Eignamiðlun

2022

Elsta starfandi fasteignasala á Íslandi
Hjá Eignamiðlun ehf. á Grensásvegi 11 í Reykjavík starfa rúmlega 20 manns við kaup og sölu fasteigna. Fyrirtækið er elsta fasteignasala á Íslandi, stofnuð árið 1957. Reynsla, heiðarleiki og þekking á fasteignamarkaðnum er grunnur að farsælum viðskiptum að mati eigenda Eignamiðlunar.
Starfsfólk fyrirtækisins býr yfir mikilli reynslu og sérþekkingu á sviði fasteignaviðskipta. Meðal viðskiptavina Eignamiðlunar má nefna einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir, banka, hið opinbera og sveitarfélög. Stærstu verkefni fyrirtækisins eru sala á íbúðar- og atvinnuhúsnæði og verðmat á fasteignum.
Sverrir Kristinsson fasteignasali eignaðist Eignamiðlun árið 1970 en hann seldi sinn hlut árið 2019 þegar nýir eigendur tóku við taumunum. Núverandi eigendur eru fasteignasalarnir Kjartan Hallgeirsson, sem hóf störf hjá Eignamiðlun árið 1999 og Guðlaugur Ingi Guðlaugsson, sem gekk til liðs við fyrirtækið árið 2013. Kjartan hefur meðfram störfum sínum hjá Eignamiðlun gegnt formennsku í Félagi fasteignasala frá árinu 2016.

Löng og farsæl rekstrarsaga
Fyrirtækið var stofnað árið 1957 af hæstaréttarlögmönnunum Sigurði Ólasyni og Þorvaldi Lúðvíkssyni. Þegar Sverrir Kristinsson keypti Eignamiðlun árið 1970 hafði hann áður unnið á tveimur öðrum fasteignasölum. Á þeim tíma var Eignamiðlun til húsa í Vonarstræti 12, húsi Skúla Thoroddsen, sem nú er búið að flytja. Þá var Sigurður Ólason lögfræðingur Eignamiðlunar en Unnsteinn Beck lögmaður tók við því hlutverki árið 1980 þegar fyrirtækið fluttist í Þingholtsstræti 3. Þar var starfsemin í 10 ár þangað til flutt var í Síðumúla 21 árið 1990. Þorleifur Stefán Guðmundsson líffræðingur hóf störf hjá Eignamiðlun árið 1981, var meðeigandi og starfaði í fyrirtækinu til dauðadags eða í 35 ár. Hann var brautryðjandi í þróun hugbúnaðar fyrir fasteignasala hér á landi.
Valtýr Sigurðsson starfaði sem lögfræðingur Eignamiðlunar á árabilinu 1982-1983, þá í leyfi frá störfum héraðsdómara. Þórólfur Halldórsson, lögmaður og formaður Félags fasteignasala á árunum 1986-1993, kom inn í reksturinn með Sverri árið 1983 og var lögfræðingur Eignamiðlunar til 1994. Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður starfaði sem lögfræðingur hjá Eignamiðlun á árunum 1986-1988. Guðmundur Sigurjónsson, alþjóðlegur stórmeistari í skák, varð lögfræðingur fyrirtækisins árið 1988 og einn eigenda. Árið 2007 bætist Kjartan Hallgeirsson í eigendahópinn og tekur síðar við af Sverri sem framkvæmdastjóri árið 2014, sem hafði þá verið framkvæmdastjóri í 44 ár.
Guðlaugur Ingi Guðlaugsson varð hluthafi árið 2016. Eignamiðlun var 25 ár í Síðumúlanum en fluttist á Grensásveg 11 árið 2015 þar sem hún er til húsa í dag.
Árið 2019 seldu Sverrir og Guðmundur hlut sinn í Eignamiðlun og Kjartan Hallgeirsson og Guðlaugur Ingi Guðlaugsson keyptu reksturinn að fullu.
Góð þjónusta og vönduð vinnubrögð
Kjartan Hallgeirsson er framkvæmdastjóri Eignamiðlunar og segir að stærsta eign hverrar fasteignasölu sé gott orðspor og heiðarlegt starfsfólk. „Í mínum huga byggjast fasteignasölur fyrst og fremst upp með vönduðum vinnubrögðum og því fólki sem starfar hjá þeim. Eignamiðlun er rótgróið fyrirtæki þar sem markmiðið hefur alltaf verið að veita viðskiptavinum fyrsta flokks þjónustu. Hér er lítil starfmannavelta og eigendurnir hafa lagt upp úr því í gegnum tíðina að skapa gott vinnuumhverfi þar sem starfsfólk getur þróast og þroskast. Við höfum náð góðum árangri og siglt í gegnum miklar breytingar á síðustu árum. Markmið okkar er að gera enn betur í framtíðinni og halda áfram að vera leiðandi í fasteignaviðskiptum á Íslandi um ókomin ár,“ segir Kjartan.

Miklar breytingar á hálfri öld
Þegar rýnt er í söguna frá stofnun Eignamiðlunar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Sverrir Kristinsson, sem lengst hefur starfað hjá Eignamiðlun eða í hálfa öld, man þá tíð þegar ritvélar og kalkipappír voru helstu vinnutæki fasteignasala.
„Það er alveg með ólíkindum hvað þetta gekk allt vel. Fyrstu árin voru ritvélarnar alls ráðandi og tölvurnar komu á skrifstofuna í lok níunda áratugarins. Ljósritun keyptum við stundum á ljósritunarstofu í Austurstræti og svo var hlaupið með auglýsingar, jafnvel handskrifaðar, til Morgunblaðsins í Aðalstræti. Á níunda áratugnum kemur út sérstakt fasteignablað hjá Morgunblaðinu og þar var Eignamiðlunin alltaf með auglýsingu og síðar með opnu í hverri viku. Svo kom tímabil þar sem fasteignir voru töluvert auglýstar í sjónvarpi. Nú er Netið allsráðandi og allar upplýsingar um fasteignir ásamt myndum liggja fyrir allra augum. Þannig að þetta er eins og í öðrum rekstri þar sem verða miklar breytingar í takti við þróun í þjóðfélaginu,“ segir Sverrir.

Vinnulag og lagaumhverfi hefur þróast
Velta á fasteignamarkaði helst í hendur við stöðu efnahagslífsins hverju sinni. Á samdráttar-skeiðum er markaðurinn öðruvísi en í þenslu. Það er hörð samkeppni á meðal fasteignasala en á höfuðborgarsvæðinu eru fjölmargar fasteignasölur.
Lagaumgjörð í fasteignaviðskiptum hefur tekið stakkaskiptum á síðustu áratugum. Nú er gengið frá söluyfirlitum samkvæmt forskrift og fasteignasalar verða að afla sér allra opinberra gagna, t.d. er varða lánamál, stærðir, aldur og gerð húsnæðis. Skoðunarskylda er rík og fara þarf vel yfir ástand eigna þegar þær skipta um eigendur. Við tilboðsgerð þurfa bæði tilboðsgjafar og seljendur að undirrita skjöl sem tryggir að allar upplýsingar liggja fyrir.
Í dag þurfa fasteignasalar að hafa skriflegt umboð til þess að mega selja eign. Þar koma fram helstu skilmálar, s.s. um þjónustu, auglýsingar, myndatökur og þóknun. Þessi skriflegu umboð komu gríðarlegri festu á markaðinn sem var til bóta að mati eigenda Eignamiðlunar.

Viðurkenningar
Eignamiðlun hlaut fyrst nafnbótina „Framúrskarandi fyrirtæki“ hjá Creditinfo árið 2013 og hefur síðan oft verið í hópi íslenskra fyrirtækja sem vottuð eru með þeim hætti. Þegar Eignamiðlun flutti í Síðumúla 21 árið 1990 var útbúið aðgengi fyrir fatlaða. Á þeim tíma fékk fyrirtækið viðurkenningu frá Sjálfsbjörgu, landssambandi hreyfihamlaðra, fyrir framtakið sem þykir sjálfsagt í dag.

Hvað þarf til að vera góður fasteignasali?
Með nýlegum lögum var gerð aukin krafa um menntun fasteignasala. Þau sem starfa í greininni þurfa að vera löggiltir fasteignasalar eða með réttindi sem slíkir eins og viðskiptafræðingar eða lögfræðingar. Nemar mega starfa undir handleiðslu þeirra sem eru með réttindi.
„Eins og í öðrum atvinnugreinum þarf fólk að vera heiðarlegt og nákvæmt. Fasteignasalar þurfa að vanda sig og taka tillit til viðskiptavinanna, bæði kaupenda og seljenda. Okkur ber að gæta hagsmuna beggja aðila og fasteignasalar bera heilmikla ábyrgð. Það skiptir mestu máli að leggja áherslu á vönduð vinnubrögð. Fyrirtækið hefur góða sögu og við höfum ekki orðið fyrir neinum skakkaföllum. Eignamiðlun hefur gott orðspor sem er afar dýrmætt. Við erum að fjalla um aleigu fólks og við verðum að haga okkur í samræmi við það. Við sinnum öllu jafnt, hvort sem það er lítil kjallaraíbúð eða heil blokk sem okkur hefur verið falið að selja. Það verður að leggja sömu áherslu á allt og sinna öllum vel,“ segir Sverrir Kristinsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd