Efnalaug Dóru

2022

Árið 1996 í janúar, keyptum við hjónin tæki af Jaspis ehf. til þess að opna efnalaug. Starfsemina byrjuðum við í bílskúrnum heima hjá okkur. Tækjakosturinn samanstóð af þurrhreinsivél, 23 kg þvottavél, strauborði og gínu.

Starfsemin
Til að byrja með voru þetta aðallega almennir þvottar fyrir fyrirtæki hér á staðnum, ásamt mottu- og dúkaleigu, sem við bjóðum enn uppá í dag. Um sumarið gerðum við svo okkar fyrsta samning við hótel um þvott á rúmfötum og handklæðum. Á sama tíma réðum við starfsmann, en fram að þeim tíma hafði Dóra séð um starfsemina. Árið 1997 var orðin meiri eftirspurn eftir þvotti fyrir hótel, svo við fórum að líta eftir húsnæði til þess að stækka við okkur. Þá byggðum við hús ásamt systur Dóru, sem var að stækka líkamsræktarstöð sem hún rak í húsinu. Í ágúst sama ár fluttum við þar inn í 110 fm, og við fyrirtækið störfuðu þrír starfsmenn. Á árunum 1997-1998 jókst þvottur fyrir hótel til muna og meðal annars keyrðum við með þvott út í Öræfi eða 130 km hvora leið. Ýmist þvoðum við lín sem hótelinu áttu sjálf, en að stórum hluta var línið leigt hjá okkur. Á þessum tíma gerðum við líka samning við heilbrigðisstofnunina á staðnum og þvoum enn þann dag í dag allan þvott fyrir þau og fatnað af vistmönnum þar. Umsvifin héldu áfram að aukast og í kringum árið 2000 vorum við farin að þvo 800-1000 rúmföt á dag, á svipuðum tíma keyptum við stóran sendibíl til þess að flytja þvott á milli, og keyrðum á þeim tíma m.a. í Kirkjubæjarklaustur sem er 200 km akstur frá okkur. Við fjárfestum líka í tveimur strauvélum sem brutu sængurverin saman að hluta til, það auðveldaði vinnuna mikið og var mikill kostur. Á þessum tíma voru við með 10-15 starfsmenn í vinnu allt árið um kring. Árið 2002 keyptum við stærri hluta í húsnæðinu sem við vorum í og opnuðum þar verslun með fatnað, skó, vefnaðarvöru og fleira. Verslunina rákum við með góðum árangri til ársins 2019, en þá ákváðum við að hætta verslunarrekstri og einbeita okkur að rekstri Efnalaugarinnar. Árið 2015 höfðu umsvifin enn aukist og segja má að húsnæðið hafi sprungið utan af okkur, við vorum komin með gáma fyrir utan þvottahúsið til þess að geyma þvott. Þá fórum við að skoða möguleika á byggingu nýs húsnæðis.
Í mars árið 2016 byrjuðum við á byggingu 360 fm stálgrindarhúss og 1. október sama ár fluttum við inn, á sama tíma bættum við tækjakost okkar með nýjum þvottavélum, þurrkurum og strauvél sem brýtur sængurverin saman og skilar þeim í bunka, og fullkominni þurrhreinsivél. Húsið er byggt eftir ströngustu sóttvarnarreglum, og það kemur sér vel á COVID tímum. Allur óhreinn þvottur kemur inn í sér rými og hreinn þvottur er í öðru rými og er gegnið frá honum þar og hann afgreiddur út þaðan.

Framtíðarsýn
Í dag starfar fyrirtækið með allt öðru sniði en venjulega, eins og víðar hefur COVID-19 mikil áhrif. Starfsmannafjöldinn hefur farið úr 8 starfsmönnunum í 100 % starfshlutfalli í 4 starfsmenn og í 50 % starfshlutfall. Þar sem allur rekstur er með allt öðru sniði en venjulega og hefur minnkað um 90 % vegna COVID-19. Við látum þetta ástand þó ekki hafa nein áhrif á okkur og horfum bjartsýn til ársins 2021.

Bugðuleiru 4
780 Höfn í Hornafirði
4782217
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd