluferlum og annað verklag við framleiðslu hefur gert störfin auðveldari.
Vinnulag og framleiðsluferli
Frá vinnslu í höndum á villtum laxi og regnbogasilungi í upphafi hafa orðið stórstígar tæknibreytingar frá stofnun Eðalfisks. Frá árinu 2005 hefur allur lax verið vélflakaður með góðri nýtingu hráefnis. Tækjakostur hefur smám saman eflst og stuðlað að hagkvæmari og nákvæmari framleiðsluaðferðum. Mestur vöxtur hefur orðið í sölu á ferskum laxi, bæði innanlands og erlendis. Þá er verktaka fyrir stærri aðila í laxaiðnaði stór hluti rekstrar.
Reyking á laxi hefur þó ekki breyst mikið í áranna rás en gæðastýring og matvælaöryggi hefur aukist gríðarlega. Eðalfiskur fór í gegnum BRC vottun nú í haust og er eina reykhúsið með slíka vottun á Íslandi. BRC er staðall þróaður af British Retail Consortium er í dag í notkun hjá matvælaframleiðendum um allan heim. Mörg bresk og bandarísk smásölufyrirtæki mæla með að birgjar þeirra fyrir matvæli uppfylli kröfur staðalsins.
Framtíðin og umhverfið
Með auknu laxeldi á Íslandi fylgja aukin verkefni fyrir hina ýmsu aðila, auk tækifæra til sérvinnslu. Eðalfiskur tekur ekki pólitíska afstöðu til sjókvíaeldis eða landeldis. Lögð er áhersla á að skipta við birgja sem standast mat á gæði hráefnis, starfsleyfis, vottana, frammistöðu þjónustu, lögum (reglum) og siðferðis.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd