Starfsemi Efnalaugarinnar Bjargar hófst þegar Magnús Kristinsson ungur maður frá Vestmannaeyjum festi kaup á efnalaug árið 1953. Fyrstu árin var starfsemin í húsnæði á Sólvallagötu 74 og síðar með útibú í Barmahlíð 6. Árið 1967 festi Magnús kaup á húsnæði í Miðbæ við Háaleitisbraut 58-60 og hefur starfsemin verið þar æ síðan. Árið 1984 kom tengdasonur Magnúsar, Kristinn Guðjónsson inn í reksturinn og ári síðar hinn tengdasonurinn Sigurður Jónsson en Ágústa dóttir Magnúsar hafði þá lengi starfað með föður sínum. Nú hafa orðið kynslóðaskipti í annað sinn og þriðja kynslóð tekið við rekstri beggja fyrirtækjanna og þykir það nokkuð einsdæmi hér á landi. Nú hefur Kristinn Kristinsson, afabarn Magnúsar til dæmis tekið við Björg á Háaleitisbrautinni og Guðrún einnig afabarn Magnúsar tekið við rekstri Mjóddarinnar.
Starfsemin
Þegar borgin stækkar er nauðsynlegt að ná til fleiri viðskiptavina og árið 1987 festu eigendur kaup á verslunarhúsnæði að Álfabakka í Mjódd og settu upp fullkomna efnalaug þar en Breiðholtið var orðið ansi stórt úthverfi í Reykjavík og vildum við þjóna þeim á viðeigandi hátt. Þessar tvær efnalaugar voru svo reknar saman þar til undir aldamót þegar ákveðið var að hvor aðili um sig sæi um sina rekstrareiningu. Í framhlaldi af þessari uppskiptingu hóf Háaleitisbrautin að setja upp þvottahús sem hafði áður verið utan ramma hennar. Viðskiptavinir vildu nýta sér dúkaþvott og einnig heimilis- og skyrtuþvott. Á þessum árum var mikill uppgangur í viðskiptalífinu og þjónusta við viðskiptalífið fór vaxandi. Jafnt og þétt jukust viðskpti í þvottahúsinu og fjárfest var stöðugt í meiri og betri búnaði og svo var komið að festa þurfti viðbótar húsnæði á Háaleitisbraut til þess að koma auknum vélbúnaði fyrir. Þá má geta þess að við höfum leigt út dúka og servíettur og þjónað ýmsum veitingastöðum í bænum með þeim hætti.
Góður vélbúnaður og gott starfsfólk er það sem heldur fyrirtæki gangandi á hverjum tíma sama hvernig árar í þjóðfélaginu. Við höfum þar haft láni að fagna og haldist vel á starfsfólki gegnum árin. Hin síðari ár höfum við fengið til vinnu hjá okkur æ fleiri Víetnama sem hefur reynst okkur afar vel. Einnig höfum við haft að leiðarljósi að endurnýja og viðhalda vélum og tækjum eins og kostur er á hverjum tíma. Þá höfum við sótt námskeið og nýjungar erlendis með reglubundnum hætti til þess að fylgja nýrri tækni og meðhöndlun viðkvæmra efna af fremsta megni. Margir sem ekki þekkja til halda að þurrhreinsun fari fram á þurran hátt en svo er alls ekki. Þurrhreinsun er aðeins þýðing á „dry cleaning” en þar er átt við að flíkin fer í vélina þurr og kemur þurr út aftur. Flíkurnar blotna eins og í þvottavél en án dropa af vatni. Vökvinn nýtist aftur eftir að vélin hreinsar hann og er því þessi aðferð nokkuð vistvæn þar sem ekkert fer út í andrúmsloftið. Vélbúnaðurinn er nokkuð flókinn og góðar vélar vinna vel eins og í flestum öðrum tilfellum. Hins vegar er mannshöndin nauðsynleg í frágangi og það er þar sem aðal vinnan fer fram, straujun, pressun, eftirlit og yfirferð á hverri flík. Þess vegna er mikill kostnaður við hverja flík því, hún fer milli margra handa í hverri umferð.
Gæði – þekking – þjónusta
Kjörorð okkar hefur lengi verið: „Gæði – þekking – þjónusta”. Við það viljum við standa og veita okkar viðskiptavinum faglega þjónustu að öllu leyti. Til þess að viðhalda og auka þekkingu erum við einnig í alþjóða samtökum LCI (Laundry and drycleaning International) og fáum þaðan aukna reynslu og miðlun upplýsinga um hin ólíklegusut mál sem upp geta komið.
Umhverfismál
Umhverfismál eru okkur einnig hugleikin og langt er síðan við byrjuðum að flokka rusl hjá okkur og farga á viðeigandi hátt. Þá höfum við einnig tekið þátt í „plastlausum september” og hafa okkar viðskiptavinir tekið vel undir þá viðleitni en þeir koma víða að frá nærliggjandi bæjarfélögum.
Ánægðir viðskiptavinir
Rekstur fyrirtækis er aldrei spretthlaup en alltaf langhlaup. Við viljum hafa viðskiptavini ánægða og fá þá aftur til okkar og vera traustvekjandi. Það hefur ávallt verið hugsunin hjá okkur að við erum með verðmæti annara í höndunum og verðum ávallt að gæta þess. Oft og tíðum er um viðkvæma hluti að ræða sem ekki verða lagaðir ef út af ber. Þessi hugsun hefur ávllalt verið ráðandi og vonandi hafa viðskiptavinir okkar fundið það og treyst okkur gegn um árin með sín mál. Fagleg þekking og reynsla eru nauðsynlegir þættir í svona rekstri og á það höfum við alltaf lagt ríka áherslu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd