Eitt fullkomnasta verkstæði í Evrópu á sviði netagerðar og netaviðgerða er að finna á Eskifirði. Hjá Egersund Ísland eru veiðarfæri tekin beint úr skipum inn í hús og beint úr húsi í skip, sem sparar jafnt tíma og flutninga. Aðstaðan býður einnig upp á geymslu á veiðarfærum. Velta Egersund Ísland hefur tvöfaldast frá árinu 2008.
Egersund Ísland ehf. á Eskifirði er alhliða þjónustufyrirtæki í sölu, veiðarfæragerð, viðgerðum á trollum og nótum, auk annarrar þjónustu við útgerðarfyrirtæki. Egersund hefur einnig á undanförnum misserum stóraukið þjónustu við fiskeldi með sölu á búnaði fyrir bæði sjó- og landeldi, auk þess sem fyrirtækið tók fyrir ári síðan í notkun nýja og sérhæfða þvottastöð fyrir nætur fiskeldiskvía.
Verkefnin
Benedikt Ernir Stefánsson, sölu- og markaðsstjóri Egersund Ísland ehf. segir vöxt í verkefnum í kringum fiskeldið kærkominn, ekki síst þar sem loðnuveiðar hafi ekki verið síðustu tvö ár. „Við erum samt bjartsýnir á að loðnuveiðar verði í vetur og næstu ár ef horft er til þess að mikið magn af ungloðnu mældist í haust og í fyrra. Loðnan mun skila sér og þær veiðar skipta okkar fyrirtæki auðvitað miklu máli,“ segir Benedikt Ernir. Vaxtarsprotinn okkar er fiskeldið. Við bjóðum tækni- og söluþjónustu frá AKWA group í Noregi. Við seljum kvíar, net, fóðurpramma, fóðurkerfi, myndavélabúnað, stjórn- og eftirlitskerfi og raunar allt fyrir eldið nema fóðrið sjálft.
Sama er að segja um búnað fyrir landeldið sem einnig snýst um kerfi í kringum dælingu á vatni, vatnsgæði og fleira,“ segir Benedikt Ernir og bætir við að í árslok 2019 hafi Egersund Ísland náð stórum áfanga í þjónustuuppbyggingu við sjókvíaeldi þegar fyrirtækið tók í notkun þvottastöð fyrir nætur fiskeldiskvía.
Í Fiskifréttum árið 2017 segir:
Stefán Ingvarsson er framkvæmdastjóri Egersund Ísland og hann er enginn nýgræðingur í veiðarfæragerð og viðgerðum. Fyrir 1996 sótti Eskja, sem þá hét Hraðfrystihús Eskifjarðar, alla sína þjónustu til Netagerðar Friðriks Vilhjálmssonar í Neskaupstað sem nú er hluti af Fjarðaneti. 1996 ákvað Aðalsteinn Jónsson heitinn að opna eigið netaverkstæði á Eskifirði. Þá var hafði Stefán nýlokið námi í netagerð. Aðalsteinn réði Stefán sem framkvæmdastjóra netaverkstæðisins. „Ég er reyndar fæddur í Hafnarfirði og bjó þar þangað til ég varð sextán ára. Þá fór ég á sjó á Reyðarfirði og hef búið þar frá 1979.“
Hluti af Egersund Group
Á árunum 2003-2004 seldi Eskja netaverkstæðið, vélaverkstæðið og rafmagnsverkstæðið. Stefáni bauðst að kaupa netaverkstæðið og fékk hann Egersund Group í Noregi í lið með sér sem á meirihluta. Egersund Ísland hefur því verið hluti af Egersund Group samsteypunni norsku frá árinu 2004. Egersund Group er stór fyrirtækjasamsteypa með rekstur víða í Noregi, þar á meðal veiðarfæragerð og þjónustu við fiskeldi og eru stærstir á því sviði í Noregi. Einnig rekur samsteypan verksmiðjur í Litháen þar sem net í fiskeldispoka eru framleidd. Samsteypan er samsett úr tíu fyrirtækjum og eitt þeirra er Akva Group sem framleiðir meðal annars fóðurbáta. Sú eining veltir meiri fjármunum en allar aðrar einingar samanlagt. Þess má geta að Arnarlax keypti nýlega 600 tonna fóðurpramma frá Akva.
Veiðarfærahótelið fullnýtt
Egersund Ísland er ein af þessum tíu einingum sem mynda Egersund Group. 2008 var byrjað að reisa nýja netaverkstæðið á Hafnargötu. Húsið er 25 metrar á breidd. 15 metrar af breiddinni nýtist fyrir vinnu við veiðarfæri og veiðarfærahótelið tekur tíu metra af heildarbreiddinni.
Í því eru 24 hólf og hvert hólf tekur eina nót. „Veiðarfærahótelið er fullnýtt allt árið. Það fer mun betur með veiðarfærin að geyma þau inni í upphituðu húsnæði en utanhúss. Auk þess sem það er sjónmengun af þeim utanhúss. Hótelið hefur verið fullt í þrjú ár og segja má að nýtingin hafi verið 100%. Við höfum neyðst til að færast undan geymslu á veiðarfærum. Aðstaðan hjá okkur er þannig að bryggjan er hérna beint fyrir framan. Bátarnir leggjast að bryggjunni og taka veiðarfærin beint um borð eða koma þeim frá sér beint í hús. Þessu fylgir mikill tímasparnaður. Tími getur skipt sköpum í útgerð á loðnu- og makrílvertíðum. Hver klukkustund skiptir máli því göngurnar eru oft á hraðferð. Hér áður fyrr gat það tekið heilan dag að koma grunnnót fyrir á flutningabíl, fara með hana út á bryggju og koma henni um borð. Núna erum við í mesta lagi tvær klukkustundir að koma grunnnót í bát. Við erum í lykilstaðsetningu hérna við bryggjuna,“ segir Stefán.
630-650 milljóna kr. ársvelta
Egersund Ísland framleiðir flottroll af ýmsum stærðum og gerðum, makríltroll, kolmunnatroll, síldartroll, loðnutroll, kolmunnapoka, síldarpoka, makrílpoka og loðnupoka. Á hótelinu eru geymdar nætur fyrir Eskju, Síldarvinnsluna í Neskaupstað, Samherja, Gjögur og Loðnuvinnsluna á Fáskrúðsfirði sem eru í föstum viðskiptum við Egersund Ísland. Farið er yfir næturnar og gert við þær. Ársvelta fyrirtækisins hefur verið undanfarin ár á bilinu 630-650 milljónir króna. Fimmtán starfsmenn eru á Eskifirði og söluskrifstofa er í Sjávarklasanum í Reykjavík. „Við liggjum vel við því hérna fyrir utan eru fiskimiðin. Þetta byrjar í janúar með loðnu og kolmunnaveiðum við Færeyjar. Svo er mikil umferð norskra loðnuveiðiskipa þegar loðnuveiðar hefjast og við höfum gert talsvert mikið við fyrir þá. Þeir lönduðu í nýja uppsjávarfrystihúsið hjá Eskju. Þeir lönduðu einum 8 þúsund tonnum hérna á Eskifirði á síðustu vertíð.“
Tími er peningar
Inni á gólfi netaverkstæðisins var troll sem var tekið úr Hákoni EA rétt eftir hádegi. Verið var að skipta um fótreipiskeðju í trollinu og lauk því verki um fjögurleytið síðdegis. Verk af þessu tagi hefði tekið að minnsta kosti heilan dag áður. Á meðan hélt Hákon kyrru fyrir úti á firði og frysti.
Þrír nemar í veiðarfæragerð starfa hjá Egersund Ísland en starfsmannavelta hefur verið lítil allt frá því að fyrirtækið var stofnað 2004. Nokkrir af starfsmönnunum hafa verið hjá fyrirtækinu frá upphafi. Nú er undirbúningur hafinn fyrir byggingu á þvottastöð fyrir laxapoka á lóð Egersund Ísland. Þá var reist 800 fermetra skemma á lóðinni síðastliðið sumar þar sem ýmiss búnaður og áhöld eru geymd.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd